19.3.2008 | 12:26
Eru þetta spælegg í páskagardínunum mínum?
Hér skipta veðurguðirnir um skoðun á fimm mínútna fresti. Vita ekkert vort þeir eiga að láta himininn gráta eða brosa niður til okkar. Ég er hálf fúl út í almanakið, páskarnir eru allt of snemma í ár.
Mínir páskar eiga að vera sólríkir dagar, sitja undir blómgandi kirsuberjatrjám í léttum sumarkjól með hádegisverðinn framreiddan á veröndinni sem skreytt er með páskaliljum og túlípönum sem boða okkur komu sumarsins. Öll tré skreytt með gulum og grænum eggjum sem flökta í vorgolunni eins og fiðrildi.
Ég lít hér út um gluggann og snjónum kyngir niður í svona jólaflyksum. Sem betur fer festist hann ekki neitt að ráði þar sem hitastigið er rétt yfir frostmarkið! Við sem fyrir viku kepptumst við að þrífa hér utanhúss jafnvel alveg út að þjóðveg til þess að hafa sem þokkalegast hér um páskana. Sú fyrirhöfn gaf ekkert af sér nema sára bakverki hjá okkur hjónum.
Þegar minn elskulegi snaraðist inn úr dyrunum seint í gærkvöldi varð honum á orði: Hvaða hvíta stöff er þetta sem þú ert búin að þekja alla lóðina með? Ég sat bara með kökkinn í hálsinum því ég hafði búist við einhverju á þessa leið: Nei, elskan ertu búin að páskaskreyta, og baka líka!!!!
Þrátt fyrir að hér væri ekki mjög páskalegt úti ákvað ég þó að setja dálítinn páskasvip á heimilið. Keypti nýjar eldhúsgardínur, voða páskalegar.
Athugasemd frá mínum elskulega: Heyrðu það eru spælegg í gardínunum.
Ég frussaði út úr mér: Nei, þetta eru svona gulir hringir, minnir ekkert á spælegg! (er enn að pæla í hvort hann hafi rétt fyrir sér, góni á þær í hver sinn sem ég kem inn í eldhús)
Minnir mig á þegar ég keypti nýjar gardínur eina páskana fyrir gluggann í holið í Traðarlandinu og pabbi kom í heimsókn og varð starsýnt á gardínurnar sem ég var rosalega hrifin af og sagði á milli hlátursroka:
Nei bara Séra Ólafur Skúlason kominn fyrir glugga á heimilinu!!! Gardínurnar minntu hann víst á möttul Ólafs.
En sem sagt hér er kominn pínu ponsi páskafílingur innanhúss og nú bara þarf ég að leggjast á bæn um gott veður. Held samt að himnafaðirinn fari nú ekki að ómaka sig yfir svo lítilsverðri bón svo ég ætla bara að fara núna og skvera mig í betri fötin og koma mér á tónleika. Það hjálpar alltaf sálartetrinu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Jamm, spælegg, held þú ættir að taka mynd af þeim og birta hér og lofa okkur að dæma. Knús í snjóinn, hér rignir.
Ásdís Sigurðardóttir, 19.3.2008 kl. 12:33
...en spælandi!!! Hvítt veður og matur í gardínunum. Mæli með tónleikum. Ég sit hér og raula bara í gegnum rigninguna og horfi á fallegar páskaliljur stíga dans á borðinu mínu. Skil samt alveg hvað þú meinar...man eftir pákunum í Englandi. Blómstrandi tré og páskablóm og krókusar hvar sem litið er. Eina páskana var svo gott veður að við eyddum þeim í sól og 25 stiga hita og grilluðum hvern dag.
Páskakveðja....
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 19.3.2008 kl. 14:24
Takk fyrir komuna kæru konur
Ía Jóhannsdóttir, 19.3.2008 kl. 23:44
Bráðum kemur betri tíð, með blóm í haga. Sæta langa sumardaga. - Gleðilega páska Kær kveðja til þín og þinna. Lilja
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.3.2008 kl. 23:54
Takk Lilja mín þetta vermir inn að hjartarótum
Ía Jóhannsdóttir, 20.3.2008 kl. 23:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.