27.8.2007 | 19:49
Ekkert sjálfsagðara frú mín góð, en þú verður að borga 1.200.- fyrir egg-fried rice.
Þetta sagði stimamjúki eigandinn að Kínamúrnum við mig þegar ég og minn elskulegi ætluðum að fá okkur smá snarl þegar við vorum heima síðast. Við vorum líka forvitin að sjá hvernig þeir hefðu breytt gamla góða Naustinu. Ég gapti af forundran og hváði framan í Kínverjann sem bliknaði ekki einu sinni heldur hélt þessu frosna smeðjulega brosi sínu. Við höfðum pantað okkur tvo rétti þar sem hrísgrjón fylgdu með. Mig langaði í steikt hrísgrjón með eggi og spurði hvort ekki væri hægt að fá annan réttinn þannig. Jú,jú en ég varð að borga 1.200.- fyrir herlegheitin. Ég afþakkaði pent og trúði varla því sem ég hafði heyrt. Hvað kosta eiginlega eggin á Íslandi? Er ekki í lagi með þetta lið þarna heima. Maturinn kom eftir nokkra bið og var óætur. Ég hef aldrei fengið jafn vondan ,,Kína-mat" á ævinni. Þetta var eins og á römmustu búllu í China Town. OJ bara!
Ég las grein um daginn þar sem Steingrímur Sigurgeirsson skrifaði umsögn um staðinn. Við erum held ég sammála alla vega í stórum dráttum. Það sem áður var sögufrægur staður skartar plastþyljum innandyra og Kínaprjáli, OK, það eru engir drekar, ja jú nema utandyra. Þvílík smekkleysa!
Þetta atvik kom upp í huga minn um daginn þegar við hjónin brugðum okkur af bæ og fórum á einn besta Tælenska veitingastað borgarinnar. Við ákváðum að hafa þetta reglulega huggulegt kvöld. Byrjað var á því að fá sér glas af freyðivíni, síðan kom 8 rétta máltíð, hver rétturinn öðrum betri, rauðvínsglas og vatn. Þetta kostaði sömu upphæð og ógeðið á Kínamúrnum. Nota bene ég fékk egg-fried rice og borgaði 240.- krónur íslenskar fyrir það aukalega!
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.