5.4.2007 | 19:39
,,Hody, hody, doprovody" æfagamlir siðir á Páskum í Tékkklandi
Um daginn þegar ég fór að undirbúa Páskana mundi ég eftir bók sem ég hafði lesið sem unglingur sem hét Veronika. Ekki man ég nú lengur hver höfundurinn var, en þessi bók sat lengi í mér einhverra hluta vegna og gerir enn. Hún gerðist annað hvort í Tékklandi eða Ungverjalandi. Þar var sagt frá æfagamalli hefð um Páska sem jafnvel eymir af enn í dag.
Ég sat að spjalli við Tékkneska konu um daginn sem fór að segja mér hvernig hún hefði upplifað Páska sem barn. Hún dvaldi alltaf hjá gamalli frænku sinni upp í sveit sem bjó í hrörlegum kofa rétt við skógarjaðar. Fyrir neðan var dálítið þorp sem aðeins taldi tíu hús ef hús skildi kalla. Þar sem engin var kirkjan var lítið um kristilega fræðslu en gamlir siðir voru hafðir í hávegum.
Á föstudaginn langa var farið með öll börnin og þau böðuð upp úr ískaldri ánni, alveg sama hvernig viðraði. Fullorðna fólkið fastaði þennan dag. Börnin fengu aðeins heita mjólk og brauð ,,mazanec" sem er búið til úr mjöli og hlaðið rúsínum og möndlum. Þetta brauð fæst enn keypt hér í búðum fyrir Páska og líkist helst gamla rúsínubrauðinu okkar. Ef efni voru lítið fengu börnin annars konar brauð sem nefnt var ,,Jidásky" sem voru litlar kökur sem helt var á hunangi. ,,Jidásky" þýðir í raun Júdas, sem sveik Jesú Krist.
Fólk heimsótti hvort annað laugardag fyrir Páska og á Páskadag og borðaði það sem uppá var boðið, sem oft var af skornum skammti, en alltaf var nóg af osti, pylsum og víni. Allir fengu smá pakka með sér heim sem kallaður var ..výskuzka". Oft voru listilega skreytt egg gefin og enn í dag mála Tékkar eggin sín og selja hér í Prag.
Á annan í Páskum var mikil hátíð fyrir börnin. Þau útbjuggu sér fléttaða reirstafi og gengu hús úr húsi syngjandi ,,Hody,hody, doprovody" sem þýðir, Hátíð, hátíð, vinir mínir, eða eitthvað í þá áttina. Síðan heldur vísan áfram.... gefið okkur rauð egg. Ef þú átt ekki máluð egg, gefið okkur þá að minnsta kosti hvítt. Stelpurnar báru körfur og í þær var sett góðgæti en strákarnir fengu útrás með því að slá kvennfólkið á afturendann. Þessi siður er enn viðhafður hér og ég á von á mörgum krökkum hér við hliðið á annan í Páskum syngjandi Hody, Hody, doprovody.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.