Færsluflokkur: Bloggar

Þú berð ábyrgð og þér ber skilda að hugsa vel um aldraða foreldra ef þau eru á lífi.

Að vakna upp einn daginn og gera sér grein fyrir því að nú er farið að halla undan fæti og nýtt verkefni hefur bæst við lífsstílinn þ. e. a. nú er komið að okkur að þakka fyrir góða umönnun foreldra og borga fyrir eins vel og maður getur. Þá vaknar oft spurningin erum við nægilega hraust sjálf til að standa í þessu og eigum við góð systkin sem eru tilbúin að taka þátt í þessu með okkur? 

Ég er heppin.  Á þrjú systkin sem öll taka þátt í því að hugsa um aldraða móður okkar.  Erum samt óskaplega heppin þar sem hún er hress og getur séð um sig sjálf að mestu leiti alvg að verða 86 ára, en auðvitað fylgir þessu kvabb og rugl öðru hverju sem við reynum að leiða hjá okkur eins og hægt er. 

Verðum stundum pirruð, bara eðlilegt.

Annað er með tengdaföður minn sem á fimm börn en engin virðist hafa tíma fyrir hann.  Ekki bara það en þau talast varla við.  Hann er orðinn mjög farlama og ótækt að hafa hann á Eir lengur þar sem hann getur engan vegin hugsað um sig og er ekki á sjúkradeildinni.

Ég skrifa þetta nú hér til að létta aðeins á sálinni.  Mér hefur fundist minn elskulegi alveg hafa haft nóg á sinni könnu með mig veika í nær átta mánuði fyrir utan árið á undan í Prag. Það er ekki bara hann Þórir minn sem er búinn að standa með mér í gegn um þessi veikindi, stundum finnst mér hann ofvernda mig en á að vera þákklát fyrir allt sem hann gerir fyrir mig.  Einnig hafa  

dóttir okkar og sonur, þeirra makar staðið eins og klettar við hlið okkar allan tímann og þess vegna veit ég hvað það er mikils virði að eiga góð og tillitsöm börn sem jafnvel fljúga yfir til Íslands til að fylgjast með gömlu kerlingunni. (ég er nú ekki alveg svo gömul samt)!

Nú stendur yfir ferðamannahelgi ársins og þá að sjálfsögðu öll fjölskylda míns elskulega í sumarhúsum eða annars staðar.  Það er eins og sumir hafi heldur ekki síma við höndina!

Á miðvikudaginn fór minn elskulegi í brjósklosaðgerð og á þ.a.l. að taka það rólega næstu vikur en er farinn að keyra bílinn og transporta upp á Eir til gamla ef hann hringir og það er ekki ósjaldan núna að hann er ósjálfbjarga heima hjá sér gamli maðurinn og eini afkomandinn sem honum dettur í að hringja í er Þórir.

Jæja þá er ég búin að koma þessu frá mér og eftir helgina verður að fara að ganga í því að koma gamla tengdó á öruggan stað þar sem hann fær almennilega hlynningu.

Ef til vill koma þessi skrif mín einhverjum til að hugsa sem er í svipaðri aðstöðu.

Komi fólki til að hugsa og framkvæma en ekki bera allar áhyggjur heimsins á herðunum og gera ekkert í málunum.  Nú tala ég til þeirra sem eiga systkini en deila ekki ábyrgð og allt liggur eins og mara á einum bróður eða systur.

Talið saman en þegið ekki þunnu hljóði.

 


Sumarsmellur Siglfirðinga algjör hitt-samba!

Í gærkvöldi hitti ég eðalperluvinkonur mínar sem ég hafði ekki séð í allt of langan tíma og hreinlega vanrækt.  Ég vona að mér sé fyrirgefið það hér og nú.

Ef einhver hefur legið á hleri og heyrt í okkur masið og hláturrokurnar þá er það svo sem allt í lagi en á tímabili var ég fegin að við vorum ekki staddar í blokkaríbúð því það hefði örugglega einhver verið búin að hringja á babú-bílinn og senda okkur inn við sundin blá.

Þegar konur á sjötugsaldri eru farnar að syngja og leika Mærin fór í dansinn, Frímann fór á engjar.  Rifja upp alla hina leikina sem við fórum í.  Hvernig við strikuðum parís allt upp í tröllaparís, kíló, einn, tveir , þrír, fjórir, fimm, Dimmalimm.  Sippó, teyjutwist, snú snú og hvað þetta nú allt hét. 

Við skemmtum okkur mikið við endurminningarnar og hlátrasköllin heyrðust um langan veg.  Þegar farið var að rifja upp gamla sénsa frá 1966 fannst mér tími til kominn að pilla mig heim og ein vinkonan gaf mér far upp í Kópavoginn.

Jésus hvað það var gaman!  Er alveg á því að halda áfram að reyna að mæta með þeim næsta þriðjudag.  Ekkert smá uppbyggjandi að hitta þessar stelpudruslur.

Birna mín takk fyrir móttökurnar og frábærar veitingar! 

Gangi ykkur vel á hátíðinni fyrir norðan og veit að Sambasmellurinn verður hitt!  Hvað heitir hann:  Sumarfrí á Siglufirði, eða eitthvað sollis.

Er farin út í sólina og sumarið.


Ég er svo þakklát og glöð fyrir alla og allt.

Ég sat fyrir framan lækninn minn í morgun og tárin þrengdu sér fram í augnkrókana.  Ég grét af gleði.  Ég var búin að kvíða svo fyrir þessari heimsókn til doctorsins en algjörlega að tilefnislausu.

Æxlin þrjú við heilann hafa haldið kyrru fyrir og hvorki fjölgað sér né stækkað.  Hafa staðið í stað og ef eitthvað er þá hafa þau jafnvel minnkað. Þannig að nú vonast maður til þess að svo verði áfram næstu árin.

Verið bara róleg þarna og hreyfið ykkur ekki, fyrst það er ekki hægt að fjarlægja ykkur ótuktirnar þá skal ég lifa með ykkur þarna ef þið lofið mér því að vera til friðs.

Blóðtappana þrjá sem myndast hafa við lungun ætla ég að vinna á með því að sprauta mig með blóðþynningarlyfjum í nokkra mánuði eða ár og strax komin með fallegan rósóttan maga í öllum litum marbletta-flórunnar

Gasa sætt!

Nú er að halda áfram að byggja upp og hella í sig ljósi og jákvæðum hugsunum. 

Takk fyrir allar góðar kveðjur og kraft sem þið hafið sent mér.

Þetta hjálpar svo sannarlega.

 

 

 

 


Hellisgerði, einn fallegasti garður sem við eigum en vantar punktinn yfir i-ið. Takk fyrir Klambratúnið Hr. Borgarstjóri.

Ég elska svona daga sem eitthvað jákvætt er í fréttum en ekki endalaus barlómur og væl. 

Nú hefur okkar góði Borgarstjóri Mr. Gnarr ákveðið að taka upp nafnið Klambratún og heiðra þannig minningu síðasta ábúanda að Klömbrum, Christian H. Christensen.  Þetta finnst mér frábært hjá okkar Borgarstjóra og hans fólki.

Annað rakst ég á líka í dag þar sem talað var um að fólk færi allt of lítið í Hellisgerði.  Ég og minn elskulegi vorum þar í gær í frábæru veðri og sóluðum okkur í bak og fyrir.  Jú það vakti athygli okkar hversu fáir voru þarna í þessu góða veðri og ekki amalegur staður þar sem allt er orðið svo gróið.  Sjálfsagt mætti bæta þjónustuna þar sem rekin er greiðasala í litlu húsi við leikvöllinn.

Um það leiti sem við vorum að fara kom par með unga dóttur og gengu að greiðasölunni.  Maðurinn segir: Nei hér er hægt að fá súpu með nacho.  Það hýrnar yfir konunni og þau ganga inn í húsið.  Eftir stutta stund kemur servetrisan út með kastarollu í hendinni og fer inn um kjallaradyr hússins.  Kemur út og þá segir maður við næsta borð:  Hvað ertu með í skjólunni heillin mín?  Hún svarar að bragði súpu!

Ég fékk velgju upp í háls.  Þarna var súpan sem sagt geymd, í kjallaranum innan um hagamýs og önnur skríðandi kvikindi. 

Stúlkukindin lét sig hverfa inn um dyr kofans en mínútu seinna komu hjónin út með skokkandi stelpuna í eftirdragi.  Þau höfðu auðsjáanlega misst matarlystina og líka alla löngun til að dvelja lengur í Hellisgerði þar sem ég sá þau taka blátt strik að bílastæðinu. 

Æ,æ,æ, þetta er ekki fallegt til afspurnar og ég vona að aðstandendur Hellisgerðis sjái sóma sinn í því að laga greiðasöluna áður en ég legg leið mína þangað aftur, því það ætla ég að gera einn daginn.  Garðurinn er þess virði að skoða og ganga sér til hressingar.

 


Allt Masaaia þjóðflokknum að kenna að það suðar endalaust í höfðinu á mér, janvel í svefni.

Ég vaknaði um miðja nótt og trúði varla mínum eigin eyrum.  Nei, nú var þetta að verða einum of mikið.   Mín fyrsta hugsun var að rjúka fram úr rúminu og hundskamma minn elskulega þar sem ég var 100% viss um að hann væri að horfa á boltann um miðja nótt eða hvaðan kom annars þetta þóþolandi býflugnasuð sem hefur verið að gera mig hálfsturlaða undanfarið.

Ég reis upp við dogg og viti menn svarf ekki minn svefni hinna réttlátu við hlið mér.  OK, þá hefur hann gleymt að slökkva á tækinu, æddi fram, en þar var allt eins og það átti að vera, lokað sjónvarp og hljóðið sem mér fannst ég hafa heyrt var þagnað.

Jahérna haldið að ég hafi bara ekki dreymt þetta bölvaða hljóð og fannst ég standa í miðju flugnagerinu.  Svona er þetta búið að fara í mínar fínustu síðan þeir byrjuðu að senda út leikina, svo annað ég ÞOLI ekki fótbolta.

Jæja fyrst ekki gat ég látið skapillskuna bitna á mínum manni í það skiptið.  Svo er nú búið að vera frí frá þessum bolta í nokkra daga.

  Ég þarf örugglega áfallahjálp þegar þessu er lokið.

Ég er ekkert þakklát þessum hirðingjum af Masaai þjóðflokknum sem fundu upp þessa lúðra fyrir held ég mörg um tugi ára.  Þarna ganga þeir, þessir hávöxnu Kenýa menn með flaxandi skykkjur og reist spjót til himins. 

Jæja hver er siður í landi hverju og ég viss um að þessir Afríkubúar væru ekki hrifnir af okkar siðum eða matarvenjum, sbr. sviðakjömmum.

Ég ætla að reyna núna að vera aðeins duglegri að blogga þar sem ég held að ég sé öll að koma til.

Ef til vill er það rigningin og rokið sem veldur því?

 

 


Endalausar uppákomur.

 

eftir frábæra kvöldstund með mínum góðu gömlu vinkonum átti ég ansi erfitt með svefn.  Hugurinn leitaði langt aftur í tímann þar sem við áttum  svo skemmtilegar stundir saman sem börn og unglinar.

Eftir nokkrar velltur og dýfur gat ég loksins fest svefn en hrökk upp nokkrum tímum seinna en þá varð ég að nauðsynlega að pissa.  Án þess að hugsa fór ég aðeins of snöggt upp úr rúminu og inn á bað.  Þar hrúllaði ég niður á gólfið, og vegna auminjaskapar gat ég engan vegin komið mér upp á lappirnar svo þarna lá ég bara eins og skata og gat mig engan vegin mig  hreyft.  Eftir klukkustundar brambolt gat ég loksins híft mig upp á klósettið

OK það var sem betur fer var  ný þrifið (sipk and span)  well, annars hefði ég nú bara látið það flakka.

Þessi þrekraun tók klukkustundar grátur og gnýstran tanna. en ég komst upp að lokum og staulaðisti fram skellti í mig róandi og einhveru fleiru og síðan skreyð ég upp í rúm, búin að pissa og allan pakkann, úff.....

Þetta gengur ekki lengur.  Nú er að vera duglegur að hafa samband við heimilishlynninguna en bara í neyð. svo bara festa göngusímann við mig þar sem næst auðveldlega í hann.  Ekkert mál.  Reyndar vil ég ekki vera að bögga heimilhynninguna nema í algjörgi neyð. Kaupa sróra slaufu og binda stafinn fastan við úlnliðinn þá fer hann ekkert frá mér.

Æ þetta reddast allt með tíð og tíma.

Hofðu á björtu hliðarnar.  Heimurinn hann gæti verið verri.

Takk fyrir skemmtilegt kvöld mínar kæru vinkonur.  Þið eruð frábærar.  Gott að geta kitlað hláturtaugarnar með ykkur öðru hverju.  Það klikar aldrei humorinn hjá okkur.

 

 


Ég sakna hans Erró míns. Vonandi verður aðskilnaðurinn ekki mikið lengri.

Þessar línur rakst ég á í einhverju blaði ekki alls fyrir löngu.  Ég veit að það er margt rétt og satt sem stendur hér og sjálf hef ég upplifað ýmisegt skondið með hundinum mínum.  Hann veit sko stundum lengra en nef hans nær, ekki að það sé þefskynið heldur sjötta skilningavitið, eða hvað sem maður á að kalla það hjá dýrum.  Mér datt í hug að deila þessu með ykkur.

 

BÆN HUNDSINS

ÉG LIFI VARLA LENGUR EN FIMMTÁN ÁR.

MÉR LÍÐUR ILLA ÁN ÞÍN.

HUGLEIDDU ÞAÐ ÁÐUR EN ÞÚ TEKUR MIG AÐ ÞÉR.G

GEFÐU MÉR TÍMA OG SVIGRÚM TIL AÐ SKILJA TIL HVERS  ÞÚ ÆTLAST TIL AF MÉR.

HRÓS ÞITT OG UMBUN ER SEM SÓLARGEISLI, REFSSING SEM ÞUNGUR DÓMUR.

REIÐSTU EKKI SAKLYSI MÍNU, ÉG VIL ÞÉR VEL.

ÞÚ ÁTT ÞÍNA ATVINNU, ÁTT ÞÍNA VINI OG ÁNÆGJUSTUDIR.  ÉG Á AÐEINS ÞIG.

TALAÐU VIÐ MIG.

ENDA ÞÓTT ÉG SKILJI EKKI MÁL ÞITT, ÞÁ SKIL ÉG TÓN RADDAR ÞINNAR.

AUGU MÍN OG LÁTBRAGÐ ERU MÍN ORÐ.

(NÆSTU GREIN SLEPPTI ÉG, MÉR FANNST HÚN LJÓT).

EF ÞÉR FINNST ÉG LEIÐINLEGURVEGNA ANNRÍKIS ÞÍNS, MUNDU ÞÁ AÐ STUNDUM LÍÐUR MÉR ILLA OG VERÐ PIRRAÐUR, T.D. Í SÓLARHITA.

ANNASTU MIG ÞEAR ÉG VERÐ GAMALL.

ÁN ÞÍN ER ÉG HJÁLPARVANA.

DEILDU GLEÐI ÞINNI MEÐ MÉR OG SORGUM.

VEITTU MÉR HLUTDEILD Í LÍFI ÞÍU, ÞVÍ..............

ÉG ELSKA ÞIG.

Það fylgdi ekki greininni hver hefði skrifað hana en svo margt satt og rétt.  Ég hef á undanfönum ellefu árum upplifað undarlegustu hluti með hundinum mínum og þegar ég las þetta þá fann ég hvað ég sakna hans óskaplega.  Fjórir, nær fimm mánaða aðskilnaður er næstum óbærilegur.

Til að gefa ykkur smá hugmynd hversu náið samband er á milli okkar þá hef ég oft beðið hann að senda vini sína til að hjálpa mér og það hefur virkað.  Einnig eitt sinn bað ég hann þar sem við sátum tvö við arininn að ná í ömmu mína sem ég vissi að var uppi á efri hæðinni með Þóri og hún kom eftir augnablík, þá búin að vera langt frá okkur í mörg ár.  Erró kom fyrstur, síðan hún og svo kom Þórir niður rétt á eftir.  Mér hafði liðið illa og hundurinn hjálpaði mér og ekki í fyrsta skipti.

Ég veit að dýraeigendur geta skilið mig vel og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni.  Ef til vill segi ég ykkur fleiri sögur seinna.


Hádegistónleikar að Kjarvalsstöðum.

Við hjónin sóttum hádegistónleika ásamt móður minni í hádeginu í dag en þar fluttu listamennirnir Guðný Guðmundsdóttir, Gunnar Kvaran og Peter Maté vel valin verk sem nærði líkama og sál í klukkustund eða svo.

Takk kærlega fyrir okkur ágætu vinir.  Við mætum örugglega næst þegar boðið verður upp á svona notalegheit í hádeginu.  Á eftir fengum við okkur smá snarl í kantínunni áður en við gengum út í fallegt vorveðrið sem hefur verið hér í dag.

