Færsluflokkur: Bækur

Þegar færslur detta út trekk í trekk þá verður maður dálítið pirró ja eins og núna

.......en ég ætla að reyna alla vega einu sinni enn.  Móðursystir mín sagði mér einu sinni að hún væri búin að læra alla íslensku Flóruna og nú held ég að ég sé búin að fara í gegn um alla ísl. bókaflóruna því hvað er hægt að gera annað en lesa þegar maður liggur hálf back og pælir í hver verður næstur - íslenskur, erlendur (nei ekki sá Erlendur) svo eru þessir höfundar svo misjafnir eins og þeir eru margir og nennan ekki alveg 100% til þess að fara í gegn um misgóða höfunda.

Ég ætla ekki að segja ykkur hversu marga höfunda ég er búin að þræla mér í gegn um en þeir eru ansi margir og sumir alveg hundleiðinlegir aðrir la la en margir hverjir bráðskemmtilegi og góðir pennar en ég ætla nú ekki að fara að tíunda þetta fyrir ykkur núna en kemur ef til vill að því einn daginn þegar ég er í stuði.  Mér þótti skemmtilegast að garfa í gegnum barnabækur. H.C. Andersen og Gimmsævintýri.

Mínar mestu áhyggjur eru þær að ég komist ekki í gegn um allan staflann en OK þá verð ég bara að lesa dag og nótt því í skal klára þetta, verst að það bætist alltaf við bunkann tala nú ekki um þeger höfundar eru farnir að keppast við að hafa bæku sínar sem lengstar.  Engin maður með mönnum nema bókin telji fimm til sexhundruð blaðsíður.  Hún má þá vera þeim mun skemmtilegri eða æsifengin að ég hafi getu í þannig doðrant.

Nú ætla ég að sjá hvort þessi færsla fer í gegn nú ef ekki þá það.

 

 


Hjúkket!!!!

Jæja strákar til hamingju með það!  Man ekki alveg hvort það var í gær eða í dag eftir að hafa rúllað Mbl. hér í gegn að ég skellti mér aftur í rúmið með Bubba og fleiru þotuliði og gleypti í mig ,,sannar sögur og lognar"

Ég var svo fegin að nú sæi ég fyrir endan á þessum handbolta og jafnvel Icesave var farið að halla undir fæti sem aðalfréttir í fjölmiðlum.  Guði sé lof.

Ég er samt búin að gera mitt besta með því að hjálpa til með að krúnka einhverju smáræði í Icesave á meðan ég hef dvalið hér núna. Kennitalan mín týndist og mér var afhent ný svo nú er ég með nafn með stjörnu fyrir framan og næstum allt stafrófið þar á eftir.  Óskaplega flott sagði konan á Lansanum.  Ég bara þakkaði pent og sagði að ég vildi alveg borga fullt gjald enda góður og þekktur borgari sem væri til í að hjálpa eins vel og ég gæti til að koma þessari volaðri þjóð á koppinn aftur.  Nóg væri nú um grenjuskjóðurnar hver í sínu horni.  Það hafði ég eftir að hafa lesið í Satt og logið. Einhver Á Rán grenjaði í Búlgaríu, og fleiri hingað og þangað um allan heim.  Ég sat hér á landinu og grenjaði í mínu horni en lét engan sjá það.  Svona er nú lífið óskiljanlegt á stundum.

Jæja ég er alveg hætt að grenja það hefur hvort eð er ekkert upp á sig.  Taka á móti storminum í fangið og rétta úr kútnum eins og Hörður Torfa orðaði það svo snilldarlega.

 

Ég segi það satt en þetta blað, nú er ég farin að tala aftur um ,,Satt og skrumskælt", sem engin segist lesa en allir gera þó, læt ég aldrei sjá mig með á almannafæri.  Jafnvel les frekar ,,Frú og bíll" ef ég hef ekkert annað menningarlegra í töskunni á meðan ég er að bíða á læknastofunum.  Núna passa ég mig á því að hafa Steinunni Sigurðar í hægri hendi og til vinstri liggur ávallt einhver önnur menningarleg skrudda svo allir á einhverju erlendu hrognamáli, geti nú dáðst að því hvað þessi kona er nú mikill menningarviti eða alla vega reynir að sýnast svo.

Jæja nú líður að morgni og kominn tími til að fara að sofa í hausinn á sér.  Alla vega að gæla við koddann.  Afsakið að ég skuli vera að blaðra hér um miðja nótt en það gera sterarnir sem eru að herja á minn fína haus þessa dagana.   

Mig langar svo í súkkulaði! NÚNA!

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Ísland landaði bronsinu í Vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skáldin okkar góðu þeir Þórbergur, Gunnar og Halldór.

Allt annað líf enda búin að vera með Skáldalífið hans Halldórs Guðmundssonar í eyrunum síðustu tvo dagana á meðan ég dingla hér út við grindverkið. 

Þökk sé Walkman og framförum alheimsins. 

Það er ekki laust við að mig langi til að taka bækurnar þeirra kumpána, Þórbergs og Gunnars Gunnarssonar til yfirlestrar enn einu sinni.  Viss um að ég mundi leggja allt annan skilning í þær núna en fyrir 30 árum eða svo.

Hallgerður Péturs bloggvinkona mín benti mér á bloggið hans Illuga Jökulssonar hér fyrir tveimur dögum að ég held, þar sem Illugi fer á kostum með að skilgreina Bjart í Sumarhúsum.  Ekki vil ég nú segja að ég hafi verið allskostar sammála Illuga en greinin, sem er snilldarvel skrifuð, kom mér til að hugsa um hvort ekki væri tími til kominn að taka Sjálfstætt Fólk ofan úr hillu einu sinni enn. Ef til vill finn ég nýjan Bjart eftir lesturinn.

En allt um það í dag er merkisdagur því hún Soffa okkar og hennar Steini eiga sex ára brúðkaupsafmæli.  Að hugsa sér að það séu sex ár síðan Séra Ragnheiður pússaði þau saman hér í garðinum okkar.

Innilega til hamingju með daginn krakkar mínir.  

  

 


Andskotan ekkert fútt i Hanastélinu í morgun.

Yfirleitt þar sem ég hef mætt í Hanastél (cocktail party á góðri Íslensku)  hefur mér sjaldan leiðst og stundum jafnvel bara frundist þræl gaman.  Ég hef kynnst fjöldann allan af fólki í þannig samkvæmum bæði skemmtilegu og miður skemmtilegu. Stundum hefur maður orðið fyrir hrikalegum vonbrigðum með veitingarnar en stundum líka fengið algjört lostæti.

Það er nú það.

Ég verð nú að segja að Hanastélsboðið sem ég var boðin til í morgun var ekki alveg það skemmtilegasta sem ég hef farið í.  Vertarnir sem tóku á móti gestunum voru afskaplega ólíkar.  Önnur brosti út að eyrum og var ekkert nema elskulegheitin af hinni lak fýlan og svipurinn sagði eitthvað á þessa leið:  Guð hvað ég nenni þessu ekki, vonandi fer þessum gestum fækkandi hvað úr hverju.  Ég forðaðist að tala við hana á meðan ég dvaldi þarna þessar tvær klukkustundir. Enda sá sú brosmilda um að halda uppi small talk öðru hverju við gestina.

En blessaðir gestirnir voru ekki skrafhreifnir það verð ég nú að segja. Allir höfðu komið sér fyrir eins vel og hugsast gat, tek það fram að ég lenti í betri sætum í morgun, sem sagt rúmi.  Allir voru með sinn cocktail misjafnlega sterkan auðvitað, allt eftir óskum hvers og eins.  Einstaka gestur brosti til næsta manns en mér fannst nú sem öllum leiddist heil ósköp í þessu partýi enda engin lifandi músík og ekki heldur úr hljóðkerfi.  Tveir voru með Ipod sá ég og fannst mér það góð hugmynd. OK við vorum þó blessunarlega laus við leiðindar ræðuhöld á Tékknesku sem yfirleitt eru haldin í svona gillum.  Þvílikur tortúr að hlusta á og nú er ekki einu sinni afsökun að fara út að reykja á meðan á tölum stendur.  Trallallallallala.....

 Því las ég bókina hans Randy Pausch, Síðasta fyrirlesturinn.  Ekki kannski rétta bókin í svona partý en hún er alla vega blákladur veruleikinn settur á blað án uppspuna. 

Það var sem sagt ekkert fútt í þessu partýi en vegna þess að maður má ekki vera ókurteis þá hélt ég það út þessa tvo tíma enda í betri sætum og lét sólina verma á mér hvirfilinn.  Smá vítamín fyrir hárið í leiðinni.  Nei elskurnar það er enn á sínum stað og vonandi bara helst það þannig. 

Var ég búin að segja ykkur að mér og örugglega flestum þarna inni fundust veitingarnar bragðlausar. 

 En andskotinn hafi það ég held þær séu að virka.  Ég alla vega trúi því.  


Hann er kominn með pungapróf á þvottavél og þurrkara.

Í morgun þegar ég loksins komst út úr draumalandinu og drattaðist niður í eldhús beið eftir mér pakki að heiman.  Það sem mér finnst gaman að fá pakka svona óforvarandis, ég kætist eins og fimm ára barn skal ég segja ykkur. 

Innihald pakkans sem Erla vinkona mín sendi mér var bók eftir Randy Pausch, Síðasti fyrirlesturinn.  Ég hef aldrei heyrt um þennan prófessor en skilst að bókin sé vel þess virði að lesa.  Takk fyrir kæra vinkona. Er að ljúka við einhvern Thriller sem ég man ekki einu sinni hvað heitir og síðan ætla ég að taka þessa fyrir.

  Það er ekkert smá mikið sem ég hef innibyrgt af lesefni síðasta mánuðinn. Flest af því hefur nú bara farið inn um annað og út um hitt.  Sumir segja að maður verði svona ruglaður og minnislaus eftir svona langa svæfingu.  Hvað veit ég.

Jæja vinir mínir ætla að skella hér inn smá frétt um minn elskulega svona til gamans. 

Þrátt fyrir að við höfum hér hússtýru er ekki þar með sagt að hún sé hér alla daga þannig að hér verður stundum að taka til hendinni eins og gengur og gerist á öllum heimilum og allt hefur þetta lent á elsku kallinum mínum undandfarið. 

 En satt best að segja hefur hann aldrei verið mikið fyrir húsverk svo fyrsta vikan fór í það að kenna honum á uppþvottavélina, hvernig ætti að raða í hana og hvaða efni væri notað og til hvers hólfin væru. Eftir viku var hann kominn með þetta svona nokkurn vegin á hreint:  Á ég núna að setja á Auto?  Já elskan og loka vélinni síðan varlega ekki skella.- Var síst að skilja í öllum þessi skörðum í diskunum okkar.

Rétt áður en ég fór heim af spítalanum sagði hann mér hróðugur að hann hefði sett handklæði í þvottavélina.  - Flott hjá þér sagði ég.

Þegar heim kom voru samanbrotin handklæðin snyrtilega uppröðuð inn á baðherbergi.  Hann leit á mig og sagði: Sko þetta gat ég alveg aleinn! En af hverju eru þau svona stíf og ómeðfærileg?

-Settir þú þau ekki í þurrkarann og smá þvottamýki í vélina spurði ég ósköp varlega.

-Hehumm... já jú þau fóru í þurrkarann en æ ég vissi ekki hvað þau ættu að vera lengi svo ég bara engdi þau upp blaut...... hvað er þvottamýkir bætti hann svo við alveg bláeygður og ljóshærður.

- það lætur maður í eitt hólfið og það gerir þvottinn svona fluffy.

-OK geri það næst, ekki málið.  Hvernig lítur þvottamýkir út? Ég meina er þetta í brúsa eða dufti?

-Heyrðu elskan, ég fer alveg að komast á ról svo þú skalt ekkert hafa áhyggjur af þessu svo held ég líka að það sé ekki til mýkir svo það verður bara að bíða.

En minn lét sér nú ekki segjast og í hvert skipti sem hann fór í matvörubúðina leitaði hann að þvottamýki en kom tómhentur heim í nokkur skipti og var farinn að segja mér að svoleiðis væri bara ekki til í búðinni með svo mikilli sannfæringu að ég var næstum farin að trúa honum.

Fyrir viku, já þetta er búið að ganga lengi, þá skellti hann hróðugur stórum plastbrúsa á borðið, brosti alveg hringinn og var að rifna úr monti og sagði:  Sko ég fann mýkir!

- Ég þorði ekki einu sinni að brosa en hláturinn sauð í mér:  Nei elskan þetta er ekki þvottamýkir þetta er þvottaefni fyrir ullarflíkur.

- Hvernig í andsk... lítur þessi mýkir út ég bara spyr? 

- Æ vertu ekki að pæla í þessu meir ég skal kaupa þetta fljótlega.

- Minn lætur ekki segjast og daginn eftir var hann búinn að finna rétta brúsann og ég gat farið og sett í vél    hehehehe..... og hann kominn með fullnaðarpróf í þvottavélabuissnes.

Hann er sem sagt búinn að læra á uppþvottavélina, þrífa eldavélina, komin með pungapróf á þvottavél og þurrkara.  Geri aðrir betur á sjötugsaldri en ég hætti ekki á að kenna honum á ryksuguna enda með konu í því.

Svo elska ég þennan mann alveg út af lífinu bara svo þið vitið það. 

 

 


Ljós í gluggum sem ylja og gleðja án orða.

Um hádegisbil keyrðum við út úr Berlin eftir tvo góða daga í þeirri merkisborg.

Hittum Þráinn og frú Sólveigu á föstudagskvöldið og fórum yfir ,,Íslandssöguna"  Mjög skemmtilegt!

Þráinn gaf okkur nýju bókina sína ÉG ef mig skyldi kalla og auðvitað tók minn hana fyrst traustataki en ég er nú búin að fá hana í hendur og ætla að lesa hana í háloftunum annað kvöld.

  Það er alveg svona típiskt fyrir okkur að athuga ekki með brottför ferjunnar frá Rostock til Gedser svo auðvitað rétt misstum við af eitt ferjunni og urðum að dúsa tvo tíma á kajanum eftir þeirri næstu og þar sem við höfðum heldur ekki pantað far fyrirfram, sem er líka alveg típiskt fyrir okkur, þá lentum við á biðlista.

Við rétt náðum inn, vorum næst síðasti bíllinn. 

Þar sem við keyrðum inn til Kóngsins Köbenhavn var farið að skyggja og það vakti athygli mína að í öðru hvoru húsi var fólk að kveikja á kertum í gluggum eða inn í stofum og mér varð á orði við minn elskulega hvað þetta væri eitthvað vinalegt.  Að sjálfsögðu voru lítil viðbrögð við þessari athugasemd minni, þótti örugglega of væmin til að svara eða þá að hann var svo mikið að keyra þessi elska, þið vitið þeir geta bara gert einn hlut í einu.

Mér alla vega fannst þetta mjög athyglisvert og fannst hvert ljós bjóða okkur velkomin til landsins.

Þegar ég síðan kom inn á hótel og opnaði tölvuna mína eftir nokkra daga hvíld blasti við mér ótal póstar frá bloggurum sem hvöttu fólk til þess að kveikja á kerti í gluggum.  Að gefa ljós til náungans og byrja snemma að undirbúa aðventuna með litlu kertaljósi í glugga.  Fræbær hugmynd og falleg!

Ég hef eflaust ekki mikinn tíma fyrir komment næstu daga hjá bloggvinum en ætla að setja inn færslu þegar tími gefst til.

Á morgun verður farið í uppáhalds búðirnar og síðan haldið heim með kvöldvélinni.

   

 


Áætlanir fóru út um þúfur og ég er smá pirruð.

Ég þoli ekki þegar hlutirnir ganga ekki eftir mínu höfði.

Í dag hafði ég ákveðið að eyða ekki tíma mínum eða orku í fréttalestur.  Orkan átti að fara í það að hrista fram úr erminni nokkur húsverk sem setið hafa á hakanum í langan tíma.

Allt byrjaði þetta eftir áætlun og ég var búin að færa sumarfötin upp og vetrarfötin niður.  Fullur poki af skóm og öðru sem hússtýran mín átti að taka með sér heim beið í anddyrinu.  Ég fékk mér kaffi um ellefu leitið og var bara þvílíkt ánægð með framvindu mála.  Næst skildi taka bókaherbergið rækilega í gegn og klára það fyrir kvöldið. 

  Ég byrjaði á skrifborðinu og tölvuborðinu.  Stór svartur ruslapoki fór að fyllast óðfluga. Eftir skrifborðstiltekt réðst ég af fítonskrafti á bókaskápinn.  Ákvað að byrja neðst en þar eru lokaðir skápar sem svo rosalega auðvelt er að henda inn í þegar maður nennir ekki að fara með ruslið í tunnuna og svo það góða við svona lokaðar hirslur er að það sér engin hvað felst bak við lokaðar dyr.  Ég var búin að tæma fyrsta skápinn, allt komið út á gólf, búin að sortera það sem ég ætlaði að geyma annað komið í svarta pokann. Vegna þess að ég er svo köttuþrifin (stundum) ákvað ég að nú yrði þvegið allt hátt og lágt með Ajax og alles.

Þar sem ég lá á fjórum fótum og teygði mig inn í skápinn (neðri skáparnir eru ansi djúpir og ég handleggjastutt) vopnuð blautri tusku gerðist eitthvað mjög sársaukafullt í bakinu, hægra megin.  Ég fraus smá stund með svona ,,Ópið" á andlitinu en þar sem sársaukastig mitt er ansi hátt ætlaði ég nú ekki að láta smá sting koma mér í óstuð svo ég hélt áfram að puða þetta inn í skápnum. 

Ég gafst upp eftir smá stund.  Nú liggja bækur, bæklingar, möppur og fl. eins og hráviðri út um allt gólf þarna uppi og ég sit hér og vorkenni mér alveg heilan helling. 

Ætla samt að klára þetta á morgun. Engan aumingjaskap kona!  Búin að fara í nuddpottinn og síðan er bara að maka Voltaren kremi á báttið og éta tvær pillur og ekkert röfl.

Verð orðin góð á morgun, ekki málið.


Enn bætist hér við Flóruna í Listasetrinu okkar

Næstu sex vikurnar mun Halldór Guðmundsson, rithöfundur dvelja hér í Listasetrinu Leifsbúð og hlökkum við hjónin til að kynnast þessum víðfræga fræðimanni og rithöfundi í eigin persónu. 

Mér datt í hug áðan þegar himnarnir opnuðust og helltu hér yfir okkur þrumum og eldingum hvort einhver sterk öfl fylgdu þeim hjónum hingað, lætin voru þvílík! Það er ekki óalgengt að fylgjur gesta okkar geri vart við sig hér rétt áður en þeir banka uppá. Nei, verið ekki að taka mig svona alvarlega, ég er hálft í hvoru að grínast.

 En nú hefur stytt upp og sólin er aftur farin að þurrka jarðveginn.  Innkeyrslan hjá okkur varð eitt stórfljót og leist mér satt að segja ekki alveg á blikuna minnug flóðanna sem urðu hér í fyrrasumar.

Hér með bjóðum við Halldór og hans konu hjartanlega velkomin hingað að Listasetrinu.  Njótið vel kæru gestir. 

Best að fara að klippa nokkrar rósir hér úti og setja í vasa, gera smá huggó út í Leifsbúð, já og kampavín í kælinn ekki má gleyma því.


Höfuð fannst líka í Vestmannaeyjum

Hver var með Yrsu Sigurðardóttur þegar hún skrifaði bókina Aska?  Nú nokkrum mánuðum eftir að bókin kom út eru mannshöfuð að finnast á víðavangi hér og þar í heiminum.  Einkennileg tilviljun eða hvað?  Nú er ég að tala um yfirskilvitlega hluti ekki veraldlega svo þetta valdi engum misskilningi.


mbl.is Tveir handteknir eftir að konuhöfuð fannst í Skotlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturhvarf til gömlu ævintýranna

Þetta er ein dapurlegasta fréttin í dag. Sænskir barnabókarithöfundar virðast ætla að koma mæðrum aftur á þann stall og vondu stjúpurnar og drottningarnar í gömlu ævintýrunum sem maður grét yfir sem barn.  Og feður barna eru aukaatriði. Hver er tilgangurinn? Vona bara að við þýðum ekkert af þessum bókum í framtíðinni.  


mbl.is Hættulegt líf mæðra í barnabókum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband