Færsluflokkur: Mannréttindi

Hin frábæra stjórnmálakona Mo.

Í gærkvöldi dróst ég inn í kvikmynd og hélt satt best að segja að ég væri að gráta úr mér augun.  Vaknaði í morgun nærri enn með ekka og þrútin í framan eins og rauðmagi.

Langt síðan ég hef séð svona áhrifamikla mynd (eða e.t.v. var það bara sálarástand mitt sem gerði það að verkum að ég var svona meir).

Myndin fjallaði um hina frábæru stjórnmálakonu Mo sem barðist fyrir Írland og ekki hvað síst fyrir sínum sjúkdómi sem ég á henni sameiginlegan.  Mo dó aðeins 55 ára gömul og var þá ansi langt leidd, búið að hrekja hana frá störfum og hún búin að gefast upp á því að berjast á móti. 

Það tók mig langan tíma að ná mér niður eftir myndina og er enn að hugsa um hana og hvað margir verða að berjast við þennan hræðilega sjúkdóm sem engin á svör við.

Sá sem lék læknir hennar líktist ótrúlega mínum eðal lækni hér á Íslandi og svörin sem hann gaf henni, umhyggjan og kærleikurinn sem lýsti frá honum var eins og kópia af mínum lækni. Frábær studia sem hann hefur verið búinn að þræla sér í gegnum. 

Fyrst ég er á annað borð farin að tala um sjónvarpið þá er bara best að halda áfram. 

 Hr. Borgarstjóri ekki láta þá senda frá sér, þá er ég að meina TV stöðvarnar, fleiri svona þætti með þér skjótandi úr byssum.  Þetta fer þér engan vegin.  Halda sig við ráðhúsið kallinn minn og störfin þar á meðan þú situr í því hásæti og njóttu á meðan er og gerðu gagn. Veistu, annars gerir Helgi ekki neina styttu af þér, nei segi bara svona.

Ég horfi ekki mikið á sjónvarpsstöðvarnar.  Sjálfsagt af því ég er með of margar og líka það er eins og þeir (allar stöðvar hér á landi) hafi lent á útsölu og fengið á gjafverði endalausa spítalaþætti eða ódýra löggu og bófa-hasarmyndir.  Sem betur fer er takki sem er rauður og þú getur ýtt á hann og þessi hörmung deyr hægt út á skjánum. Vá tæknin...................

Jæjasssss, þá er ég búin að rausa þessu út úr mér.  Eigið öll góða viku með hopp og hí og tra-la-la-la.......

   


Sorglegt að almenningur beri ekki meiri virðingu fyrir Guðshúsunum okkar en raun ber vitni.

Þegar ég var krakki, eins einkennilegt og það hljómar þá sótti ég mikið í kirkjugarða og spókaði mig á milli leiða.  Ég heimsótti líka í hvert skipti sem gafst gamlar sveitakirkjur ekki endilega til að biðja heldur bara mér leið yfirleitt svo vel innan um gamlan viðinn sem mér fannst lykta svo vel eftir jafnvel aldir. Ég var ekkert sérstaklega trúuð en átti mína barnatrú og það nægði.

Nú er svo komið að það er varla hægt að fara inn í kirkjur í dag nema með sérstöku leyfi eða þá  þú sért að vel upplýst að þú vitir hvar lykil er að finna, upp undir rjáfri eða undir lausri fjöl.

Ég er búin að furða mig á þessu lengi og get illa sætt mig við að kirkjan geti ekki opnað dyr sínar fyrir Pétri og Páli vegna hræðslu við að kirkjumunum verði stolið. Sorgleg staðreynd.

En ég var heppin að eiga góða að og á sunnudaginn stóðu kirkjudyr mér opnar en að sjálfsögðu fyrir tilstilli góðs prests sem lét eftir beiðni minni um að fá að eyða hálftíma ein í lítilli sveitakirkju hér rétt við borgarmörkin.

Ég sendi prestinum mínar bestu þakkir og veit að ég er velkomin aftur ef ég finn aftur þessa þörf.  Ég þakka þér kæra vinkona.

