29.3.2008 | 10:15
Andleg pína í Draumalandinu
Ég barðist við að vekja sjálfa mig og koma mér út úr draumheimum í morgun. Mörgum sinnum rumskaði ég og reyndi að rífa mig upp úr fletinu en féll aftur og aftur inn í þennan draumaheim sem var að fara með mig á tauginni.
Þegar ég loksins gat komið mér til hálfrar meðvitundar hentist ég fram úr rúminu og skjögraði fram algjörlega búin að sál og líkama. Umlaði góðan daginn til míns elskulega sem auðvitað var löngu vaknaður og sat í makindum við tölvuna í bókaherberginu. Nuddaði hausinn rækilega og hélt niður stigann enn með bankandi hjartslátt og brauðfætur sem varla nenntu að bera mig uppi.
Kaffi, kaffi, kaffi var það eina sem komst að í mínum litla kolli því það var eina sem gat vakið mig almennilega til meðvitundar um að þetta hafði verið draumur. Álíka draumarugl hefur komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og er alltaf jafn taugatrekkjandi og ég verð ekki búin að ná mér fyrr en undir kvöld skal ég segja ykkur. Sit hér, algjör taugahrúga með sveitta lófa og andateppu. Ég er ekki að djóka.
Nú eru margir farnir að hugsa: Hvað, á ekki að segja manni drauminn? Svo ætli sé ekki best að skrifa sig út úr þessu. Þið sem nennið ekki að lesa lengur, hættið bara núna.
Ég er stödd upp í Þjóðleikhúsi og það er frumsýning í kvöld. Stór og mikil sýning með fjöldann allan af leikurum, gömlum sem ungum. Ég sit með handritið uppi í búningsherbergi og er að bögglast við að læra textann. Hugsa, andskotinn ég hef ekki mætt á eina einustu æfingu. Ég mundi að ég hafði mætt á fyrsta samlestur en síðan kom sumarfrí og ég bara fylgdist ekki nógu vel með æfingartöflunni svo ég hafði aldrei mætt. NB þarna var ég með þokkalega stórt hlutverk og margar innkomur.
Ég var komin í búninginn og var hann allur hinn skrautlegasti enda var þetta sýning með söngvum og dansi. Ég vissi að hraðinn yrði mikill og ég hafði verulegar áhyggjur af því að ég hefði ekki græna glóru hvenær ég ætti að koma inn, kunni hvorki dansspor eða staðsetningar hvað þá stikkorðin. Þá kemur til mín minn gamli vinur Gunnar Eyjólfs og segir: Þetta verður allt í lagi Ía mín, þú bara improviserar, engar áhyggjur haltu þig bara í námunda við mig svo ferð þú bara útí væng og færð þetta hjá hvíslaranum.
Ég róaðist aðeins en hélt samt dauðahaldi í handritið og fletti og fletti til að reyna alla vega að læra stikkorðin. Síðan kom næsta áfall: Hvað skildi leikstjórinn segja (Sveinn Einars) hann hafði aldrei séð mig á einni einustu æfingu og ég fengi örugglega reisupassann, engin spurning. Hélt samt í litla hálmstráið, að hann hefði aldrei saknað mín á æfingum svo þetta gæti reddast.
Vaknaði áður en sýning hófst, sem betur fer annars væri ég ekki hér til að segja þessa sögu.
Er enn í rusli. Ætla í langan göngutúr til að koma mér inn í raunveruleikann.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Menning og listir, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:40 | Facebook
Athugasemdir
Ja hérna Ía mín hefur þú einhverntíman verið leikkona?
Ég vona að þú fáir ekki óvæntar fréttir, en ef, þá tekur þú bara á því,
annars er ég engin draumaráðningakona.
Knús til þín Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 29.3.2008 kl. 12:49
Vá, þetta var spennandi draumur... til hamingju.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 29.3.2008 kl. 13:09
Heheheh já Milla mín annars færi ég ekki á svona draumatripp annað slagið. Útskrifaðist úr Þjóleikhúsinu ´72. Var fastráðin í nokkur ár eða þangað til Sveinn tók við af Rosinkranz.
Ía Jóhannsdóttir, 29.3.2008 kl. 13:10
Gaman að heyra, ekkert skrýtið að þú skulir fá svona draumarugl.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 29.3.2008 kl. 14:27
Skemmtilegur draumur Ía gott að hann var ekki 'real'. Ps. Hún er líka einsog einhver fræg leikkona, sem ég kom ekki fyrir mig, en núna veit ég að það ert þú og yndisleg manneskja segja þær sem þekkja þig.
Eva Benjamínsdóttir, 30.3.2008 kl. 00:37
Milla já þetta draumarugl fylgir víst öllum leikurum
Eva takk fyrir innlitið og hlýjar kveðjur
Hallgerður mín, mín er ánægjan að fá þig í litla sæta hópinn minn.
Ía Jóhannsdóttir, 30.3.2008 kl. 01:25
Elsku Ía mín, hvað ég kannast við svona martraðir. En þú ert bara svona berdreyminn, Gunni var að frumsýna í fyrrakvöld, Engispretturnar eftir hina Serbnesku Biljana Srbljanovic, hann er í stóru viðtali í Helgarblaði DV sem kom út í gær. Hann leikur líka í Mannaveiðum sem var frumsýnt á 2dag páska, og er í fjórum þáttum og verður 2.þáttur á morgunn. Svo var hann í kvikmyndinni Heiðinni sem var furmsýnd núna fyrir páskanna. - Hugsaðu þér, hann er kominn á níræðisaldur þessi Snillingur, þó ótrúlegt sé, og er enn, jafn glæsilegur, ef ekki glæsilegri, enn nokkru sinni.
Mér er sagt að þetta sé gott viðtal við hann, svo ég þarf að fara og kaupa blaðið. Ég gæti alveg trúað, að honum hafi bara verið hugsað til þín, og náð svona vel til þín, ég væri ekki hissa á því. Einusinni þegar mér leið mjög illa, bað hann fyrir mér og dætrum mínum, og það snarvirkaði. Hann er magnaður þessi mikli meistari.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 30.3.2008 kl. 01:30
Ég er búin að bíða í allan dag eftir því að þú kæmir hér inn kæra vinkona. Já, Gunni er einn af mínum bestu vinum og hann meir að segja heimtaði það að sonur okkar sem heitir Gunnar væri skírður í höfuðið á sér, tók bara ekki annað í mál þrátt fyrir það að hann væri skírður í höfuðið á tengdapabba. Um það leiti vorum við að leika saman í sjónvarpskvikmyndinni Birtu.
Þessi elska hefur fyglt mér alla tíð í huganum síðan við kynntumst fyrst, hann kenndi mér ekki bara í skólanum heldur gat set mér lífsreglur á sinn einstæða hátt og nú er hann að segja mér eitthvað sem ég verð að vinna úr næstu daga. Magnaður, hann sagði mér fyrir mörgum árum að ég væri eld gömul sál og asskotakornið, hann hafði rétt fyrir sér, ég bara fattaði það ekki fyrr en löngu seinna.
Takk fyrir þetta Lilja mín. Nú fer ég að skilja betur hvað var að angra mig.
Hitti hann og Gullu síðast þegar ég var heima og það var svo gott að knúsa hann og finna allan hans kærleik umvefja mig.
Ía Jóhannsdóttir, 30.3.2008 kl. 01:56
Helga held ég sé ´búin að raða upp í eyðurnar
Hallgerður takk, kíki næst þegar ég verð í vandræðum
Takk fyrir innlitin
Ía Jóhannsdóttir, 30.3.2008 kl. 14:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.