Ef það flæðir ekki út úr ísskápnum þá er ,,ekkert" til!

Krakkarnir okkar, sem eru nú komin á fertugsaldur segja oft og iðulega þegar þau koma í heimsókn og opna ísskápinn að það sé bara ,,ekkert til" þrátt fyrir að kælirinn sé fullur af hollustufæðu.  ,,Ekkert til" þá meina þau ís í frysti, súkkulaði kex í kexskúffunni eða nammi í nammiskúffunni eins og þegar þau voru að alast upp.  Í dag inniheldur kexskúffan hrökkbrauð og hafrakex, í nammiskúffunni er í mesta lagi tyggjó og ís er keyptur örsjaldan.

 Þar sem minn elskulegi er rosalegur morgunhani og fer í vinnu klukkan sjö, á meðan ég sef á mínum kodda, höfum við þann háttinn á að við tölum saman í síma þegar ég er búin með mína fjóra kaffibolla, alls ekki fyrr! Ég var svona í sakleysi mínu að segja honum hvað væri á dagsskrá hjá mér þennan daginn þá dettur út úr honum:,, Ja, þú verður nú að fara í búðina, það er ekkert til" Mér nærri svelgdist á kaffinu, ,,hvað meinarðu ekkert til, það er nóg til".  Og þar sem ég veit að hann borðar aldrei morgunmat, heldur fær sér einn bolla af te þá datt mér í hug að e.t.v. væri ekki til te.  Ég vissi nú að það fæddi ekki beint úr ísskápnum þar sem óvanalega mikill gestagangur hafði verið hér undanfarið og dálítið saxast á birgðirnar.  

Að sjálfsögðu hafði ég ætlað mér að gera stórinnkaup um daginn og gerði það líka.  Kom klyfjuð heim svo nú þarf enginn að kvarta yfir því að það sé ,,ekkert til"  ja nema það að ég sleppti því alveg að kaupa súkkulaðikex og nammi. 

 

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband