Færsluflokkur: Menning og listir

Sumarsmellur Siglfirðinga algjör hitt-samba!

Í gærkvöldi hitti ég eðalperluvinkonur mínar sem ég hafði ekki séð í allt of langan tíma og hreinlega vanrækt.  Ég vona að mér sé fyrirgefið það hér og nú.

Ef einhver hefur legið á hleri og heyrt í okkur masið og hláturrokurnar þá er það svo sem allt í lagi en á tímabili var ég fegin að við vorum ekki staddar í blokkaríbúð því það hefði örugglega einhver verið búin að hringja á babú-bílinn og senda okkur inn við sundin blá.

Þegar konur á sjötugsaldri eru farnar að syngja og leika Mærin fór í dansinn, Frímann fór á engjar.  Rifja upp alla hina leikina sem við fórum í.  Hvernig við strikuðum parís allt upp í tröllaparís, kíló, einn, tveir , þrír, fjórir, fimm, Dimmalimm.  Sippó, teyjutwist, snú snú og hvað þetta nú allt hét. 

Við skemmtum okkur mikið við endurminningarnar og hlátrasköllin heyrðust um langan veg.  Þegar farið var að rifja upp gamla sénsa frá 1966 fannst mér tími til kominn að pilla mig heim og ein vinkonan gaf mér far upp í Kópavoginn.

Jésus hvað það var gaman!  Er alveg á því að halda áfram að reyna að mæta með þeim næsta þriðjudag.  Ekkert smá uppbyggjandi að hitta þessar stelpudruslur.

Birna mín takk fyrir móttökurnar og frábærar veitingar! 

Gangi ykkur vel á hátíðinni fyrir norðan og veit að Sambasmellurinn verður hitt!  Hvað heitir hann:  Sumarfrí á Siglufirði, eða eitthvað sollis.

Er farin út í sólina og sumarið.


Allt Masaaia þjóðflokknum að kenna að það suðar endalaust í höfðinu á mér, janvel í svefni.

Ég vaknaði um miðja nótt og trúði varla mínum eigin eyrum.  Nei, nú var þetta að verða einum of mikið.   Mín fyrsta hugsun var að rjúka fram úr rúminu og hundskamma minn elskulega þar sem ég var 100% viss um að hann væri að horfa á boltann um miðja nótt eða hvaðan kom annars þetta þóþolandi býflugnasuð sem hefur verið að gera mig hálfsturlaða undanfarið.

Ég reis upp við dogg og viti menn svarf ekki minn svefni hinna réttlátu við hlið mér.  OK, þá hefur hann gleymt að slökkva á tækinu, æddi fram, en þar var allt eins og það átti að vera, lokað sjónvarp og hljóðið sem mér fannst ég hafa heyrt var þagnað.

Jahérna haldið að ég hafi bara ekki dreymt þetta bölvaða hljóð og fannst ég standa í miðju flugnagerinu.  Svona er þetta búið að fara í mínar fínustu síðan þeir byrjuðu að senda út leikina, svo annað ég ÞOLI ekki fótbolta.

Jæja fyrst ekki gat ég látið skapillskuna bitna á mínum manni í það skiptið.  Svo er nú búið að vera frí frá þessum bolta í nokkra daga.

  Ég þarf örugglega áfallahjálp þegar þessu er lokið.

Ég er ekkert þakklát þessum hirðingjum af Masaai þjóðflokknum sem fundu upp þessa lúðra fyrir held ég mörg um tugi ára.  Þarna ganga þeir, þessir hávöxnu Kenýa menn með flaxandi skykkjur og reist spjót til himins. 

Jæja hver er siður í landi hverju og ég viss um að þessir Afríkubúar væru ekki hrifnir af okkar siðum eða matarvenjum, sbr. sviðakjömmum.

Ég ætla að reyna núna að vera aðeins duglegri að blogga þar sem ég held að ég sé öll að koma til.

Ef til vill er það rigningin og rokið sem veldur því?

 

 


Hádegistónleikar að Kjarvalsstöðum.

Við hjónin sóttum hádegistónleika ásamt móður minni í hádeginu í dag en þar fluttu listamennirnir Guðný Guðmundsdóttir, Gunnar Kvaran og Peter Maté vel valin verk sem nærði líkama og sál í klukkustund eða svo.

Takk kærlega fyrir okkur ágætu vinir.  Við mætum örugglega næst þegar boðið verður upp á svona notalegheit í hádeginu.  Á eftir fengum við okkur smá snarl í kantínunni áður en við gengum út í fallegt vorveðrið sem hefur verið hér í dag.

Ég hvet alla að gefa sér tíma til að njóta hádegisstundar með frábærum listamönnum sem kunna að gleðja og gefa.  

Takk enn og aftur fyrir okkur!


