Þjónustuleysi eða ef til vill bara hugsunarleysi í flugstöð Leifs Eiríkssonar

Við sem biðjum um að fá hjólastól og aðstoð fyrir aldraða ættingja okkar sem ferðast einir til og frá útlöndum erum ekki að gera þetta að gamni okkar, eða til að íþyngja starfsfólki flugstöðvarinnar í Keflavík, þetta er gert af illri nauðsyn.  Því miður virðist þessi þjónusta vera í algjöru lágmarki á Íslandi og jafnvel talin ónauðsynleg.  En sjálfsagt vegna þess að alþjóðareglur kveða svo um að þessi þjónusta verði að vera fyrir hendi þá verða starfsmenn að hlýta þessum reglum, en gera það með hundshaus.

Í vikunni sem leið var móðir mín 83ja ára, ein á ferð frá Keflavík til Prag.  Ég hafði pantað fyrir hana hjólastól og fylgd þegar ég sótti flugmiðann og var það auðsótt.  Ég hef beðið um þessa þjónustu einu sinni áður og þá flaug hún með Icelandair til Frankfurt og flugfreyjurnar í vélinni höfðu ekki hugmynd um að það væri farþegi um borð sem þurfti á hjólastól að halda. Ég vil taka það fram að ég er ekki að áfellast starfsfólk Heimsferða, heldur þjónustuleysi starfsfólks flugstöðvarinnar.  Ég hef líka heyrt að þetta sem við lentum í er ekkert einsdæmi.  

Flugið var áætlað klukkan sjö um morguninn og bróðir minn keyrði móður okkar til Keflavíkur og var mættur stundvíslega tveimur tímum fyrir brottför, eins og lög gera ráð  fyrir. Á öllum flugvöllum sem ég hef komið til hafa verið aðgengilegar upplýsingar fyrir farþega fyrir ofan hvern bókunarbás.  Þú ert að fljúga til Oslo og þá ferð þú að bás sem stendur Oslo og bókar þig inn þar.  Ég skil ekki þessa hringavitleysu í Keflavík.  Þarna sem bróðir minn kemur með gömlu konuna, fyrir allar aldir, og sem gefur að skilja, þreytta eftir ónægan svefn, er margmenni í einni kös að bíða eftir að bóka sig í flug enda sex eða átta vélar að fara í loftið á sama klukkutímanum.  Á öllum skiltunum fyrir ofan bókunardeildina stendur aðeins Icelandair. 

Hann plantar þeirri gömlu á meðal farþega og fer að líta eftir hjólastól.  Eftir nokkra stund kemur starfsmaður með stól og hann spyr hvort þetta sé stóll fyrir tiltekna konu.  Svarið er já og um leið segir hún ,,það er bókað inn hér hinum megin við vegginn til Prag"  Ja hérna, hvernig átti fólk að átta sig á þessu, það voru engar merkingar að sjá. Eftir að hafa bókað þá gömlu inn spyr hann svona í sakleysi sínu hvort henni verði síðan fylgt í gegn um passaskoðun og upp í fríhöfn.  Svar:  ,,Já eftir einn og hálfan tíma"  Hann kváði og fékk það svar að farþegum sem væru í hjólastól væri rennt beint að hliðinu hálftíma fyrir brottför.  Jahá, þá átti gamla konan að dúsa þarna í stólnum eins og illa gerður hlutur, ekki einu sinni hægt að fá sér kaffisopa.  Bróðir minn spyr þá af hverju í ósköpunum sé ekki látið vita af þessu þegar stóll sé pantaður svo fólk sé ekki að þvælast tveimur tímum fyrr, eingöngu til þess að bíða í þessari óvistlegu brottfararbyggingu.  Það var víst lítið um svör. 

 Nú spyr ég, af hverju var ekki hægt að renna henni í gegn og koma henni fyrir á einhverjum kaffistaðnum uppi. Þetta hefði teki í mesta lagi tíu mínútur.  Biðjast síðan afsökunar og spyrja hvort þetta sé ekki í lagi?  Útskýra líka að það kæmi síðan starfsmaður og færi með hana út að vél rétt fyrir brottför? Þvílíkt þjónustuleysi!!  Ég veit að svarið sem ég fengi væri að það væri svo fátt starfsfólk og svo margar vélar að fara á sama tíma.  Þetta svar er mér gjörsamlega ófullnægjandi.  Hvergi í heiminum er farið svona með gamalt fólk. 

Til allrar hamingju þekkti bróðir minn einn af farþegunum sem var á leið til Prag og þessi elskulega kona bauðst til að taka móður okkar að sér og koma henni út í vél. Vil ég þakka henni fyrir alla hjálpina og hugulsemina.  Allan tímann sem hún var með gömlu konuna uppi í fríhöfn kom enginn að athuga með  konuna í hjólastólnum, hvort hún væri lífs eða liðin. Starfsfólkið var sjálfsagt guðs lifandi fegið að þurfa ekki að standa í þessu óþarfa veseni. 

Þegar vélin síðan lenti í Prag kom flugfreyjan til móður minnar og sagði að það biði hennar hjólastóll við útganginn og fylgdarmaður.  Auðvitað var gamla konan farin að kvíða því að lenda í Prag og fá enga aðstoð frekar en í Keflavík.  En það var auðvitað allt önnur þjónusta hér.  Töskurnar teknar af bandinu og henni fylgt alla leið út og beðið með henni þar til tekið var á móti henni og hún í öruggrihöfn.  Sem sagt ósköp eðlileg þjónusta.  Nú er bara að bíða eftir því að heyra hvernig þetta verður þegar hún lendir í Keflavík eftir nokkra daga.               


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Erla Sigurðardóttir

Leifstöð er mjög furðuleg, það er til dæmis engin leið að skipta um bleyju á barni á klósettunum í komusalnum. Engin skiptiaðstaða, ekkert borðpláss við vaskana og engar setur á klósettunum. það eina sem er í boði er skítugt flísagólfið.

Nema maður vippi kúkableyjunum bara af krökkunum í miðjum komusalnum. Það gæti orðið skemmtilegt 

Sigrún Erla Sigurðardóttir, 10.4.2007 kl. 16:51

2 identicon

Þetta er náttúrulega svo fáránlegt að það hálfa væri of mikið!

RAGGA

Ragga (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband