Hehehe.. hér er búið að ríkja stríðsástand undanfarnar klukkustundir og hún fóstra mín var alveg að missa það! Og það er allt mér að þakka eða kenna. Ég þefaði uppi Lilla Klifurmús undir borðstofuskápnum á meðan fóstra mín og fóstri ásamt afa Gunna hámuðu í sig kvöldmatinn. Það er vitað mál að hér þarf enga ketti því ég get þefað uppi Lilla hvar sem hann er og allt hans hyski og það veit hún fóstra mín vel.
Þar sem ég lá og nagaði mitt kvöldbein fann ég lykt sem ég vissi að átti engan vegin heima hér í húsinu og fóstra mín sá að eitthvað var í gangi undir borðstofuskápnum. Kallaði strax til fóstra minn og hann lýsti með vasaljósi undir skápinn en sá auðvitað ekki neitt því Lilli var svo klár að skríða upp bakvið skápinn. Loks tókst fóstra mínum að ná honum undan en þá vildi ekki betur til en svo að hann skaust inn í eldhús og fóstra mín forðaði sér út á veröndina með hljóðum.
En Lilli hefur góðan smekk og faldi sig innan um Gestgjafana sem eru í uppáhaldsborði fóstru minnar. Hún heimtaði að borðinu væri snarlega rennt út og henni afhent Gestgjafinn, sem telur margra ára safn. Borðið sem er á hjólum fór út og fóstri minn selflutti árgangana í hendur fóstru minni sem allt í einu hljóðaði upp yfir sig og viti menn, Lilli hafði skriðið inn í uppáhalds uppskriftamöppuna hennar og auðvitað slapp hann aftur inn í eldhúsið. Fóstri minn var sem sagt alveg skíthræddur við Lilla ekki síður en fóstra mín.
Eftir langa mæðu og eltingaleik tókst fóstra mínum að koma honum út og nú er aumingja Lilli einhvers staðar úti í kuldanum, ja nema hann hafi leitað í Listasetrið því hann hefur víst gert sig heimakominn þar líka en er svo klár að hann nagar bara ostinn úr gildrunum sem fyrir hann hafa verið lagðar. Nú er fóstri minn búin að setja þessa líka forláta Freschezza skinku í gildruna svo á morgun verður sjálfsagt minningarathöfn fyrir Lilla Klifurmús og hans hyski.
Ég prinsinn fékk þvílíkt klapp og smá kjötbita að launum og er mjög upp með mér af afrekum kvöldsins. Nú er ég aftur orðinn númer eitt á heimilinu. Æ ég vona samt að ég þurfi ekki að eltast við Lilla aftur og hans kumpána, ég er nú enginn köttur en mér finnst samt gaman að leika mér að þeim, en bara úti. Var satt að segja sjálfur hálf smeykur við aðskotadýrið. En hafið það samt ekki eftir mér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.