Það er ekki ólíklegt að ég hafi sést á öryggismyndavélinni í gær en mér fannst ég ekkert vera í óleyfi í bakgarði ömmu minnar.

Gönguferðir sem legið hafa niðri í allt of langan tíma voru teknar upp aftur í gær.  Við lögðum bílnum fyrir utan gamla Hvíta Bandið og ákveðið var að ganga hringinn í kring um tjörnina.

Þar sem við stóðum fyrir framan Ráðherrabústaðinn ákvað ég að fara inn á lóðina nákvæmlega á þeim stað sem ég stytti mér alltaf leið sem krakki.  Mig langaði svo mikið að fara á mínar gömlu heimaslóðir en ég ólst upp fyrstu árin mín í bústaðnum og var meir og minna alin þarna upp öll mín uppvaxtarár.

Það hafa ekki verið miklar breytingar gerðar þarna, sami grasflöturinn, jú nýjar tröppur upp á efri lóðina, rabbabarabeðið horfið og mikið búið að fjarlægja af rifsberjatrjánum hennar ömmu minnar. Annars allt eins.  Þegar amma mín fór þaðan upp á Hrafnistu var búið að malbika yfir bílastæðið að aftanverðu. 

Ég stoppaði aðeins og lét hugan reika til uppvaxtaráranna.  Mig minnir að það hafi alltaf verið sól og pönnukökulyktin svo og kleinulyktin úr litla eldhúsinu hennar ömmu sem var á efri hæðinni, þar sem nú er afdrep fyrir bílstjóra ráðamanna sem fyllti vitin og ég lét mig dreyma litla stund.  Ég horfði upp í gluggana þar sem svefnherbergi og stofa ömmu minnar var til tugi ára.  Þar sem við sátum tvær og spiluðum á spil og hún leiðbeindi mér um lífsins gagn og nauðsynjar sem ekki alltaf voru í samræmi við hugmyndir móður minnar.  Ég tók alltaf mark á ömmu minni og fór reglulega eftir því sem hún sagði enda samræmdust okkar hugmyndir og gjörðir vel.

Ég var nú ekkert að kíkja inn um gluggana enda oft búin að koma inn í bústaðinn eftir breytingar sem gerðar voru á herbergjaskipan fyrir nokkrum árum.  Nú er engin kónga eða drottningasvíta lengur en fallega borðstofan og stofurnar niðri eru eins.  Jafnvel held ég að gamli flygillinn sem ég glamraði á standi enn í sínu horni.

Ef ég hef verið nöppuð á eftirlitsvél öryggisráðsins þá bara það.  Mér fannst ég ekkert vera þarna í leyfisleysi þó ég kæmi aðeins við í bakgarðinum hennar ömmu minnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Auðvitað varstu ekki í leyfisleysi, Það sem mér fannst yndislegast við að koma til ömmu og afa var að þar fékk maður alla viskuna sem þau bjuggu yfir.

Fórstu svo ekki á skauta á tjörninni á vetrum?

Knús til þín ljúfust mín
Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.3.2010 kl. 18:25

2 identicon

 Yndislegt Ía mín að eiga svona góðar minningar.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 19:18

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Skemmtileg færsla darling, gott að heyra að þú ert farin að ganga þér til heilsubótar á ný. Baráttukveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 8.3.2010 kl. 19:57

4 identicon

Æ þú ert svo bara yndisleg og lík sjálfri þér. Hlý hönd á vanga frá mér.

Halla Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 21:08

5 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 11.3.2010 kl. 08:35

6 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sannarlega ljúfar minningar, þessar ömmur voru hver annarri betri, þó ég hefði aldrei fengið annað en plastglas að drekka úr hjá minni, eftir að mér tókst að brjóta nokkur örþunn mjólkurglös í sundur.  Nei ungfrú Jenný þú færð plastglas hjá mér þangað til þú lærir að hætta að bíta glasið í sundur!

En pönnukökur kunnu þær að baka á tveimur í einu, og var alveg sama þó maður stæði við stóna og æti þær heitar beint af pönnunni, því þannig voru þær beztar.

Knús á þig Ía mín, vona að þú sért að sperrast.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 12.3.2010 kl. 05:06

7 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Já... það er undarlegt að í minningunni var alltaf sól þegar maður var krakki! Hvernig skyldi standa á því?

Ætli verði alltaf sól þegar maður hugsar til baka - verandi kominn á elliheimili?

Við verðum eiginlega að lenda á sama elliheimili og bakka hvor aðra upp í rigningardögum

Hrönn Sigurðardóttir, 19.3.2010 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband