11.6.2007 | 12:33
Bílhrædd, lofthrædd og skíthrædd á sveitavegi í Þýskalandi
Ég var að líta yfir fréttir dagsins þar sem sorglegar fréttir úr umferðinni eru áberandi. Hvernig er hægt að velta bíl í göngum? Hér fara yfirleitt allir eftir hraðatakmörkunum þegar farið er í gegnum göng. Ég tók líka eftir því um daginn þegar við vorum að keyra í Þýskalandi að viðvörunarskilti eru orðin áberandi fyrir bifhjólamenn og ekki af ástæðulausu.
Ég hef alltaf verið bílhrædd og ekki hefur það skánað með aldrinum. Er alveg óþolandi aftursætisbílstjóri, er eiginlega alltaf á bremsunni ef ég keyri ekki sjálf. Ég held nú samt ég sé alveg skítsæmilegur bílstjóri og á það til að kitla pinnann af og til. En undanfarið hef ég ásett mér hægari akstursmáta og fer yfirleitt eftir settum reglum. En það er ekki aðeins að ég sé bílhrædd heldur er ég líka hræðilega lofthrædd og get varla farið upp tvær tröppur í lausum stiga.
Um daginn vorum við að keyra um Þýskaland og ég tók við keyrslunni þar sem minn elskulegi var orðinn ansi lúinn. Allt gekk vel framanaf og minn dottaði við hliðina á mér þar sem ég keyrði örugglega um sveitavegi landsins. Leiðin lá uppí móti og í byrjun var þetta ekkert mál ég lullaðist þetta áfram en allt í einu fann ég hvernig maginn herptist saman og ég varð löðursveitt um lófana. Það var þverhnípi niður hægra megin og ég var hreinlega að drepast úr hræðslu en ætlaði nú aldeilis ekki að gefast upp, fannst þetta fremur asnalegt að líða svona þar sem það var ég sem sat undir stýri. En ég var orðin svo hrædd að ég var farin að ímynda mér að bíllinn færi afturábak, þrátt fyrir að ég væri á fullri ferð áfram.
Ég reyndi að líta eftir útkeyrslu til að geta stoppað en það var enga slíka að finna svo ég var nauðbeygð til að halda áfram. Eitthvað hefur keyrslumátinn raskað ró mínum elskulega þar sem hann vaknar og spyr ,,hvað er eiginlega að þér manneskja, haltu áfram, þú getur ekki stoppað hér". Það lá við að ég stoppaði á punktinum og færi út úr bílnum, svo hrædd var ég orðin. Loksins gat ég fundið útkeyrslu og var snögg að láta minn taka við. Næst læt ég hann keyra, þá get ég bara lokað augunum og beðið til Guðs.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.