7.4.2007 | 09:54
Sú gamla mætt á svæðið, heil á húfi og alsæl!
Minn elskulegi tók á móti tengdamömmu sinni í gær og lýsti því með tilþrifum fyrir mér þegar hann kom heim. Þarna kom hún út úr flughöfninni sitjandi í hjólastól með fylgdarmann og veifaði mannfjöldanum í allar áttir eins og drottning. Hún átti ekki orð yfir huggulegheitin og tillitsemina sem henni var sýnd hér við komuna til Prag. Það var víst eitthvað annað heima á Flugstöð Leifs Eiríkssonar við brottför, en ég þarf að kanna það mál betur áður en ég fer að skammast opinberlega.
Erna var svo elskuleg að fylgja henni alla leið og þarf ég að finna út á hvaða hóteli hún býr svo ég geti þakkað henni fyrir. Hafsteinn og Helga voru líka með vélinni en hittu kellu aldrei, ætli hún hafi ekki verið að versla gæti hugsað mér það. Mér var nú farin að lengja eftir þeirri gömlu en minn elskulegi varð að fara með H & H niður á Reykjavík, en þau gista í íbúðinni þar. Egill og Bríet komu þangað til að hitta Ömmu sína og sú gamla fékk Häagen Dazs ís, alsæl. Vildi ekkert borða, var örugglega alltof spennt.
Þegar hún loksins kom hingað heim gaf ég henni kaffi og rak hana síðan í rúmið. Þar svaf hún í tvo tíma og klæddi sig síðan upp fyrir kvöldmatinn eins og hefðarkonu sæmir. Auðvitað var fiskur á borðum og hún auðvitað sársvöng eftir langan föstudag. Við tókum upp eðalhvítvín, dýsætt og mín alsæl með lífið. Ég rak hana síðan aftur í rúmið klukkan hálf ellefu og ég veit þið trúið því ekki, en hún sefur enn. Ætli ég verði ekki að prófa að setja spegil við vitin á henni til að tékka á önduninni. Nei, það er allt í lagi með hana, engar áhyggjur.
Ég læt ykkur fylgjast með hér á blogginu kæra fjölskylda næstu daga.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.