31.1.2008 | 18:46
Ég er algjör auli
Í gær var dekurdagur hjá minni. Svona ég, um mig, frá mér, til mín. Ó þvílík sæla sem í vændum var! Tveggja tíma dúllerí með ilmjurtum. Herðanudd, andlitsbað og allt sem tilheyrir svona dekri. Marketa mín er alveg einstaklega mjúkhent og natin svo það er tilhlökkunarefni í hvert sinn sem ég á tíma hjá henni.
Mín var mætt stundvíslega á bekkinn og ætlaði svo sannarlega að njóta þess í botn að láta stjana við sig. Þar sem mín lá eins og slytti á bekknum undir hlýju teppi, fésið þakið yndislegri froðu fór að síga á mína höfgi. Og undir ljúfum tónum og sjávarnið hvarf hún ég fljótlega inn í draumalandið.
Hef satt að segja ekki hugmynd um hvað ég svaf lengi en hrökk upp með andfælum við hroturnar í sjálfri mér. Aumingja Marketa mín. Þarna var hún búin að smyrja, nudda og dekra við kerlinguna sem hraut síðan bara beint upp í andlitið á henni. Þvílíkt vanþakklæti!
Skelfilegt, líka það að þarna hafði ég legið hrjótandi eins og gamall selur innan um ilmandi orkideur, lágværa tóna, notalega lýsingu og bara misst af öllu fíneríinu. Ég er ekkert smá fúl útí sjálfa mig núna. Næst tek ég með mér eyrnatappa, og stoppunálar til þess að stinga í minn fína rass til þess halda mér vakandi. Ekki séns að ég missi af öðrum dekurdegi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.