11.6.2007 | 08:34
Varhugaverður orkudrykkur, minn elskulegi fór í vímu.
Hér um daginn var einhver að blogga um Zero Cola og þá datt mér allt í einu í hug ferð okkar hjóna hér á vordögum. Við voru á leið til Vínar og fljótlega eftir að við lögðum af stað byrjaði minn elskulegi að syngja hástöfum. Hann stendur nefnilega í þeirri meiningu að hann hafi fundið hinn rétta tón og sönggleði hans getur stundum farið útí öfgar. Í byrjun ferðarinnar reyndi ég að taka undir og raula með því ég vildi nú ekki vera leiðinleg. Þetta átti nú einu sinni að vera skemmtiferð.
Eftir að hafa hlustað á hann fara allan skalann, þess á milli að hlusta á alla Mortensana á geisladiskunum var ég eiginlega alveg búin að fá nóg. Bað hann vinsamlegast að hætta þessu rauli og hvíla raddböndin. Hann bara espist upp við þessa bón mína og nú var virkilega tekið á því og taugakerfið í minni komið á dampinn. Þá allt í einu tek ég eftir því að hann hefur verið að súpa á einhverri forljótri flösku alla leiðina. Ég spyr hvað hann sé eiginlega að drekka og svarið var Black Cola. Ég hafði aldrei séð þennan drykk fyrr og spyr hvað þetta sé eiginlega og fékk að vita að þetta væri nýr orkudrykkur frá Coca Cola. Þarna kom skýringin á háttarlagi míns elskulega. Hann var sem sagt í vímu kallinn.
Hann róaðist ekki fyrr en seint um kvöldið eftir góða máltíð, en þá tók hann uppá því að stilla sér við píanóið þar sem húsráðandi spilaði fyrir okkur ljúfa tóna og komst í þvílíkt róandi hugarástand að annað eins hef ég ekki séð í langan tíma.
Ég vara ykkur við þessum drykk ef hann fæst á Íslandi, reynið ekki að dreypa á honum nema eftir læknisráði.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.