18.5.2007 | 19:16
Undraverður uppsláttur!
Hér hjá okkur í sveitinni, undanfarna daga hafa vinnumennirnir okkar verið að slá upp fyrir steinvegg, þar sem 200 ára gamall veggur var að hruni kominn. Uppslátturinn vakti listamanninn Helga Gísla virkilega til umhugsunar og sá ég hann með myndavélina hér snemma morguns að mynda þessa hörmung í bak og fyrir.
Minn elskulegi var nú búinn að segja þeim fyrir verkum en einhverja hluta vegna fóru þeir sínar eigin leiðir og þvílíkt og annað eins klambur höfum við ekki séð síðan við vorum krakkar að byggja kofana okkar. En þar sem við vorum ekki heimavið í gær og komum seint heim og sáum ekki fyrr en í morgun þennan líka furðulega uppslátt. Lítið var hægt að gera því von var á steypubílnum um hádegi. Auðvitað lak öll steypan niður og á milli þylja þegar byrjað var að dæla svo hér voru allir komnir í steypumokstur til að bjara málunum. Að lokum eftir margra stunda mokstur komst þetta sull allt í mótin og nú er bara að bíða og sjá hvernig til tókst.
Þetta minnir mig á þegar við hér fyrir nokkrum árum vorum með fólk frá Úkraníu í vinnu. Það var með ólíkindum hvað þetta fólk gat fundið uppá. Eitt sumarið fengum við hjón í sumarvinnu og vorum búin að gera upp íbúð hér í starfsmannahúsinu sem við köllum Víkina. Ég hafði komið fyrir næstum nýjum ísskáp og íbúðin leit þokkalega út. Fyrsta daginn þegar frúin kemur út í garðvinnuna er hún ekki þetta líka flott í glitrandi pallíettubol. OK, ég hugsaði með mér að fyrst hún væri svona fín í taujinu þá hlyti hún að ganga vel um. Eftir u.þ.b. mánuð fann ég einhverja annarlega lykt berast úr íbúðinni svo ég fór að athuga málið. Mér fellust algjörlega hendur. Það var búið að fjarlægja klósettseturnar og þvílík aðkoma, þrátt fyrir að ég hafði skilið eftir hreinlætisvörur, bursta og skrúbbur. Og til að kóróna allt saman hafði ísskápurinn aldrei verið settur í samband og maturinn auðvitað úldinn í 30° hita. Eftir þetta sumar lofaði ég mér því að fá aldrei aftur Rússa í vinnu og hef staðið við það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.