Ég hvet alla að gefa sér tíma til að njóta hádegisstundar með frábærum listamönnum sem kunna að gleðja og gefa.  

Takk enn og aftur fyrir okkur!


Sorglegt að almenningur beri ekki meiri virðingu fyrir Guðshúsunum okkar en raun ber vitni.

Þegar ég var krakki, eins einkennilegt og það hljómar þá sótti ég mikið í kirkjugarða og spókaði mig á milli leiða.  Ég heimsótti líka í hvert skipti sem gafst gamlar sveitakirkjur ekki endilega til að biðja heldur bara mér leið yfirleitt svo vel innan um gamlan viðinn sem mér fannst lykta svo vel eftir jafnvel aldir. Ég var ekkert sérstaklega trúuð en átti mína barnatrú og það nægði.

Nú er svo komið að það er varla hægt að fara inn í kirkjur í dag nema með sérstöku leyfi eða þá  þú sért að vel upplýst að þú vitir hvar lykil er að finna, upp undir rjáfri eða undir lausri fjöl.

Ég er búin að furða mig á þessu lengi og get illa sætt mig við að kirkjan geti ekki opnað dyr sínar fyrir Pétri og Páli vegna hræðslu við að kirkjumunum verði stolið. Sorgleg staðreynd.

En ég var heppin að eiga góða að og á sunnudaginn stóðu kirkjudyr mér opnar en að sjálfsögðu fyrir tilstilli góðs prests sem lét eftir beiðni minni um að fá að eyða hálftíma ein í lítilli sveitakirkju hér rétt við borgarmörkin.

Ég sendi prestinum mínar bestu þakkir og veit að ég er velkomin aftur ef ég finn aftur þessa þörf.  Ég þakka þér kæra vinkona.

Eftir hljóðláta stund heimsótti ég leiði skáldsins sem skrifaði um hið ljósa man og þakkaði fyrir allt sem hann gaf okkur í lifanda lífi og var það nú ekki svo lítið. 


Ég er eins og hinir hrafnarnir nema ég er mörgum sinnum stærri

Hann blaktir hér fallegi fáninn okkar fyrir utan gluggann minn og er í fullkomni setteringu við  dimmbláan voginn sem næstum er spegilsléttur.

Það hefði verið gaman að hafa hér teljara við höndina í dag og taka tölu á öllu því iðandi mannlífi sem nýtir sér góða veðrið, gangandi, hjólandi nú eða hlaupandi hér út um allar trissur.

Eins og margur veit þá er ég nú ein af þessum göngufríkum og tek mína klukkustund eða meir á hverjum degi mér til heilsubótar.  Og vegna þess að ég er að segja ykkur þetta þá ætla ég að vara ykkur líka við.  Það er ekkert ólíklegt að fólk skoði mig sem dálítið furðuverk þar sem ég lít út eins og risa stór hrafn þar sem ég arka í skósíðri skepnunni minni með eldrauða húfu frá húfum sem brosa.  Múnderingin er hrikaleg skal ég segja ykkur en mér er hlýtt og það er auðvitað fyrir öllu.

Ég komst að því um daginn að ég gæti komist inn á lóðina hjá gömlu skóræktinni og gengið þar óhindrað.  Þá byrjar ballið skal ég segja ykkur.  Þá fer Hrafninn á stjá og gerir æfingar með fótum, höndum og beygi og toga með stafnum eins og ég vilji bara takast á loft með hinum fuglunum. Kolsvartur minkurinn slæst um mig þegar ég geri fótsveiflur og rauða skotthúfan dinglar á nauðasköllóttri kerlingunni 

Einn daginn verð ég sótt og lokuð inni, ég sver það!!!!!!!!   En þangað til ætla ég að halda uppteknum hætti.  Munið þið ekki eftir í gamla daga að það voru svona nornir eins og ég á sveimi út um allan bæ og krakkar voru skíthrædd við þær, nú er ég ein af þeim þessum skrítnu!!!!

Jæja elskurnar mínar sýnið mér umburðalindi og ég skal lofa að vera góð.

GLEÐILEGAN SUMARDAG OG NJÓTIÐ LÍFSINS OG HUGLEIÐIÐ.  SÆKIÐ KRAFT Í NÁTTÚRUNA.  EITT TRÉ HJÁLPAR MIKIÐ.  GEFIÐ ÞVÍ FAÐMLAG.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband