Pákuleikarinn og Páfuglar Tékknesku sinfóníunnar.

Hver nema ég gæti fengið hláturskast  í miðri sinfóníu Brahms, nánar tiltekið þegar Tékkneska sinfónían spilaði Allegro non troppo kaflann fyrir troðfullum áheyrandasal.  Þarna sat ég eins og fífl og hristist af hlátri innra með mér, OK ég gat sem betur fer hamið það að hljóðið bærist út úr búknum, en augnatillitið sem minn elskulegi sendi mér sagði allt sem þurfti:

Reyndu nú að hemja þig manneskja, það er bara ekki farandi með þig innan um fólk.  Þetta er kultúrkvöld, ekki trúðaskemmtun! 

 Við vorum sem sagt stödd á tónleikum í boði sendiherra Lettlands þar sem m.a. var frumflutt verk eftir Lettneska tónskáldið Péteris Vasks. Tónleikarnir byrjuðu á undurfögru verki eftir Haydn og síðan kom verk Mr. Vasks sem var bara virkilega gott miða við að ég er ekkert sérlega hrifin af nútímatónlist. 

Í hléi var síðan dreypt á kampavíni eins og tilheyrir á svona stundum og ég veit ekki hvort það var vínið eða Brahms sem fengu mig til þess að hætta að fylgjast með tónlistinni.  Sumum sem leiðist á tónleikum fara að telja hljóðfæraleikarana en ég dundaði mér þarna við að grandskoða múnderinguna á kvennaliði hljómsveitarinnar.

Eitthvert þema var þarna örugglega í gangi því allar höfðu saumað hárautt siffon hingað og þangað á svarta síða kjólana og litu út eins og páfuglar með fiðlur.  Hræðilegt að sjá þetta drusluverk bylgjast með hreyfingum hvers og eins.  E.t.v. hefur þetta verið gert í tilefni páskanna en þvílíkt mislukkað dæmi.

Þetta var nú samt ekki það sem vakti kátínu hjá mér heldur var það yndislegi pákuleikarinn sem trónaði þarna aftast.  Ungur og örugglega mjög efnilegur maður en gat bara ekki hamið tilfinningar sínar. 

 Þarna stóð hann í öllu sínu veldi og lifði sig þvílíkt inn í verkið að hann var farinn að stjórna öllum í hljómsveitinni með höfuðhneigingum til hljóðfæraleikaranna þegar þeir áttu að koma inn.  Andlitið gekk í bylgjum og einstaka sinnum sýndist mér hann tralla með.  Þegar hann fékk svo tækifæri á að koma inn sjálfur og sýna getu sína þá var það gert með þvílíkum tilþrifum að maður bjóst við að kjuðarnir myndu skoppa úr höndunum og lenda bein í hausinn á stjórnandanum.  Aumingja drengurinn var svo gjörsamlega ómeðvitaður um þessa tilburði sína og naut sín svo fullkomlega þarna að það hálfa var nú nóg.

Þetta voru sem sagt hálfgerðir trúðaleikar sem við fórum á í gærkvöldi.   Mime 

 

 

      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband