9.5.2008 | 18:34
Gleðigjafarnir mínir, ömmubörnin.
Dagur að kvöldi kominn og næturhúmið að síga hægt yfir sveitina okkar. Svölurnar hnita hér í hringi eins og þeirra er siður þegar sólin sest. Ég held að ekkert sé eins tignalegt og svölur á flugi. Þær svífa hér yfir í u.þ.b. 15 mínútur áður en þær hverfa undir þakskeggin. Síðan koma þær í ljós með fyrstu sólargeislunum í morgunsárið og fara sinn vanalega rúnt hér yfir húsin.
Einkennilegt háttalag hjá þessum fallegu fuglum. Eins fallegur fugl og svalan er þá held ég að enginn fugl búi til jafn ósjáleg hreiður. Í fjarlægð virka þau eins og kúpur sem búnar eru til úr allskonar úrgangi. Þetta festa þær einhvern veginn upp í þaksperrum og rjáfrum húsanna. Dálítill sóðaskapur af þessu sem við fjarlægjum alltaf þegar ungarnir eru flognir úr hreiðrunum en þær koma alltaf aftur á vorin og setjast hér að yfir sumartímann.
Sólargeislinn okkar hún Elma Lind kom í heimsókn í dag til ömmu og afa við borðuðum saman hér litla Prag-fjölskyldan í sólinni seinni partinn. Afi grillaði kjúlla með kus kus blandað grænmeti og mango. Barnið fékk auðvitað ekkert af þessu góðgæti þar sem hún er rétt nýfarin að fá smá grautarslettu. Ohhh, get ekki beðið eftir því að mega stinga upp í hana einum og einum bita.
Afbrýðisama hundspottið minn þurfti auðvitað að láta aðeins í sér heyra svo barninu varð hverft við og áttum við í mesta basli við að hugga prinsessuna sem sætti sig alls ekki við þetta óargadýr. En þetta vonandi venst með tímanum.
Eftir að þau voru farin heyrði ég aðeins í litla prinsinum mínum honum Þóri Inga á Íslandi. Hann blaðraði þessi ósköp við ömmu sína og eftir að amman var búin að marg ítreka að hún væri amma en ekki mamma þá allt í einu kom hátt, skýrt og greinilega: Ammmma. Ohh hvað maður er að verða stór strákur.
Þetta var svona krúttdagur í dag hér í blíðskaparveðri.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:37 | Facebook
Athugasemdir
Það sem litlu barnabörnin geta glatt mann, alveg yndislegt
Ásdís Sigurðardóttir, 9.5.2008 kl. 18:47
Jenný Anna Baldursdóttir, 9.5.2008 kl. 18:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.