23.2.2009 | 21:08
Búið að taka af mér ráðin og fata mig upp fyrir miðvikudaginn.
Ég er ein af þessum pjöttuðu konum sem sef ekki nema í silki og helst með svona smá blúnduverk hingað og þangað. Náttföt eru ekki í myndinni já nema þá stuttar buxur og ermalausir toppar það gengur. Mér finnst bómullarnáttföt þvílíkt ósexý svo ég hef nú ekki átt slíkan fatnað síðan ég var krakki og hafði ekki ætlað mér að fjárfesta hvað þá að klæðast slíku dóti.
En í dag voru tekin af mér ráðin.
Það er nú búinn að vera smá undirbúningur fyrir þessa bæjarferð í dag, ja alveg síðan dóttir okkar kom til að stjórna heimilinu.
Hún tilkynnti mér fljótlega eftir að hún kom að ég gæti ekki verið í mínum silki náttfötum á spítalanum það væri algjört must að kaupa ekta bómullarnáttföt og við færum í þann leiðangur á mánudaginn, sem sagt í dag.
Ég fékk svona vægt áfall bara við tilhugsunina að fara að klæðast einhverjum rósóttum náttfötum frá M & S eða álíka magasíni. Reyndi alveg eins og ég gat að mótmæla og reyna að koma henni í skilning um að mér myndi ekki festast blundur á brá í einhverju sem héti bómull. Hvort hún vildi verða þess valdandi að móðir hennar yrði dópuð öll kvöld með svefnlyfjum þarna á spítalanum. Svo yrði mér svo heitt í svoleiðis múnderingu og gæti fengið útbrot og því fylgdi kláði.
Alveg sama hvað ég reyndi að streitast á móti bómull skildi það vera. Svo miklu þægilegra ég ætti eftir að þakka henni eftir á og blablablabla.... Ég gafst auðvitað upp og í dag var FARIÐ MEÐ MIG til að kaupa náttföt eftir að hún hafði samþykkt að ég fengi að velja verslunina. Ég færi ekki inn í eitthvað magasín hér, ekki að ræða það! Svo það var keyrt niður á Prarizka og þar voru keypt tvenn BÓMULLARNÁTTFÖT!!! en elskurnar mínar ég fann sko náttföt sem voru með fyrirkomulagi eins og það heitir á Jennísku. Pínu silki hér og smá dúllerí þar, bara ansi ,,lekker" fyrir bómullardress. Þannig að ég tapaði ekki alveg baráttunni við mitt sjálfstæði.
Á eftir fórum við saman mæðgurnar í hádegismat og síðan var keyrt heim þar sem úthaldið er nú ekki meir en þetta.
Já gleymdi að segja ykkur að það átti líka að rífa af mér inniskóna.
- Sko mamma þú ferð ekki með þessa skó.
- Nú hvers vegna ekki?
- Vegna þess að þeir eru með hæl.
- Hæl? Þetta kallar maður nú ekki hæla elskan, bara svona smá lyftingur
-Alveg sama þú kaupir flatbotna.
Þá fékk ég allt í einu stuðning frá mínum elskulega. -Já en mamma þín hefur aldrei getað gengið á flatbotnuðu.
Ég hefði getað knúsað hann í tætlur enda var ekki oftar minnst á skókaup svo ég fer með mína góðu inniskó.
Nú er kominn svefntími á þá gömlu og býð ég ykkur öllum góðrar nætur og Guð geymi ykkur öll.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Vefurinn, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:09 | Facebook
Athugasemdir
Yndisleg lesning...Góða nótt
Sigrún Jónsdóttir, 23.2.2009 kl. 22:37
Í alvöru ? fatasnobb? því hefði ég ekki trúað á þig
Hugsa fallega til þín elskan mín, gott að hafa svona dætur að stjórna aðeins í manni
Ragnheiður , 23.2.2009 kl. 23:03
Ji hvað ég skil þig, maður fer ekki á spítala í náttfötum án fyrirkomulags.
Velkomin í hópinn systir.
En mikið rosalega geta börnin manns verið öflug þegar þau taka sig til.
Maður er bara eins og ómálga barn í höndunum á þeim.
Frusssssssssss
Knús í nóttina.
Jenný Anna Baldursdóttir, 24.2.2009 kl. 00:08
Elsku hjartans Ía gangi þér vel á morgun..ég hugsa til þín. Svo ertu orðin skinsöm ( Reyndar með smá hjálp ) Að sofa í réttum náttfötunum ...
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 07:29
Kæra Ía, gangi þér vel með náttfötin svo og allt sem framundan er á morgunn.
Að sjálfsögðu verður lookið að vera í lagi það er nú bara must. Skiptir þá engu hvort um náttfatnað eða annan fatnað er að ræða
Dætur geta verið ótrúlega skynsamar Humm.... og líka smá ...
Kærar kveðjur
Guðrún Þorleifs, 24.2.2009 kl. 08:59
Tek sko undir þetta með náttfötin hjá dóttir þinni, hefði nú ekki verið beint skemmtilegt er þú hendir ofan af þér sænginni vegna hita þá blasa bara við berir fótleggir og axlir; nei nei ekki passandi fyrir svona sæta dömu eins og þig elskan.
En inniskórnir verða að vera með smá hæl, ekkert múður með það.
Ég ætla ekki að lýsa fyrir þér hörmungunum sem ég verð að ganga í eftir að bakið fór svona alveg hjá mér, ræfilstuskurnar í skóbúðunum fá hroll er ég birtist því ég þarf alltaf að máta allt og kaupi svo ekki neitt, allt er svo ljótt.
Kem svo daginn eftir því auðvitað verð ég að fá skó.
Og svo fyrir utan alla skóna sem eru inni í skáp sem ekki ég nota.
Svo stattu nú á þínu elskan.
Ljós og kærleik til ykkar
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 24.2.2009 kl. 11:27
Ég man eftir að þegar við hinar gengum í blárósóttum krepnærbuxum eða einhverju þaðan af verra þá var ein sem aldrei fór í annað en silki. Og hefur haldið sínum stíl.
Knús vinkona
Halla.
Halla Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 12:40
Takk fyrir öll þessi skemmtilegu komment kæru bloggvinkonur.
Halla mín man vel eftir krepnærunum ykkar hehehhe Við vorum samt allar flottastar í ,,húsinu" í þá daga. Léttgeggjaðar en mikið rosalega var gaman þessi ár. Knús á ykkur Vidda kæra vinkona.
Ía Jóhannsdóttir, 24.2.2009 kl. 17:48
Hún Soffía er með eindæmum skynsöm stúlka... gott að þið eigið góðar stundir saman mæðgur!
Bið að heilsa ykkur öllum...bata og baráttu kveðjur frá liðinu í Hvassaleiti 60
Herdís Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 22:36
Ha, ha, ha... þú ættir að sjá náttfötin mín - með blúndunum sem ég keypti með dóttur minni í Ameríku, fólk heldur að þetta sé samkvæmisklæðnaður! OG svo líður mér illa í flatbotna skóm! ..
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 25.2.2009 kl. 13:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.