16.4.2007 | 08:18
Chaplintaktar hjá þeirri gömlu
Ég fór með þá gömlu í smá verslunarferð í vikunni. Nú tala ég eins og Flosi Ólafs, gamli kollegi minn. Hann sagði oft að Lilja sín færi með sig hitt og þetta, eins og gamalmenni.
Eftir að hafa gengið um í verslunarmiðstöðinni og verslað dálítið ákvað ég að nú væri nóg komið og best að koma sér út enda þoli ég ekki svona Mall. Sú gamla vildi enga hjálp í rúllustiganum og ég var alveg á nálum að hún steyptist þarna á hausinn, en allt gekk vel og við komnar að útgöngudyrunum. Hún æðir beint af augum og inn um snúningsdyrnar á undan mér. Eitthvað hefur henni fundist hraður snúningurinn því allt í einu stekkur hún af stað og ég horfi á hana hlaupa útskeifa, veifandi stafnum eins og í bestu Chaplin mynd. Ég stóð þarna fyrir innan í hláturskasti, en út komst sú gamla, óslösuð!
Önnur verslunarferð var farin því ég varð að fara upp í gróðrastöð og versla plöntur. Á meðan ég var að útrétta fór sú gamla á stúfana og ég létt hana bara eiga sig, enda hefur hún komið þarna mjög oft og þekkir sig mætavel. En það hefði ég ekki átt að gera, því hún hafði það af að kaupa þvílíka vitleysu, einhverja ómerkilega glerdiska, forljóta. Ég spurði hvað hún ætlaði að gera við þetta. Þá átti þetta að vera gjöf til Önnu systur Síðan nokkrum dögum seinna þegar ég segi að hún geti nú varla farið að gefa svona dót, þá segir sú gamla ,, æ,já ég var nú að hugsa það, ætli ég eigi þetta þá ekki bara sjálf".
Annars hefur vikan liðið stóráfallalaust og farið að síga á seinni hluta ferðarinnar. Ég verð nú að fara með hana í bæinn í dag eða á morgun svona til að róa verslunargleðina. Það er líka búið að vera gestkvæmt hér og það finnst henni alveg meiri háttar gaman. Svo hefur veðrið leikið við hana og ekki hefur það skemmt ferðina.
Jæja, ég heyri að mín er vöknuð svo það er best að setja sig í hlustunarstellinguna. Ég hef reynt að nota tímann á morgnanna á meðan hún sefur til að gera það nauðsynlegasta. Þetta er eins og að vera með litlu börnin, drífa sig að gera eitthvað á meðan þau sofa
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.