8.3.2007 | 13:09
Geraldine Mucha heiðursgestur á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna
Hér í Prag er starfræktur Alþjóðlegur kvennaklúbbur IWAP (International Womens´s Association of Prague) og í tilefni dagsins verður heiðursgestur okkar í hádeginu Geraldine Mucha.
Geraldine er ættuð frá Skotlandi og var gift syni Alfons Mucha, eins þekktasta listamanns Tékklands.
Ég kynntist þessari merku konu fljótlega eftir að ég kom hingað til Prag. Geraldine sem verður níutíu ára í júlí á þessu ári, man tímana tvenna. Hún hefur búið hér meir og minna síðan 1945 og upplifði hörmungar kommúnismans. Þegar hún flutti fyrst til Prag bjó hún hjá tengdamóður sinni, ekkju Alfons Mucha. Maður hennar, Jiri var fljótlega tekinn fanga af kommúnistum og var í haldi í þrjú ár. Geraldine sá fyrir sér og einkasyni þeirra hjóna með því að skrifa tónverk fyrir ríkið enda mikill tónlistamaður. Enn þann dag í dag semur hún tónverk sem flutt eru hér í borg og víðar.
1970 flutti hún aftur til London og vann þar hörðum höndum við að aðstoða eiginmann sinn við að koma upp sýningum með verkum Mucha. Eftir nokkra ára aðskilnað þeirra hjóna flutti hún aftur til Prag og býr enn í sama gamla húsinu upp í Hradcany innan um húsgögn og verk tengdaföðurs síns.
Það er vel við hæfi að heiðra þessa merku konu hér í dag sem hefur snert svo marga strengi í hjörtum okkar sem kynnst hafa, og haldið uppi nafni Alfons Mucha.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.