Sorgleg staðreynd

Hvað er það sem kallar á okkur að flytja aftur heim, jú fjölskyldan, vinirnir og sterk þjóðerniskennd sem bindur okkur við landið okkar.  Ég býst við því að flestir mundu vilja flytja heim ef þess væri einhver kostur en því miður er það bara ekki svo auðvelt þá sérstaklega fyrir ungt fjölskyldufólk sem er rétt að byrja að koma undir sig fótunum.

Dóttir okkar sem bjó með sinni fjölskyldu erlendis í nær átta ár flutti heim í fyrra.  Þau voru ein af þeim heppnu, áttu sína eigin íbúð og fengu góða vinnu bæði tvö.  Það var sem sagt ekkert basl framundan og þau hlökkuðu mikið til að vera nálægt fjölskyldu og vinum. 

 Ef þú spyrð þau í dag hvernig þeim líki heyrir þú smá hálfkæring á milli orðanna.  Jú, margt er gott annað er ekki svo gott.  Bæði í 100% krefjandi vinnu og barnið í leikskóla, aðeins eins og hálfs árs gamall. Nánast engin tími fyrir venjulegt fjölskyldulíf vegna þess að þau eru útkeyrð þegar heim er komið.  Það er engin amma eða afi til að létta undir og gefa þeim smá frí inn á milli.  Hvernig verður þetta þegar drengurinn stækkar og fer að krefjast meiri tíma. 

 Ég yrði ekkert hissa ef þau tækju þá ákvörðun að flytja aftur erlendis, í alvöru tala.  Þetta er sorgleg staðreynd og þau eru ekki ein í þessari stöðu.  Fjöldinn allur af velmenntuðu fólki getur ekki hugsað sér að fara heim til þess eins að þræla sér út og láta börnin sín sitja á hakanum.  

 


mbl.is Ekkert vit í að flytja til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég og Eva vorum að hugsa um að flytja heim á tímabilinu... En eftir að hafa athugað málin og spurt ættingja og vini hvernig það er að búa á Íslandi (ég flutti frá íslandi 19 ára) þá sáum við að það var ekkert vit í því að flytja heim... því miður.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 7.3.2008 kl. 08:58

2 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Nákvæmlega Gunnar.  Við erum búin að vera hér í átján ár og vorum jafnvel að hugsa um að fjárfesta í íbúð heima svona til að vera nær barnabarninu að hluta til.  Við hættum snarlega við eftir síðustu heimför.  Þetta er rugl þjóðfélag þarna, sorry.

Ía Jóhannsdóttir, 7.3.2008 kl. 09:05

3 identicon

Vildi bara leggja orð í belg, ég er alveg sammála ykkur.  Ísland er best, en oftast þegar maður er einu sinni fluttur þaðan, er ógjörningur að koma aftur nema að fara á hausinn.  Allt er svo mikið dýrara en í flestum öðrum löndum,  svakaleg keyrsla og stress alls staðar.

Ég sakna þess nú oft, en það er hreinlega ekkert þangað að sækja lengur nema fjölskyldan  :(  Því miður. 

Rebekka Búadóttir (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 10:03

4 identicon

Það þarf virkilega að fara að snúa þessari þróun við á einhvern hátt. Hvernig?? Stórt er spurt, en ef ekkert verður að gert þá endar þetta á versta veg...

Heimir Arnar Birgisson (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 10:15

5 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Takk fyrir innlitin

Ía Jóhannsdóttir, 7.3.2008 kl. 10:58

6 identicon

...en hverjir eru það sem setja línurnar um þetta lífsgæðakapphlaup sem allir eru að bilast á? erum það ekki við sem lifum á þessu skeri, enginn má vera minni maður en nágranninn..bull. við þurfum ekki stóru einbýlishúsin, 10 millj. kr jeppana og 50" flatskjáinn osfrv. til þess að líða vel. Spurning um að fólk byrji á því "að taka til í eigin garði" sem sagt í hausnum á sér og spyrji sig hvað það er í raun sem veitir því hamingju og vinni svo út frá því, þarf ekki að vera svo slæmt hér á skerinu.

Margrét (IP-tala skráð) 7.3.2008 kl. 12:54

7 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Margrét takk fyrir innleggið.  En það eru nú ekki allir sem búa í einbýlishúsum og keyra um á jeppum.  Það er staðreynd að landið okkar er óheyrilega dýrt, húsaleiga, matarinnkaup að ég tali nú ekki um hina almennu þjónustu.

Ég held líka að fólk sem búið hefur erlendis hafi ekki þennan hugsunarhátt að ,,enginn megi vera minni maður en nágranninn" Þetta kallast smáborgarahugsunarháttur. 

Ía Jóhannsdóttir, 7.3.2008 kl. 13:17

8 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þetta er virkilega þörf og góð umræða Ía, Ég tek undir allt sem þú hefur skrifað hér,  meðtalið líka svör þín við athugasemdum.  Það er mjög alvarlegt ástand hér á landi, hvað varðar velferð fjölskyldunnar, það þarf að forgangsraða gildunum upp á nýtt í öllu samfélaginu, og setja börnin og þeirra þarfir í forgang, setja fjölskylduna á oddinn. 

Ég er ansi hrædd um, að sú hnignun, sem orðið hefur, í Íslensku samfélagi, síðustu áratugina,  bitni mest á Íslenskri æsku og skili sér  m.a. í óhugnanlega brengluðu verðmætamati.  Þar sem allt er falt, fyrir slikk, hvort heldur er tilfinningar, heiður, eða líkami.   Jafnvel ekki gerður greinamunur á græðgi og gróða.  Allt niður í ellefu ára, börn, selja  öðrum börnum, dóp í skólunum, allir vita það en engin vill tala um það. 

  Og, landið sem Útlendingar halda að sé hreinasta land í heimi, er á brunaútsölu fyrir slikk.  Það er ekkert skrítið, að ungu, velmenntuðu barnafólki, fallist hendur, og missi áhugann, á að flytja, inn í svona aðstæður, þegar það hefur kynnst þróuðum samfélögum, af eigin raun. Samfélagi þar sem manngildið er ofar öllu.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 9.3.2008 kl. 01:12

9 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Lilja mín takk fyrir þetta.  Ég verð bara stundum svo hræðilega miður mín þegar ég hugsa til þess að það sé ekki búandi þarna heima eins og mig langar mikið til þess að geta verið þar tíma og tíma.  Stundum fæ ég heimþrá en það er örsjaldan og teljandi á fingrunum eftir öll þessi ár.  Mér finnst bara ástandið þarna virkilega sorglegt. 

Ía Jóhannsdóttir, 9.3.2008 kl. 01:24

10 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ég skil þig Ía,  eldri dóttir mín flutti heim eftir ellefu ára dvöl erlendis, með góða menntun og góða vinnu úti,  hún keypti sér góða íbúð í barnvænu hverfi,  þá með 4ra ára hnátu,  nú 3 árum síðar, er hún í góðri, gefandi,  og skemmtilegri vinnu, en launin eru svo lág, og allt svo dýrt hér,  og hún vinnur svo mikla aukavinnu að ég er dauðhrædd um, að missa þær mæðgur úr landi, vitandi líka, að þar færi betur um þær,  þar sem samverustundir þeirra yrðu fleiri, vinnudagurinn styttri, og launin hærri.  Svo á ég aðra dóttir sem á mann og 4 börn,  en  þau eiga eftir að klára, að mennta sig.  Þó er hann í góðri vinnu, í góðri stöðu, en endar ná engan veginn saman.  Og þau eru að hugsa sér til hreyfings og ég skil þau vel.  Þau verða að hugsa fyrst og fremst um framtíð barnanna sinna og þá er Ísland ekki fýsilegur kostur til að búa í.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 9.3.2008 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband