9.8.2009 | 19:58
Endalausar biðraðir hvar sem maður kemur.
Þessi færsla er sett saman hér í eldhúskróknum mínum að Stjörnusteini. Við erum sem sagt komin heim eftir fjögra vikna ferð til heimalandsins.
Í gær eftir að hafa snætt hádegismat með Ástu vinkonu á Jómfrúnni náði ég að sjá hvernig hinsegin dagur fer fram á Íslandi. Athyglivert! Flott skrautsýning!
Á leið minni heim til móður minnar gekk ég upp Laugaveginn og rakst á Jóhönnu bloggvinkonu mína í mátunarklefa hjá Sævari Karli. Það var óvænt ánægja. Einnig tókst mér að smella kossi á Berg Thorberg bloggvin þar sem hann sat og málaði með kaffinu sínu í einni skartgripabúðinni en hann hafði ég heldur aldrei hitt áður.
Það tók mig ansi langan tíma að komast upp allan Laugaveginn þar sem ég næstum stoppaði við hvert horn til að heilsa vinum og vandamönnum enda dagurinn til þess að sporta sig aðeins.
Íslenskur humar er hnossæti og okkur litlu fjölskyldunni tókst að torga fleiri kílóum af humri í gærkvöldi en það var svona smá kveðjusamsæti heima hjá Soffu okkar og Steina fyrir okkur og svo komu mamma og tengdapabbi auðvitað líka.
Við vorum komin snemma upp í íbúð enda mæting klukkan sex í morgun í flug til Köben. Ég veit ekki hvað ég er alltaf að taka þessi morgunflug trekk í trekk. Bara til þess að gera mann hálf geðillan! Lærir aldrei af reynslunni, get svo svarið fyrir það!
Maður ætlar sér að ná einhverjum svefni en tekst það aldrei nokkurn tíma. Er eins og milli svefns og vöku alla nóttina af því maður treystir ekki á að vekjaraklukkan standi sig, sko hún gæti klikkað einmitt þá.
Í morgun fór ég undir sturtuna hálf sofandi og auðvitað var hún annað hvort of heit eða of köld. Þar sem ég stóð þarna með lokuð augun og reyndi að stilla hitastigið var það auðvitað ekki hægt, hver geturðu stillt hitastig með lokuð augun, þið vitið, sturtan var með svona 30° - 60°dæmi. Ég ákvað að láta þennan kattarþvott nægja og hálf skaðbrunnin krönglaðist ég upp úr baðkarinu og auðvitað varð mér fótaskortur og rann til í bleytunni en slasaði mig ekki vitund en þetta var til þess að ég glaðvaknaði og byrjaði daginn á því að bölva og ragna. Ekki beint skemmtilegt.
Út í bíl, töskunum skellt afturí og beðið fallega um að ekkert hafi nú gleymst í íbúðinni. Passinn, útskriftin á farmiðanum, gleraugun og snyrtibuddan sé nú örugglega í handfarangrinum. Við hefðum verið í djúpum skít ef við hefðum gleymt einhverju af þessu í íbúðinni því lykillinn var kominn í póstkassann og eigendur einhvers staðar að ríða hrossum upp í óbyggðum, en allt var á sínum stað, hjúkket!
Bruna í Garðabæinn til að ná í Steina tengdason og síðan var lullað til Keflavíkur, ég segi lulla þegar keyrt er á 90 km pr. klst. Verst að geta ekki sofið en ég kann ekki að sofa í bíl, þarf alltaf að vera á vaktinni, sko það gæti eitthvað gerst sem ég hefði betur vit á en bílstjórinn.
Komum til Keflavíkur tveimur tímum fyrir brottför. Eins gott, það var varla að maður kæmist inn í afgreiðslusalinn svo mikil var örtröðin. Vitið þið hvernig manni líður eftir að hafa staðið í endalausum biðröðum í heilan mánuð upp á hvern einasta dag? Nei ekki það, ég skal sko segja ykkur að maður fær velgju fyrir brjóstið og svona snert af innilokunarkennd. Síðan fyllast vitin af alls konar líkamslykt sem gerir það að verkum að það er örstutt í það að maður lognist útaf á staðnum.
Þannig leið mér í morgun og við máttum bíða í klukkutíma innan um túhestana áður en við fengum bording passann. Svo þegar þú flýgur í Monkey þá er ekkert sem bjargar þér úr þessari prísund. Næst spandera ég á okkur deLux.
Síðan tekur önnur biðröð við þegar þú ferð í gegn um eftirlitið og ég átti líka eftir að fara í Tax free en hefði sleppt því ef ekki hefði verið um töluverða upphæð að ræða. Búin að vera óhemju dugleg að styðja við bakið á landanum sl. mánuð. Bara verslað eins og ....... þar beið ég í tuttugu mínútur!
Þá voru tíu mínútur í brottför og ég ekki enn búin að fá kaffið mitt. Engin bók keypt og ekkert af ´öllu því sem ég kaupi reglulega þegar ég fer þarna í gegn, allt þessum bölvuðu biðröðum að kenna. Ég dæsti framan í minn elskulega og sagði: ,, Veistu ég þoli ekki fleiri biðraðir, ef ég sé eina í viðbót þá klikkast ég" Auðvitað var svo önnur við hliðið og síðan bara endalausar raðir í allan dag!
Ég er svo fegin að vera komin heim og ég fer ekki einu sinni út í búð á morgun því þar get ég lent í því að verða að standa í biðröð við kassann og það hef ég alls ekki ætlað mér að gera.
Engar biðraðir í bráð. Please!!!!!!!!!!!!!!!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:01 | Facebook
Athugasemdir
Vertu velkomin heim, - yfir hafið og heim, mín kæra bloggvinkona.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 9.8.2009 kl. 20:12
Takk Lilja mín. Leitt að við gátum ekk hittstststttsssttt heima núna. Reynum næst
Ía Jóhannsdóttir, 9.8.2009 kl. 20:23
Velkomin heim elskuleg og ég skil þig svo vel biðraðir eru bara óþolandi, nema maður geti drukkið kaffi og haft það huggó það verður þegar litlu rafmagnsstólarnir koma svona eins og er í mollunum í Ameríkunni
Yndislegt að þú skildir hitta svona marga og það á þessum degi.
Knús knús
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 9.8.2009 kl. 21:17
Heima er best:)
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 22:16
Vildi að ég hefði asnast til að taka áhættuna og heilsa "vitlausri" konu á Laugaveginum
Gott að þú ert komin heim og að allt gekk vel....þrátt fyrir biðraðirnar
Sigrún Jónsdóttir, 9.8.2009 kl. 22:37
ha og ég sem hélt að umferð um Leifsstöð hefði minnkað, ekki aukist :P Væntanlega fækkað starfsfólki líka. Gott að þið eruð komin heim, bið að heilsa :D
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 9.8.2009 kl. 23:50
Heima er alltaf best
Jónína Dúadóttir, 10.8.2009 kl. 05:54
Ía mín kæra - þakka þér innilega fyrir (að kalla) síðast - hvað ég var glöð að hitta þig á Laugaveginum. Hressa káta falleg kona, sem ég er stolt af að þekkja. Biðraðir-bööööö hvað ég skil þig þær reyna svo sannarlega á þolið. Ég fer oft að mala (í þögn) við sjálfa mig í slíkum röðum til að halda ró og reyna að njóta einhvers annars en óþols á meðan á biðinni stendur. Tilvera okkar er undarlegt ferðalag..........o.sv.frv.......EEeeen velkomin heim í "krókinn" þinn. Þakka þér fyrir að vera þú...........kær kveðja frá gamalli (sextug á morgun) vinu.
Anna Sig (IP-tala skráð) 10.8.2009 kl. 07:19
Takk esskurnar. Já það er gott að vera komin heim.
Sigrún bara næst!
Anna já þetta var óvænt. Til hamingu með daginn þinn!
Neip Hildigunnur það var algjör steipa og fulla vélar.
Milla takk fyrir hlýjar kveðjur.
Ía Jóhannsdóttir, 10.8.2009 kl. 08:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.