Eftir hljóðláta stund heimsótti ég leiði skáldsins sem skrifaði um hið ljósa man og þakkaði fyrir allt sem hann gaf okkur í lifanda lífi og var það nú ekki svo lítið. 


Klósettrúlan sem spilar jólalögin og Jólinn sem hvarf af heimilinu okkar.

Búin að finna jólagjöfina handa hverjum og einum í fjölskyldunni. 

Eitthvað svo notadrjúgt og um leið skemmtilegt og gleður sál sem auga!

Alveg hreina satt!  Þetta er klósttrúlluhaldari með svona Ipod tengingu.  Það tók mig smá stund að fatta hvað þetta var.  Hélt fyrst að þetta væri til að hlaða símann en kom í ljós þegar ég fór að lesa.  Þú smellir Ipodinum þarna niður í hólfið þegar þú sest á lúguna og svo bara spilar hann þína uppáhaldstónlist um leið og þú gerir þínar þarfir með tilheyrandi óhljóðum eða söngli því auðvitað syngur þú með t.d. ,, White Christmas"  voða kósi tæki.

Nú fá allir sem einn svona græju frá okkur hér að Stjörnusteini og ég tek það fram að það er ekki hægt að skila þessu.  Keypt á netinu heheheh þar fór ég alveg með þetta fyrir ykkur.

Þetta er miklu sniðugra en WC haldarinn sem ég sá í einu húsi hér í fyrra sem spilaði alltaf Ho ho ho Merry Christmas um leið og þú snertir rúlluna svo húseigendur gátu fylgst mjög vel með hvað þú notaðir mörg bréf. 

Það kallar maður nú bara að hnýsast í persónuleg mál og ansi frekt.

Neip, segi og skrifa þetta tæki er það besta sem ég hef séð.

Já það er margt sem maður getur keypt og glatt fólk með um hátíðarnar.

Fyrir nokkrum árum átti ég svo sniðurgan ,,Sveinka"  Þetta var nú bara svona hausinn af Jóla gamla sem ég setti út við útidyrnar og um leið og einhvern bar að garði sagði hann:  Hó,hó hó og svo kom eitthvað voða ljúft jólalag. 

Nágranni okkar sem þá var frá Skotlandi hrindi einn morguninn hjá okkur um miðjan desember og spurði hvort það væri mögulegt að þagga niður í þessu óféti?  Með svona löngu P  L  E  A  S  E  á eftir beiðninni.

Vi héldum það nú en spurðum hvers vegna þetta færi svona í taugarnar á honum.  Þá kom svarið:  Sko þegar ég er að laumast heim á nóttunni ( hann stundaði mörg jólaboðin með vinnufélögum) þá byrjar helv..... í góla og hún Laura mín vaknar og allt kemst upp.  Hvað ég er seinn á ferð og hvernig ásigkomulagi ég er í.

Nohhh...sollis, No problemo my friend. Við kipptum Jóla úr sambandi en einhverja hluta vegna hef ég ekki orðið vör við hann síðan þessi jól í Prühonice.  Alla vega ekki rekist á hann hér að Stjörnusteini í mörg ár.

Hvar ertu Jóli minn? 

 Farin að leita úti í geymslunni eða hér í einhverjum kassanum.

Finn hann vonandi langar svo að hengja hann út við hliðið.


Betlarinn sem skipti um ham þegar kólna fór í veðri.

Maðurinn sem sat við borðið uppáklæddur, þveginn og strokinn og gæddi sér á stórsteik og dýru rauðvíni kom eitthvað svo kunnuglega fyrir sjónir.  Ég gekk aðeins nær og pírði augun, jú það fór ekkert á milli mála þetta var maðurinn.

Maðurinn sem sat venjulega við Karlsbrúna eða gekk um götur hundrað turna borgarinnar klæddur lörfum, skítugur upp yfir haus og betlaði eins og engin væri morgundagurinn.  Til þess að vera nú alveg viss spurði ég minn elskulega hvort þetta væri sami gaurinn.  - Jú, alveg rétt þetta var hann.  Ég alveg.........já en? og þá fékk ég söguna.

Maðurinn var háskólamenntaður og hafði unnið sem verkfræðingur á kommatímanum.  Eftir flauelsbyltinguna missti hann vinnuna og ákvað að gerast betlari þar sem ekki var auðvelt að fá vinnu við hans hæfi.  Hann gekk um götur borgarinnar betlandi einn þriðja af árinu eða þar til kólna fór í veðri.  Þá skipti hann um ham og naut listasemda lífsins.  Hafði nóg á milli handanna og gat veitt sér hluti sem venjulegur launþegi gat ekki.  Þegar fór að vora tók hann upp fyrra líferni og hélt út á göturnar til að betla.

Hann sagðist hafa svo miklu betra upp úr því að vera betlari en vinna sem verkfræðingur.

Þessi saga er ekkert einsdæmi við vissum um fleiri sem höfðu þennan lífsstíl hér í hundrað turna borginni.

Ég hef ekki rekist á betlarann lengi svo sjálfsagt er hann orðinn ráðsettur maður bak við teikniborðið sitt nú eða bara stórgrosser á hlutabréfamarkaðnum, hver veit.

 


mbl.is Flöskugróði bjargaði Rússa af götunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þið ekki bara skjóta þessa bankamenn og aumingja? Það við gera, mín þjóð.

Skiljanlega kippist fólk til við að heyra skothvelli nálægt byggð. En stendur ekki veiðitíminn yfir núna og þá fara skotglaðir á stúfana og leika sér í byssu og bófahasar.

Ekki það að ég sé að mæla með því að drita á blessað fiðurféð nálægt byggð og raska þar með ró manna um óttubil, nei aldeilis ekki.  Halda sig alla vega fyrir ofan snjólínu hvar sem hún er nú sögð vera þessa dagana.

Þetta minnir mig á atvik sem gerðist hér sl. sunnudag.  Við, ég og minn elskulegi sátum í hádeginu úti á veitingastað í einni fjölförnustu götu Pragborgar með góðum vinum frá Íslandi. 

Þar sem við sátum þarna og rifjuðum upp skemmtilegan tíma saman sl. sumars kom maður gangandi að borðinu okkar og heilsaði.  Við kyntum manninn fyrir gestum okkar og hann fór að spyrja frétta frá Íslandi.  Hafði verið búsettur heima í nokkur ár og spilað m.a. með Ísl. Sinfóníunni.

Umræðan snerist brátt að ástandinu og ,,útlendingurinn" sagði okkur ekki farir sínar sléttar.  Hafði tapað peningum þarna heima og var skiljanlega mjög heitt í hamsi eins og við gætum bara leyst þessi mál hans þarna á gangstéttinni í miðri Evrópu.

Eftir að hafa hlustað á langa og ítarlega sögu hans segir hann:  Af hverju þið ekki bara skjóta þessa bankamenn og aumingja?

Við urðum hálf hvumsa, var maðurinn að djóka eða hvað? 

Nei honum var fúlasta alvara og þegar ég sagði:  Já þú meinar það, bara fá okkur byssur og skjóta þá alla á færi?

Hann horfði á mig með þessum svörtu augum og sagði:  Já það við gera, mín þjóð, bara finna einhverja sem hafa þetta að atvinnu og borga þeim slikk fyrir að skjóta þá. Ekkert vesen.  Minnsta mál í heimi. Bara svona eitt púff og þið laus við alla vitleysingana.  Svo auðvelt að finna svona atvinnumorðingja. 

Ég beið eftir því að hann segði: ,, Ég skal hjálpa ykkur með þetta".´

Ef satt skal segja varð mér svo um að ég stóð upp og fór inn á salernið.  Þegar ég kom út aftur var hann að kveðja og við sátum eftir hálf viðutan og hugsandi öll saman. 

Manninum hafði verið fúlasta alvara!

 


mbl.is Skothvellir í Salahverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sárt!

Hvernig getur konan látið annað eins út úr sér!

Mig verkjar í brjóstið eftir að hafa lesið þessa frétt! 

Hvílítkt blygðunarleysi hjá Margréti Tryggvadóttur!

Þráinn minn okkur tekur þetta sárt og sendum þér baráttukveðjur héðan frá Stjörnusteini.

 


mbl.is Þráinn segir sig úr þingflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég horfi úr fjarlægð......

... og spyr er þetta nauðsynlegt?  Að rífa upp gangstéttarhellur og mylja niður til að kasta að vörðum laganna, að kveikja í bekkjum og öðru rusli í miðborginni til að vekja athygli á málstaðnum?  Þökkum fyrir að veður hefur verið skikkanlegt, hvað ef eldur hefði borist í nærliggjandi hús miðbæjarins?  Hefði það líka verið afsakanlegt?

Í fyrradag um það leiti sem mótmælin byrjuðu á Austurvelli var ég að tala við góða vinkonu á Íslandi og hún sagði mér að nú væri fólk að róast og það væri farið að taka allt öðru vísi á málunum.  Reiðin væri horfin, algjörlega horfin og fólk farið að hugsa um úrræði í stað þess að skammast út í allt og alla. Gott mál hugsaði ég.

Nokkrum tímum síðar er kveikt í gjöf Norðmanna, sem borgin hefði auðvitað átt að vera búin að fjarlægja fyrir löngu og nokkrir uppvöðsluseggir vaða fram með offorsi.  Helga Vala sýnir okkur hvernig á ekki að koma fram og fer að leita að ,,barninu" sínu.  Ellefu ára drengur er fjarlægður af staðnum á meðan móðirin situr á bekk og getur hvorki hreift legg né lið og bölsóttast síðan út í verði laganna fyrir fjarlægja drenginn, hann hefði haft rétt á að mótmæla eins og allir aðrir.  Hvað ef hann hefði orðið undir glerregni ef einhver af þessum stóru rúðum sem hann stóð hjá hefði brotnað og rignt yfir hann?  Halló!

Manni gjörsamlega fallast hendur við það að fylgjast með fréttunum að heiman og ekki hvað síst þegar ég rúllaði yfir nokkrar bloggsíður í gær þar sem sumir voguðu sér að fordæmdi þessa framkomu mótmælenda fékk það yfir sig þvílíka yfirhalningu, það ætti bara að hundskast niður á Austurvöll í stað þess að sitja heima í sófa, kreppan hefði auðsjáanlega ekki knúið dyra hjá því og þar fram eftir götunum. 

Tók eftir því í gær að ef þú vogaðir þér að skrifa orðið skríll, ómenning hvað þá unglingar fékkstu það óþvegið til baka.  Þú varst bara auminginn sem sast heima eða vannst þína vinnu á þínum vinnustað og mótmælendur væru ekki að standa vaktina fyrir þig.

Annars held ég að augu margra séu að opnast sbr. viðtal við konu í morgunútvarpinu í morgun sem var auðheyranlega ein af þessum friðsömu mótmælendum.  Konan sagðist hafa verið þarna fyrr um daginn og þegar hún var spurð hvers vegna hún væri hér núna aftur í kvöld sagði hún:  Ég vildi bara sjá þetta með eigin augum.  Og þetta er ekkert annað en samankominn skríll. 

Og áður en þið byrjið á því að hella ykkur hér yfir mig þá vil ég endilega benda ykkur á að standa nú ekki neina vakt fyrir mig, ef ég væri heima myndi ég hugsanlega standa þarna með þeim 90% friðsömu mótmælendum sem hafa sýnt og sannað að það hefur verið hlustað.  

  Það er alveg deginum ljósara að breitinga er þörf.  Þetta ástand gengur varla mikið lengur og ég held að ríkistjórnin og aðrir ráðamenn séu búin að meðtaka skilaboðin.

Megi þið eiga góðan og friðsaman dag kæru landar.  

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband