30.3.2008 | 16:33
Helgarpistill með mjúku ívafi
Síðustu sólargeislar dagsins eru að hverfa smám saman hér bak við trjátoppana og brátt litast himininn purpurarauðu í vestri. Enn nær þó sólin að skína á kristalana mína í eldhúsglugganum sem endurkasta öllum litum regnbogans yfir litla borðkrókinn þar sem ég sit og glamra á lyklaborðið.
Með breyttum tíma klukkunnar birtist vorið okkur aftur hér í morgun. Fuglarnir sungu fagnaðarsöng sinn af mikilli snilld. Dirrindí, dirrindí og hurðir voru opnaðar upp á gátt til að hleypa inn sunnangolunni.
Í gær laugardag héldum við, ég og minn elskulegi upp á sex ára búsetuafmæli okkar hér að Stjörnusteini. Við byrjuðum daginn á því að fá okkur langan göngutúr hér um nærliggjandi skógarlendi í fallegu veðri. Erró drattaðist þetta með okkur en hann er nú ekkert of viljugur að fara í langa göngutúra, hundspottið.
Eftir gönguferðina var slakað á fram að kvöldmat en hann var framreiddur af mínum eftirlætis kokki sem aldrei bregst bogalistin. Nautasteik a la Þórir með hvítlauksristuðum baby tómötum og glasseruðum lauk á kartöflubeðið. Ekki má nú gleyma toppnum yfir i-iðsem að sjálfsögðu var heimalöguð Béarnaise. Eðalrauðvín, kertaljós og huggulegheit hjá okkur í borðstofunni við undirleik ljúfra tóna.
Eftir matinn var sest inn í stofu og hlustað á Rat-pack live frá Sand hótelinu í Las Vegas. Þessi kyrrláta kvöldstund endaði síðan með óperuaríum flutta af Diddú og Kristni Sigmundssyni.
Hvað er hægt að hafa það betra.
Í dag heimsóttum við litlu prinsessuna okkar og lékum okkur aðeins að henni þar til hún var farin að kvarta yfir þessum látum í afa og ömmu og vildi fara að lúlla sér.
Stoppað var í garðyrkjustöð á leiðinni heim og keyptar tíu vafningsviðarplöntur sem við skelltum á milli okkar í bílnum svo við varla sáum hvort annað á leiðinni heim, enda er hver planta nær tveir metrar. Það gerði svo sem ekkert til þar sem við vorum svo niðursokkin í að hlusta á gamla slagara sem Ævar Kjartansson útvarpsmaður og vinur okkar skenkti okkur hér síðast þegar þau voru hér hann og Didda.
Þá vitið þið hvað ég ætla að gera á morgun þegar sólin er búin að hrekja næturkulið á braut.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Matur og drykkur, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:34 | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með 6 ára búsetuafmælið.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 30.3.2008 kl. 16:39
Oh þvílíkt dásemdar líf kona. Svo verð ég svöng af lestrinum. Nammi.
Knús að Stjörnusteini.
Jenný Anna Baldursdóttir, 30.3.2008 kl. 17:11
Yndislegt að lesa bloggið þitt og allt það sem þið elskulegu eruð að bardúsa.
Vorið er komið í Vín 20 stiga hiti og allt komið á "full swing". Vorkveðjur með fuglasöng frá okkur
hér í Schwarzenbergerstr.
Sigga Vín (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 18:39
Gunnar takk fyrir kærlega
Jenný já huggó ekki satt og svo á ég þennan listakokk fyrir mann
Sigga mín gaman að heyra frá þér. Þið hafið þá farið þremur gráðum hærra í hitastiginu en við hér.
Helga hugsaðu þér hvað tíminn líður og við alltaf sömu ,,ungu" stelpurnar
Hallgerður já við skírðum öll húsin hér íslenskum nöfnum. Íbúðarhúsið okkar heitir Stjörnusteinn, upprunalega byggt á 13 öld. Nafnið fékk það af því það hafði alla tíð verið í eigu Sternberganna en sú ætt hefur búið í Sternberg kastala síðan 1240 kastalinn stendur hér þrjá kílómetra frá okkur og við keyptum búgarðinn af fjölskyldunni 1999.
Síðan er Listasetrið Leifsbúð, kennt við vin okkar Leif Breiðfjörð, sem við endurbyggðum fyrir tveimur árum en var tækjageymsla alla tíð.
Fákaskjól, sem einu sinni var hesthús en þar dvelja nú blikkfákar míns elskulega.
Síðan er það Vík, en það er yngsta byggingin frá 1900, Miðgarðar eru í uppbyggingu, Dyrhólar er nú bara útveggir en með þrennum dyrum sem minntu mig svolítið á Dyrhóla og síðast en ekki síst Valhöll sem stendur til að endurbyggja í framtíðinni. Hér eru sko nóg verkefni framundan skal ég segja þér.
Ía Jóhannsdóttir, 30.3.2008 kl. 20:58
Yndisleg frásögn. Ía áttu afmæli?
Jóna Á. Gísladóttir, 31.3.2008 kl. 00:17
Takk Jóna mín já við eigum sex ára búsetuafmæli hér að Stjörnusteini.
Ía Jóhannsdóttir, 31.3.2008 kl. 07:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.