19.6.2007 | 11:52
Kattaróhræsið farinn að gera sig virkilega heimakominn
Ég hef aldrei verið sérlega hrifin af köttum, og alla tíð verið hálf hrædd við þá. Undanfarna tvo mánuði hefur kattarkvikindi gert sig heimakominn hér mér til mikillar armæðu. Fyrst í stað reyndi hundurinn að bægja þessari skepnu frá mér en nú er svo komið að ég get ekki lengur treyst á hundinn. Í staðin fyrir að vera eins og hundur og köttur eru þeir orðnir bestu mátar og farnir að leika sér saman.
Það er ekki nóg að þetta litla gráa loðna dýr væli hér eftir mat heldur grefur hann upp í öllum úrgangi ef ekki er nógu vel gengið frá, sjálfsagt vegna þess að ég harðneita að fæða þetta óféti. Minn elskulegi er búinn að segja mér að ég sé óttaleg ótukt við litla greyið en ég bara get ekki að þessu gert, mér er meinilla við hann. Síðan hef ég líka heyrt að kettir hjálpi ekkert við músagangi, þeir bara leika sér að þeim og koma jafnvel með þær hálfdauðar inní hús. Thank you very much!
Kisi reyndar forðast mig ef hann sér mig því ég stappa niður fótum eins og brjálæðingur og hef gripið til vatnsslöngunnar ef hún er við hendina. En það virðist ekkert duga til. Einhverntíma hafði ég heyrt að kettir þoldu ekki hvítlauk, ég er búin að reyna það. Útdeildi hér hvítlauk um alla lóðina en ég held bara að hann hafi étið hann og fundist góður. Svo nú er ég heimaskítsmát og þigg allar þær ráðleggingar ef einhver hefur þær á takteinum.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Eins og alþjóð veit þá hata kettir sítrusávexti. Ég man að ég gerði mér að leik, í kvikindisskap mínum, (reyndar landsþekktur dýravinur), að úða úr appelsínuberki á köttinn minn og framkallaði með því svipbrygði sem sjaldséð eru á köttum. Svínvirkar á sandkassa og hann á ekki eftir að eta ávöxtinn. Setjið sítrónusneiðar í skóna eða stígvélin og þrammið rösklega um landareignina, vinnur líka á líkþornum. Obtional: Berið sítrónusafa umhverfis svæðið sem verja á.
ATH!Hundum er líka meinilla við C vítamín!
Egill Jóhannsson (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.