Yessss! Búin að fá ,,garðínu" og ekki í pallíettublússu!

Nú er mín ekkert smá ánægð.  Eftir að hafa tuðað og suðað um að komast ekkert áfram hér í garðinum barst mér að himnum ofan í gær þessi líka þrælduglega kona. Skælbrosandi birtist hún hér þrátt fyrir að ég hefði sagt vinnumanninum að ég ætlaði að athuga málið.  Meðferðis hafði hún fjóra plastpoka og svei mér þá ég hélt hún væri að flytja inn. Ekki veit ég enn hvað var í pokaskjöttunum.

Um daginn gafst ég alveg upp á að komast yfir verkin hér og datt í hug að spyrja annan vinnumanninn hér hvort hann þekkti ekki einhverja konu sem væri til í að fá sér smá aukapening.  Hann kom síðan og sagði mér að hann hefði eina á takteinum en sú gæti bara unnið frá 3-7.  Ég sagðist (á minni góðu tékknesku) að ég skildi athuga málið og léti hann síðan vita.  Að sjálfsögðu tók hann mig bara á orðinu og að athuga getur líka þýtt prófa.  Svo nú er ég komin með þessa þrælduglegu konu sem er eins og jarðýta og ég get snúið mér að því að halda áfram að hanna lóðina.

Satt best að segja hef ég ekki verið ýkja heppin með hjálparhellur hér í garðvinnunni.  Fyrst fékk ég eina frá Úkraínu og sú var nú skrítin.  Fyrsta daginn mætti hún hér í svörtum leggings og gylltum pallíettutopp eins og hún væri að fara á ball.  Kunni ekki að halda á hrífu hvað þá meir.  Hún hafði eitthvað mikið dálæti á garðslöngum og hennar yndi var að rífa slöngurnar allar í sundur þar sem þær voru samansettar og rúlla þeim snyrtilega upp í hrúgu.  Úðarar og annað sem tilheyrði var hent hingað og þangað því hún vissi auðsjáanlega ekki til hvers þeir voru þó að ég reyndi margsinnis að segja henni að úðarar væru nauðsynleg áhöld.  Sú næsta var héðan úr sveitinni og var þokkaleg í byrjun en þegar leið á sumarið í fyrra var hún komin með alla fjölskylduna hingað og sat undir húsvegg á snakki allan daginn.  Þannig að ég hafði litla trú á að finna góða,,garðínu" en viti menn nú held ég að hún sé fundin og er á meðan er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband