15.4.2008 | 20:03
Þegar sorgin knýr dyra
Síminn hringir, það er æskuvinkona mín. Skipst á ómerkilegum spurningum. Svo kemur skellurinn. Þú situr og hlustar. Þú spyrð spurninga, færð svör. Þú talar eðlilega, að þér finnst. Tíminn líður og þú ert meðvituð um allt sem sagt er og þú reagerar eðlilega, tekur þátt, samhryggist en skilur samt ekki neitt.
Þú kveður með því að segja: Ég hef samband við þig fljótlega.
Þú klikkar á rauða takkann. End.
Þú situr lengi. Ég verð að fara að koma mér upp og segja Þóri þessar hörmunga fréttir. Loksins stendur þú upp og þá er eins og fæturnir gefi sig. En þú verður að komast upp stigann. Hann verður líka að heyra þetta. Þú kemst upp í svefnherbergi þar sem hann liggur og les í bók, þú dettur næstum niður á rúmið.
Ég hef sorgarfréttir að segja þér.
Hjartað bankar eins og það vilji út úr líkamanum, maginn er í hnút, þetta er of mikið.
Hringt heim í okkar bestu vini. Fréttin berst frá Prag heim til vina okkar. Hjartað grætur.
Síðan kemur spurningin. Hvers vegna? Þú sem hafði svo mikið misst en varst alltaf þessi sterka flotta kona. Af hverju þennan dag? Allir héldu að þú hefðir eftir þessi sex ár komist yfir sorgina. Enginn hafði hugmynd um hvernig þér leið vinkona. Þú fallegust, gjöfula kona sem gafst allt en þáðir aldrei neitt í staðin.
Hvar vorum við vinirnir? Er þetta líka okkur að kenna og af hverju núna eftir nákvæmlega sex ár. Blessuð sé minning hans. En það voru veikindi, þetta er allt annað, þetta er ekki réttlátt.
Núna kemur reiðin hjá okkur öllum. Þú lést okkur halda að þú værir hamingjusöm. Þú varst búin að finna góðan förunaut sem þú ferðaðist með út um heim. Þú varst sátt eða það héldum við. Þú áttir börnin þín og fjölskyldu sem elskuðu þig meir en þú nokkurn tíma gerðir þér ljóst.
Hvers vegna? Við fáum aldrei svör við þessari spurningu en það er svo erfitt að skilja og það er svo erfitt að sætta sig við.
Ég bið góðan Guð að blessa þig og ef til vill miskunnar hann sig yfir okkur öll og sameinar ykkur hjónin á betri stað. Guð blessi fjölskylduna og ástvini þína á þessari erfiðu stund.
Ég kveiki á kerti þér til handa.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Trúmál og siðferði, Vefurinn, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Æ elsku Ía mín...Guð gefi þér styrk og ljós.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 15.4.2008 kl. 20:17
samúðarkveðja
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 20:23
Við verðum að vera þakklát fyrir það sem við höfum og gera það besta úr því. Finn vanmáttinn og samhryggist þér Ía mín
Eva Benjamínsdóttir, 15.4.2008 kl. 20:30
Þakka ykkur kæru vinkonur.
Birna Dís einkennilegt en samt satt þú berð nafn æskuvinkonu minnar sem bar mér þessar slæmu fréttir. Takk fyrir innlitið.
Ía Jóhannsdóttir, 15.4.2008 kl. 20:41
Megi almættið umvefja þig og þína elsku Ía.
Jenný Anna Baldursdóttir, 15.4.2008 kl. 20:46
Ía mín ég samhryggist ykkur hjónum innilega, ég hef misst vinkonu og veit hvað það er. Ég bið góðan guð að blessa minningu hennar og fjölskyldu.
Kærleikskveðjur til ykkar hjóna.
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 15.4.2008 kl. 20:52
Takk Jenný mín og Milla.
Hún er ekki farin en er samt farin. Þetta er bara spurning um tíma.
Ía Jóhannsdóttir, 15.4.2008 kl. 22:00
Elsku Ía mín, megi algóður Guð og allir góðir vættir, vernda þig og þína, á þessari sorgarstundu.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 15.4.2008 kl. 22:25
Votta samúð mína Ía!
Þetta minnir mig á minningagreininna um yngstu systur mína Steinunn Arnórsdóttir í mbl...nákvæmlega sama sagan í næstum smáatriðum.
Ég átti ekki von á þessu og enginn í allri fjölskyldunni. Get bara ekkert sagt meira nema að ég skil sorgina..og samhryggist ykkur af öllu því litla sem ég á heilagt í mér..
Óskar Arnórsson, 15.4.2008 kl. 22:55
Marta B Helgadóttir, 15.4.2008 kl. 23:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.