Snillingur - Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari!

Í gærkvöldi rættist ein af mínum vonum, það að fá að hlusta á Víking H. Ólafsson spila með Sinfó. Mig var svo oft búið að dreyma um að fá tækifæri á að hlusta á þennan unga snilling sem fer svo mjúkum höndum um nótnaborðið.  Það er eins og þær varla snerti lyklana svo engillétt virðist hann slá hörpuna. 

 Það nærði sálina mína mikið að fá tækifæri til að láta hljóma hörpunnar fylla hug minn ljósi og kom endurnærð út eftir að hafa drukkið í mig allt sem hann hafði að bjóða í gærkvöldi.

Því miður hafði ég ekki kraft til að sitja restina af tónleikunum eftir hlé en fyrir mig var þetta nóg í þetta sinn. Ég kem til með að gera það seinna, ekki spurning.

Kæri Víkingur þakka kærlega fyrir frábæra tónleika og hugarró fyrir heila og sál.

Gangi þér allt í haginn ungi fallegi maður sem átt eflaust eftir að gleðja marga á ókomnum árum. 

Ingibjörg Jóhannsdóttir Prag Tékklandi.

 


Þá er kallinn kominn á stall! Þökk sé listamanninum Helga Gísla.

Gaman að því að Albert skuli nú vera farin að spóka sig hér innan um almenning og sem flestir geti notið þess að horfa á fótfimi hans þó steypt sé í brons.

Það vakti athygli mína að hvergi sá ég getið þess hver listamaðurinn hefði verið sem gerði styttuna og finnst mér það miður þess vegna langar mig til að óska Helga Gíslasyni listamanni innilega til hamingju með þetta nýja verk. 

 


Fer lítið fyrir áramótaheitum á þessum bænum.

Sé hér út um gluggann minn að sumir hafa stigið á stokk og strengt þess heit að byrja að skokka á nýju ári.  Hér meðfram húsinu eru ótal skokkarar á ferli.  En að nenna þessu.  Finnst þetta svo mikil vitleysa.  Ég er alveg viss um að hundruð manns svamla nú hér í ísköldum sjónum örskammt frá. Sem sagt enn eitt áramótaheitið framið í bítið hér um leið og hrafnarnir koma sér á flug. 

Já það hefur borið á ýmsum heitum hér á blogginu í morgun.  Sumir sagt upp Magganum og hætt á blogginu.  Aðrir ætla aldrei aftur að horfa á skaupið eða sprengja rakettu hvað þá að kveikja svo mikið sem á einu litlu  stjörnuljósi.

Jæja eins og ég segi hér þá var ekki stigið á stokk hér á heimilinu í gær.  Ja nema ég ákvað bara ýmislegt með sjálfri mér sem engum kemur við nema mér.  Svo er það bara spurning hvort ég stend við það sem mér datt í hug að framkvæma á nýju ári 2010.  Mér líst vel á þessa tölu 2010 og er svo fegin að þurfa aldrei aftur að gera eitthvað svo mikið 2007 !

Sé að það er óheillakráka sem svífur hér yfir borginni. Kolbiksvört með sperrta vængi.  Eða er þetta friðarboði.  Eigum við ekki bara að halda því fram.  Æ jú er það ekki bara...........  fallegur er hann og glæsilegur. Og algjör óþarfi að vera með einhverjar hrakspámennsku á þessum fyrsta degi ársins.

Við hér í Lundinum óskum öllum vinum okkar og ættingjum gæfuríkt ár 2010 með fullt af hamingjudögum og skemmtilegheitum.  Verum góð við hvort annað og njótum líðandi stundar hvar sem við erum stödd hverju sinni.

Guð blessi ykkur öll. Og ekki gleyma að sína hvort öðru ástúð og kærleik. 

 


Í máli og myndum á aðventunni

Gamla torgið jólin 2008 018  Eins og alltaf hefur aðventan verið erilsöm en skemmtileg.  Nóg um boð hingað og þangað um borgina, tónleika.  Margt sem glatt hefur líkama og sál.  Ekki að spyrja að öðru hér í fallegu hundrað turna borginni okkar.

Aðventa 2009 jólakökubakstur og laufabrauð 012  au voru nokkur afmælin sem haldin voru og hér má sjá eitt afmælisbarnið, frumburðinn okkar með sinn frumburð, tekin fyrir viku þegar hann hélt upp á sitt 35. afmæli.  Glæsileg bæði tvö.  Mín með nuðið sitt sem er alveg nauðsynlegt eftir góðan mat.

Laufabrauð 2008 029  Í gær var haldinn laufabrauðsdagur og litla fjölskyldan hér í Prag kom saman og skar út heilan helling af kökum.  En vegna þess hvað ég hef litla þolinmæði í sollis dútl þá ákvað ég að koma með nokkrar piparkökur og mála þær með litla hnoðranum mínum sem var alsæl með þá ákvörðun.  Þegar hún var búin að fá nóg með að sleikja sína fingur þá bara stakk hún þeim að næsta manni og sagði:  Amma þú makka!   Já og já og amman makkaði og sagði nammi namm.....  eða þannig.  Aðventa 2009 jólakökubakstur og laufabrauð 015  Hér má sjá listakonuna sem ætlar ekki að verða síðri listakona en langamma hennar.  Sjáið hvað hún er íbyggin á svipinn með tunguna út í öðru munnvikinu.  Amman hjálpaði aðeins við að mála skeggin á jóla.

Á milli þess þá settist amman og skar út einar þrjár að ég held laufabrauðskökur.  En´til að hvíla handleggina á því veseni þá söng hún jólasöngva og lék allan pakkan með.  Þarna er örugglega verið að syngja ,,Uppá stól stendur mín kanna!" Aðventa 2009 jólakökubakstur og laufabrauð 019Úff gott að hrista aðeins úr þreyttum handleggjum og leika með söngnum.  ,,J'olasveinar ganga um gólf og Adam átti syni sjö það var enn betra þá gat maður ruggað sér í lendunum líka. Sú stutta engan áhuga á þessari rugluðu ömmu sinni.  Enda bar hún að borra kivi.

Gamla torgið jólin 2008 022  Eins og þið sjáið og heyrið þá er engin lognmolla hér frekar en fyrri daginn.  Í kvöld ætlum við að skreppa á tónleika en hann Guðni Emilsson er hér með kammerhljómsveitina sína frá Tübingen, Þýskalandi og bauð okkur að koma og hlusta í kvöld.  Þessir tónleikar verða í Rudolfinum í Smetana Hall.  Glæsilegu tónlistahöllinni hér í Prag.

Ég kveð ykkur nú að sinni með þessari fallegu mynd frá Parizka götunni í Prag sem liggur út frá Gamla Torginu.  Þið sem hingað hafið komið getið látið ykkur dreyma um að ganga þarna um í vetrarkyrrðinni innan um öll jólaljósin og ylm frá steiktum kastaníum.

Takk fyrir að líta hér inn.

 

 


Til allra útvarpsmanna og nýja bókin hans Arnalds.

Hver hefur ekki lent í því að koma inn í viðtalsþátt hjá einhverri útvarpssröð og hugsa eða spyrja hvaða þáttur er þetta eða við hvern er verið að tala og líka um hvað er verið að ræða.  Örugglega hver einasti sem les þetta.  Og ég er viss um að margir verða alveg jafn pirraðir og ég þegar maður kemst ekkert inn í þáttinn eða skilur ekki bops vegna þess að það er eins og verið sé að dæla einhverju út úr kú í hljóðnema niðrí í útvarpi.  Ekki satt?  Jú segja flestir.  Auðvitað eru líka sumir sem gefa bara skít í hvað verið er að básúna í útvarpið sama hver stöðin er.

Jæja gott útvarpsfólk.  Hvernig væri nú að taka upp nýja hætti hjá öllum þessum fínu útvarpsrásum sem við höfum á Íslandi.  Mig langar svo til þess að biðja ykkur vinsamlega um að lesa þetta og jafnvel íhuga það sem ég vil hér koma á framfæri.

Við sátum hér áðan í eldhúsinu og einhver var að taka viðtal (held þetta hafi verið í Speglinum) við einhvern ég held rithöfund og var að tala um nýjasta ritverkið sem var að koma út eftir þennan merka mann.  Við hlustuðum svona með öðru eyranu þar til ég spurði minn elskulega hvort hann hefði tekið eftir því við hvern væri verið að tala?  Neip það hafði alveg farið fram hjá honum eins og mér. 

Þáfórum við að tala um hvers vegna fréttamenn tilkynntu ekki svona einu sinni eða jafnvel tvisvar hver viðmælandi þeirra væri og um hvað málið snerist.  Þetta þarf ekki að taka nema sákuntubrot af tíma og mundi létta öllum hlustendum óþarfa vangaveltur. 

Komið bara með þetta eftir þagnarpásu.  Ég er að tala við so and so um so and so, Svo lítið mál elskurnar mínar.  Allir hlustendur tækju ofan húfur og hatta fyrir ykkur ef þið vilduð vera svo væn að taka upp þennan sið sem tíðkast á flestum stöðum erlendis.

Síðan vil ég fræða ykkur á því að ég er hætt að reyna að bögglast í gegn um síðustu bókina hans Arnalds Indriðasonar.  Hvað er eiginlega í gangi.  Það halda allir ef ein bók gengur vel þá sé búið að koma þeim fyrir á stalli og það sé barnaleikur að skrifa ritverk!!!!!!!!!   Halló Arnaldur er því miður ekki sá eini af okkar góðu rithöfundum sem heldur þetta.  Því miður hefur borið á slaklegri frammistöðu hjá mörgum góðum undanfarið.  Hættið að halda að það sé hægt að hrista verkin úr erminni á nokkrum mánuðum, .það er misskilningur elskurnar mínar.

Ég hætti sem sagt að lesa þessa grautfúlu bók hans Arnalds og nú liggur hún hálfopin og 50 síður ólesnar af minni hálfu.  Nú má minn elskulegi taka þessa skruddu og reyna að komast í gegn um hana á skemmri tíma en hún ég.

Takk fyrir samt segir maður það ekki sko að sýna vilja í verki.  En vanda sig betur næst!!!! Elsku kallinn.

Svo mörg voru þau orð og nú er ég farin að lesa Gísla sögu Súrsonar eða bara Egilssögu, miklu meir spennandi en einhver doðrantur um allt og ekkert.

Afsakið en sitt sýnist hverjum ekki satt?

Og muna svo að kynna viðmælendur af og til útvarpsmenn góðir.  Það breytir öllu skal ég segja ykkur. 

 


Sænska Lucian ætlar að yfirkeyra þetta. Ég býð hingað Grýlu og Leppalúða í staðin

Ég vil alls ekki vera vanþakklát, svo sannalega ekki nú þegar hátíðin nálgast óðfluga með hverjum deginum.  Nei, alls alls ekki, hemst nei inte tale om.

Málið er að í dag barst okkur þrjú boðskort á Luciukvöld, dag- morgun- og kvöldverðarboð.  Sko eitt Luciuboð með syngjandi fallegum ljóshærðum stelpum í pífukjólum er alveg nóg en þrjú!!!!!!!!!!!!

Halló minnir mig eitthvað svo mikið á jólalagið hans Gísla Rúnars um fimm feitar mjaltakerlingar og sjö syngjandi svani.  Alveg á tæru að Gísli fékk þennan texta lánaðan hjá frændum vorum Svíum.  Ég er alveg sjúr á því.  Eitthvað svo hrikalega sænskt við allan textann.  Svo kemur þetta sjö syngjandi Luciur frá morgni til kvölds.

Hvernig fer ég að því að afþakka eitthvað af þessu án þess að móðga elskulegu Svíana vini okkar.  Það sem hægt er að koma manni í vandræði svona rétt fyrir jólin.  Mér fannst allt annað alveg nóg þó þrír Luciutónleikar bættust ekki á dagsskrána hjá okkur.

Nú megið þið ekki halda að mér sé illa við lagið og þessa athöfn.  Neip, mér finnst þetta virkilega fallegt og lagið einhvern vegin sogast inn í heilann ef maður heyrir það einu sinni og situr þar næstu dægur.   Það er gallinn við þetta.

Nei mér finnst þetta svo fallegt að eitt sinn fékk ég lánaðar Luciurnar frá sænska sendiráðinu til að koma og syngja í boði heima hjá okkur.  Allir héldu að þetta væri sænsk/íslenskur siður.

' Mig vantar ekkert svona núna ég er að undirbúa Grýlu og Leppalúðakvöld hér heima á föstudagskvöldið með tilheyrandi jólasveinum komandi úr fjöllunum á Íslandi. 

Hér verður ruslaralýður og illþýði í boði en ekkert Santa Lucia.

Skemmtileg andstæða á fólk eftir að segja. 

Já við Ísendingar erum alltaf dálítið spes og barbaraleg þegar kemur að veisluhöldum. 

Er farin að finna illþýðið sem er hér falið í einhverjum kassa frá því í fyrra.  


Allt tilbúið fyrir fullveldishátíðina hér að Stjörnusteini.

Stjönusteinn jólin 2008  Eins og sjá má á þessari mynd þá er allt tilbúið fyrir afmælishátíðina, 1. des fagnað og fyrstu viku í aðventu sem sagt allt í einum pakka hér í kvöld. 

Kalkúninn mallar hér í ofninum og það komast ekki fleiri pottar á eldavélina svo eitthvað verður að mæta afgangi en allt reddast þetta.

Í kvöld verðum við litla fjölskyldan hér í Prag og komum okkur í svona smá jólaskap.  Sakna þess að hafa ekki Soffu okkar og fjölskyldu hér núna en bara næsta ár.

Svo til hamingju með daginn kæru landar!  Ekki seinna vænna að óska ykkur til hamingju með daginn þar sem langt er liðið á hann, ja alla vega hér í þessu landi.

Njótið vel hvar sem þið eruð stödd á jarðarkringlunni.


mbl.is Krans lagður að leiði Jóns Sigurðssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband