20.2.2009 | 19:35
Litla hryllingsstofan
Á meðan ég bíð eftir því að Soffía min komi hingað til mín, en hún er væntanleg frá Köben núna klukkan hálf niu, þá ætla ég að nota tímann til að setja hér inn nokkrar línur.
Get varla beðið eftir að fá að knúsa stelpuna mína sem ætlar að vera hér hjá okkur í nokkra daga mömmu sinni til skemmtunar.
Ég hef sagt það hér áður að ég hefði verið alveg hræðilega á móti allri læknaþjónustu hér alveg frá því að ég varð nauðbeygð að fara til tannlæknis árið 1991. Síðan við fluttum hingað höfum við sem betur fer verið fílhraust og lítið sem ekkert orðið að nota þessa þjónustu. En svo þið skiljið aðeins betur hvað ég er að fara þá ætla ég að skella hér inn tannlæknasögunni frá sumrinu 1991.
Ég vaknaði um morgun og fann að ég var komin með bullandi tannrótarbólgu. Ég var búin að hafa vandamál með tennurnar mínar í nokkur ár og tannrótarbólga ásamt tannlosi var ansi leiðinlegur kvilli.
Jæja hugsaði ég nú verð ég víst að biðja einhvern að leita fyrir mig að tannlækni því ekki get ég verið svona lengi. Ég kom mér niður á skrifstofu og spurði bókarann okkar hvort hann vissi um einhvern góðan tannlækni sem gæti tekið mig inn í einum grænum. Árið 1991 var ekki búið að opna nein einkaklinik og þeir útlendingar sem hér bjuggu leituðu yfirleitt á heimaslóðir eftir aðstoð ja nema í neyð og þetta var algjört neyðarúrræði hjá mér.
Eftir nokkur símtöl sem hvert um sig tóku um hálftíma, Tékkar verða alltaf að ræða málin rosalega mikið og allir vita best, fann Mr. Pikous loksins tannlækni sem gat tekið mig strax.
Þegar ég kom á stofuna fékk ég fyrsta sjokkið. Hvert sæti í biðstofunni var skipað. Fólkið hálf húkti á stólunum og sumir jafnvel dottuðu. Einn gluggi var í enda herbergisins en það sást ekkert út fyrir stórum lufsulegum pottaplöntum, þið vitið þessar gúmmíplöntur sem ég skil ekki hvernig fólk getur haft nálægt sér. Ég fæ alltaf hroll þegar ég sé svona plöntur á læknastofum. Sem betur fer er þetta alveg að verða liðin tíð.
Mr. Pikous (bókarinn okkar) gekk beint að dyrunum og bankaði. Eftir dálitla stund var opnað og viti menn okkur hleypt inn á undan öllum hinum. Þarna var örugglega búið að múta fyrir fram þó ég gerði mér nú ekki grein fyrir því á þeirri stundu.
Þá kom annað sjokkið. Við mér blasti tannlæknastóll á miðju gólfi örugglega frá 18. öld. Brúnt leðrið var næstum flagnað af, stálskemill fyrir fæturna og höfuðpúðar þið vitið eins og eyrnaskjól. Þarna átti ég að leggjast og vegna þess að ég er svo asskoti samvinnuþýð eða ég var hreinlega ekki alveg með sjálfri mér settist ég í þennan antik stól og opnaði munninn. Ég man að mér fannst ég vera í pintingarstól þar sem eyrnaskjólin þrýstu svo fast að höfðinu að mig sundlaði.
Um leið og tannlæknirinn sem var sjálfsagt svona milli fimmtugs og sextugs beigði sig yfir mig var ég næstum köfnuð úr svitafýlu og brennivínslykt. Ég opnaði samt munninn, alltaf jafn samvinnuþýð og hann skoðaði eitthvað upp í mig. Hann rétti síðan úr sér og sagði eitthvað á tékknesku við Mr. Pikous sem stóð þarna til hliðar eins og öryggisvörður. Mr. Pikous túlkaði síðan. Það yrði að rífa allar tennurnar úr mér, hverja og einu einustu. Ekki seinna en núna!!!
Það var eins og ég vaknaði úr dvala ég hentist upp úr pintingartækinu og skipaði fyllibyttunni að skrifa upp á penesillin og nóg af því og með það rauk ég á dyr án þess svo mikið sem borga krónu enda hann örugglega búin að fá allt of mikið fyrir sinn snúð.
Eftir þessa lífsreynslu hjá tannlækni fór ég reglulega heim þar til ég fann Dr. Kuvik en það var nokkuð mörgum árum seinna sem mér var bent á hann af Austurrískum vini okkar hjóna. Það er honum að þakka að ég get enn brosað án þess að vera hrædd um að missa allt út úr mér.
Þá er þessari sögustund lokið að sinni. Eigið gott kvöld kæru vinir.
Soffa mín er alveg að lenda og þá verður hún komin í fangið á mér eftir klukkustund eða svo.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Vefurinn, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessa sögustund
Nýt þess að líta hér við, nú ekstra. þar sem ég ligg hér í fleti mínu og reyni að haga mér sem best í von um skjótan bata, þrátt fyrir eirðarleysi
Góða helgi
Guðrún Þorleifs, 20.2.2009 kl. 19:43
...
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 19:46
Úff, ég fékk hroll við þessa sögu, hata að fara til tannlæknis og þessi var nú eins og úr Litlu Hryllingsbúðinni Njóttu þessa að vera með Soffíu þinni og góða helgi mín kæra
Auður Proppé, 20.2.2009 kl. 20:59
Jónína Dúadóttir, 20.2.2009 kl. 23:08
Góð hryllingssaga Eigðu ljúfa daga með dóttur þinni
Sigrún Jónsdóttir, 20.2.2009 kl. 23:46
ARG, vá hvað þú varst nærri því að vera orðin bitlaus. Ég er í kasti.
Jenný Anna Baldursdóttir, 20.2.2009 kl. 23:46
Ekki góð saga þetta var að hugsa ef þú hefðir verið of mikið samvinnuþýð þá hefði maðurinn dregið úr þér allar tennurnar áður en þú vissir afen sem betur fer hefur þú bein í nefinu.
Eigðu yndislega daga með Soffu þinni elsku Ía mín.
sendi ykkur öllum ljós og kærleik
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.2.2009 kl. 17:51
Elsku Ía mín.
Þú ert fæddur sigurvegari og átt góða að. Hugsa til þín og sendi þér allan minn kraft. Nú finnur þú hita yfir gagnaugunum og á kinnbeinunum. Það er ég - að leggja lófana um vanga þér.
Halla.
Halla Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 23:21
Huld S. Ringsted, 22.2.2009 kl. 19:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.