18.7.2007 | 11:05
Mykjufýla er ekki kræsandi þegar sest skal að snæðingi.
Eftir veðurhaminn í nótt sem leið, þar sem Erró okkar hálf trylltist af hræðslu, enda gekk mikið á í háloftunum, bjóst ég svona hálfpartinn við því að fýlan frá kúamykjunni sem borin hefur verið hér á akrana myndi aðeins minnka eftir úrhellið en því miður var mér ekki að ósk minni og nú er verið að plægja þennan skít ofan í jörðina svo flugnagerið hefur aukist til muna.
Í morgun fannst mér svo svalt og gott úti ekki nema 27° að ég opnaði allar gáttir, en það hefði ég átt að láta ógert. Hér fylltist allt af skítaflugum og nú geng ég um eins og meindýraeyðir og úða eiturgufum um allt hús á þessi úrþvætti, hvar sem ég næ í þær. Á Íslandi væru þetta kallaðar húsflugur og ég man að þegar ég var lítil þá átti mamma mín alltaf eina svona vinkonu í eldhúsinu. Ég kæri mig nú helst ekki um svona vinskap hér.
Ekki er heldur geðslegt að finnast maður sitja í miðjum mykjuhaug þegar kvöldmaturinn er snæddur því auðvitað viljum við helst sitja úti á veröndinni á slíkum sumarkvöldum þegar lofthitinn fer minnkandi eftir hitasvækju dagsins. En svona er nú að búa uppí sveit. OK halda áfram í Pollýönnuleiknum, má vera glöð að þetta gengur yfir á einni viku.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.