18.5.2007 | 14:44
Hans heilagleiki gekk út í garðinn og um leið braust sólin fram
Í gær var dumbungur í henni Prag og eiginlega í mér líka en þar sem langur dagur var óumflýjanlegur, varð maður bara að koma sér í gírinn og taka á honum stóra sínum.
Við mættum í móttöku hjá vinum okkar Norðmönnum þar sem haldinn var hátíðlegur 17. maí. Við erum nú ekki mikið fyrir að sækja þessar móttökur nema þá hjá nágrannaþjóðum okkar Íslendinga. Eins og vera ber stóðu sendiherrahjónin Inger og Peter í anddyrinu og tóku á móti gestum sínum. Vinkona mín var glæsileg í sínum fallega þjóðbúningi en með vinstri hendina hátt á lofti þar sem hún var reyrð í einhverskonar spelkur eftir að hafa dottið á skíðum fyrir sex vikum. Þar sem hún hefur mjög góða kímnigáfu fannst mér bara vanta norska fánann í hendina. Þetta var auðvitað ekkert findið en samt ansi skoplegt.
Þar sem frekar þröngt var orðið um manninn fór fólk að safnast saman á veröndinni þrátt fyrir dumbung og hráslaga. En viti menn, um leið og Hans heilagleiki, fulltrúi kaþólsku kirkjunnar gekk út þá birti til og sólin hellti geislum sínum yfir samkomuna. Einn af gestunum gat ekki á sér setið og hrópaði upp yfir sig, kraftaverk!
Ekki náði kraftaverkið til míns slæma maga svo eftir einn og hálfan tíma kvöddum við vini okkar sem stóðu enn í sömu sporum, frúin en með hendina hátt á lofti, auðsjáanlega sárþjáð með frosið bros á vörum. Kraftaverkið hafði heldur ekki náð til hennar. Þarna var hvorki staður né stund til að gantast með kringumstæður en það verður örugglega gert seinna í góðu tómi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.