13.7.2007 | 13:18
Það vantar hæla og enga stæla talallalala.
Dóttir mín sagði mér í morgun að þau hjónin og Juniorinn litli væru að fara í útileigu með vinafólki sínu yfir helgina. Eins og sönn móðir spurði ég hvort þau ættu nú allar græjur, minnug þess hvernig við útbjuggum okkur í gamla daga, tjald, tjaldstólar, borð, svefnpokar, prímus, gasljós, fullt kælibox svo ég tali nú ekki um alla fatahrúguna sem fylgdi fjögra manna fjölskyldu. Yfirleitt var bíllinn svo pakkaður af drasli að maður varð að skáskjóta krökkunum inn í bílinn. Svo voru stígvélin sett efst með pollagöllunum því yfirleitt mátti búast við rigningu og síðan skottinu skellt aftur með látum og brunað á vit náttúrunnar.
Ég fékk nú að heyra það í gegn um ,,Skypið" að það væri bongóblíða á Íslandi og svo hvort ég væri búin að gleyma því að það væri enn björt sumarnótt. OK, en átti ekkert að elda, því hún sagði að þau ættu engan prímus. ,,Mamma, það á bara að grilla" OK, önnur bjánaleg spurning, er yfirbreiðsla á tjaldinu? Það eina sem ég fékk til baka var langt dæs. Ég ákvað að spyrja ekki frekar og bað þau bara að keyra varlega og skemmta sér vel.
Mér er svo minnisstæð síðasta útilegan sem við fórum í, okkar litla kjarnafjölskylda. Þá var ákveðið að keyra hringinn og vera í viku í tjaldi. Við áttum allar græjur til útilegu svo okkur var ekkert að vanbúnaði. Þar sem minn elskulegi er listakokkur átti að elda fyrsta kvöldið kjötbollur í brúnni með öllu tilheyrandi. Í suddarigningu á leið norður, eftir að búið var að tjalda og koma himninum fyrir, allir glorhungraðir átti að kveikja á prímusnum, sem reyndar hafði ekki verið notaður í nokkurn tíma, reyndist það ógerlegt. Við urðum að hætta við eldamennskuna og kvöldmaturinn varð Egils appelsín og Prins Polo. Daginn eftir var tjaldið tekið upp í úrhellis rigningu og haldið áfram með sultardropa í nös. Við vorum í því að flýja veðurhaminn í þrjá daga og enduðum í sumarhúsi fjölskyldunnar í Mýrdalnum. Þá tók ekki betra við, sonurinn þoldi ekki fúkkafýluna í húsinu svo eina lausnin var að brenna í bæinn um miðnætti.
Þar sem við vorum búin að hanga á hækjum okkar eins og apar í þrjá daga, komum við úr þessari svaðilför með bílinn eins og gatasigti þar sem við lentum í sandstormi á Sólheimasandi. ,,Aldrei aftur" sagði ég og hef staðið við það. Eftir þetta, ef um útileigu var talað reyndi ég að finna hótel við næsta tjaldstað. Mín þótti nú heldur fín með sig þá en í tjald færi ég aldrei aftur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.