22.10.2008 | 20:55
Ég ætla aldrei, aldrei aftur í bláu og gulu búðina!
Ég lét mig hafa það í dag að keyra í samtals þrjá klukkutíma og þrjátíu mínútur til þess eins að koma heim froðufellandi og aðframkomin á sál og líkama. Ég varð sem sagt að fara í þessa mannskemmandi verslun hans Ingmars af því það var eini staðurinn hér í Prag sem ég vissi að ég fengi rauðan lakkrís.
Segi og skrifa rauðan lakkrís af því ég ætla að baka köku fyrir afmælisbarnið hana Elmu Lind á laugardaginn og ég vildi hafa rauðan lakkrís fyrir hár. Svo helvítis IKEA varð það að vera.
Þegar ég loksins fann bílastæði eftir að hafa keyrt í klukkutíma og tíu mínútur skellti ég harkalega á eftir mér hurðinni og skundaði að aðaldyrunum. Datt nú í hug að svindla mér inn bakdyramegin, eða þeim megin sem maður kemur út en get stundum verið svo ógeðslega heiðarleg svo inn fór ég og eftir hringsól komst ég loksins niðrá neðri hæðina og fyrst ég var nú búin að randa þetta þá skellti ég mér í kertadeildina og stakk fjórum hlussu kertum í poka, þið vitið þessa gulu sem maður dregur síðan á eftir sér eftir gólfinu af því böndin eru ekki hönnuð fyrir lágvaxna!
Ég sá einhvern útgang og hugsaði mér að þarna gæti ég stytt mér leið að kassafjandanum. Ég villtist!!!! Var komin aftur á byrjunarreit!!!!! Píluandskotinn í gólfinu sneri öfugt!!!!! Ég sneri við og komst við illan leik að kassanum og valdi auðvitað kolrangan kassa þar sem aðeins ein hræða stóð við og að mér virtist vera komin að því að borga. Nei takk, viti menn þarna var einhver snillingurinn að láta endurreikna vörur sem hann hafði keypt í gær!!!! Ég skimaði að hinum kössunum en þar voru raðir svo ég ákvað að hinkra aðeins. Eftir korter tók ég kertin, henti þeim aftur í gula skjattann og strunsaði að næsta kassa þar sem ég mátti dúsa í allt að korter í viðbót.
Loksins komst ég að matarversluninni þar sem lakkrísinn átti að finnast. Eitthvað hafði gerst þarna síðan ég var þarna síðast en það eru jú ansi margir mánuðir síðan. Búið var að umsnúa öllu og vöruúrval sama og ekkert. Ég fann loks lakkrísinn niður við gólfið og skellti um leið tveimur pokum af kjöttbullar í poka fyrst ég var nú komin þarna á annað borð. Borgaði og út, út, út!!!!!
Ég var komin með suð fyrir eyrun og dúndrandi hausverk en sá rauði var kominn í skottið og ég gat haldið heim. Þetta var búið að taka mig þrjá klukkutíma síðan ég lagði af stað að heiman. NB ég bý hinum megin fyrir utan borgina sem sagt í suður en andskotans bláa og gula búðin er vestur af borginni.
Það bjargaði öllu að ég kom við hjá syni okkar og tengdadóttur og dúllunni henni Elmu Lind. Gat aðeins andað áður en ég hélt heimleiðis.
Sú ferð tók nær tvo klukkutíma vegna þess að það er verið að gera við Autobanann heim til okkar og þarna sat ég í stau í nærri heila klukkustund með snarvitlausa ökuníðinga allt í kringum mig.
Þar sem ég hafði talað við minn elskulega um það leiti sem ég lagði af stað frá Agli var minn farinn að ókyrrast heldur betur og var næstum farinn að kalla út hjálparsveit skáta til að leita að konu sem sat föst einhvers staðar out of no where.
Guði sé lof fyrir göngusímann, hann alla vega virkaði.
Þetta skal verða mín síðasta ferð í þessa hryllingsbúð hans Ingmars, ja nema ef ég verð nauðsynlega að kaupa rauðan lakkrís fyrir barnabarnið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Samgöngur, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:57 | Facebook
Athugasemdir
Við segjum þetta ætíð Ía mín erum svo búnar að gleyma því næst er okkur alveg nauðsynlega vantar eitthvað úr þessum erfiðu búðum, en hefði ekki viljað vera í þínum sporum
Knús Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.10.2008 kl. 21:01
Jónína Dúadóttir, 22.10.2008 kl. 21:24
Hefuru aldrei heyrt um dökkhærðar kökustelpur???
ég er með þvílíkan hjartslátt og þrýstingurinn kominn upp úr öllu, bara við lesturinn.
Vertu framvegis bara heim og láttu senda þér rauðan í pósti
Hulla Dan, 22.10.2008 kl. 21:46
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 22.10.2008 kl. 22:47
Ég forðast þessa búð
Sigrún Jónsdóttir, 22.10.2008 kl. 23:14
Vá meiri ferðin en allt tókst þetta að lokum hvað gerir maður ekki fyrir litlu ömmukrílin sín sko hafðu það ljúft elskuleg
Brynja skordal, 23.10.2008 kl. 00:02
Hugsaðu þér bara að eini staðurinn í heiminum sem selur rauðan lakkrís er núna í Sigurboganum í París...aðeins 270og eitthvað tröppur upp..Þú færir eftir honum eins og ekkert væri Ía mín...
Eva Benjamínsdóttir, 23.10.2008 kl. 00:43
Leiðinlegt að fara í Íkea, það þarf altaf að labba allan hringinn þó að maður þurfi jafnvel bara rétt hjá kössunum og út, fer þangað afar sjaldan
Kristín Gunnarsdóttir, 23.10.2008 kl. 07:34
Ég fer frekar sjaldan í IKEA en kemur tó fyrir, tad er ef mig vantar margt og mikid og eidi kannski mörgum tímum tarna inni.Sest sídan á kaffiteríuna med kaffi og eithvad sætt.svo er ekid heim.Mér finnst tad ekki neitt leidinlegt.
Ein vinkona mín sagdi mér um daginn ad hún tirfti alltaf ad vera sérlega vel undirbúin ef hún ætladi ad hitta eina ákvedja manneskju sem henni ber skilda til ad hitta stöku sinnum .Fara helst í jóga og algjöra slökun ádur....Kannski er tad lag ef madur tarf í Ikea.
Eigdu gódann dag Ía mín og slepptu tví bara ad fara í Íkea
Gudrún Hauksdótttir, 23.10.2008 kl. 07:47
Já stelpur það er hægt að skemmta sér yfir þessu í dag en í gær var mér sko ekki hlátur í huga. Það sem ég var pirruð! Kærar þakkir fyrir innlitin.
Ía Jóhannsdóttir, 23.10.2008 kl. 08:45
Hressileg lesning og bjargar deginum alla vega fram að hádegi! En mórallinn er auðvita feikna góð amma.
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 09:55
Eins og núna er ég ad reyna telja í mig kraft til ad labba í bæinn ad útrétta adeins...Bara svo löt.....Tó er ég búin ad borda AB mjólkina mína,taka torskalýsi,gingsen og borda rúgbraud med osti og te.
Ætti tetta ekki ad gefa orku?Mér er bara spurn?
Ég hefdi kannski bara átt ad drekka kók,vínarbraud og í desert rjómabollu..
Gudrún Hauksdótttir, 23.10.2008 kl. 10:07
Ég elska IKEA! híhí... :o)
Ragga (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 00:55
IKEA er eitt orð hræðilegt,knús á þig inní daginn.
Líney, 24.10.2008 kl. 12:49
Takk fyrir að líta inn Líney og sendi þér hlýjar kveðjur. Þið hinar takk líka allar saman dúllurnar mínar.
Ía Jóhannsdóttir, 24.10.2008 kl. 17:15
Skemmtileg lesning og hressandi.
Kristín Katla Árnadóttir, 27.10.2008 kl. 15:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.