Færsluflokkur: Ferðalög

Rússland á lista yfir þau lönd sem okkur langar að heimsækja.

Við áttum líka að vera á leiðinni til Moskvu núna.  Nei ekki til að syngja bakraddir með Íslenska Euro liðinu okkar heldur ætluðum við að ferðast þarna um í tvær vikur með góðum vinum að heiman.

Svo kom kreppan og vinir okkar hættu við.

Svo kom meinið og við hættum við.

Hvað síðan verður kemur í ljós með tíð og tíma.

Ég segi nú eins og krakkarnir:  Ég ætla samt að heimsækja þetta stóra land einn daginn!

 

  


mbl.is Íslandi spáð góðu gengi í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já svo er nú það, ansans vesen.

Jæja þá er búið að skemmaleggja það fyrir mér ja alla vega þetta árið.  Mig sem langaði svoooooo mikið til Mexíkó og var farin að plana ferð í huganum.  Ætlaði að droppa við hjá vinum mínum í LA og Las Vegas en nú er maður bara stökk hér í Mið-Evrópu.  Þvílíkur bömmer! 

Svo er þjóðin búin að kjósa yfir sig það sem hún taldi vera réttast og ég fékk ekki tækifæri á að fagna því í gær eins og ég hafði planað þar sem ég átti ógeðslega vondan dag einn af þessum lousy dögum númer þrjú bara einn verri en síðast. Ég bjóst nú alveg við smá timburmönnum eftir síðasta kocktailpartýið en ekki svona hrikalegum.  Dísussssss, það var eins og það væri verið að brenna í mér innyflin öðru hvoru allan gærdaginn. Verð bara að segja það, mikið helvíti var þetta vont. 

Er fín í dag eða þannig, er auðvitað helaum eftir átökin en samt ekkert sem þarf að gera veður út af. Var að koma úr nuddpottinum og ætla á eftir út í göngutúr og láta sunnanvindinn lemja aðeins á mér já ér eru hvassir sunnanvindar í dag.

Elma Lind á páskum 2009

Hér sjáið þið kátu krakkana mína sem erfa eiga landið. 

Líkist ekkert smá mömmu sinni   

Tek undir orð skáldsins: 

 Oft finst mér eins og blessuð börnin hafi margföld not af tilverunni borið saman við okkur þá fullorðnu. 


mbl.is Ótti við svínaflensu vex
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hotel Reiterhof í Wirsberg alltaf jafn kósí

Ég hef sagt ykkur það áður en minn elskulegi er stundum langt á undan sjálfum sér þannig að venjulegt fólk á stundum erfitt með að fylgja honum og föstudagurinn var einn af þessum dögum sem maður bara andar djúpt og bíður bara þar til hann róast niður.  

Þegar ég vaknaði var hann rétt nýbúinn að bera á eldhúsgólfið efni sem lokar steininum og lyktar eins og blanda af terpentínu og lími. Ég gat sem betur fer smokrað mér inn fyrir skörina og teygt mig í kaffið, annars hefði hann nú fengið smá Gú moren á Tékknesku ef ég hefði ekki fengið morgunsopann minn fyrr en eftir dúk og disk.

Ég heyrði í traktornum og vissi að þar fór minn hamförum í slætti sem stóð langt fram yfir ádegi eða þar til fór að rigna um fjögur leitið.  Hann var ekki fyrr kominn inn en hann segir:  Hvernig hefur þú það núna elskan?

- Ég , jú bara fínt.

-Já er það.  Ég var að pæla í því hvort þú vildir skella þér til Þýskalands.

-Núna? Ég horfi á hann þar sem hann situr við tölvuna og greinilega búinn að finna hótel á netinu og kominn hálfa leið í huganum.

- Já hvernig væri það segir hann, eigum við að skella okkur til Nürnberg?

- Æ ég nenni ekki inn í stórborg segi ég, væri miklu meira til í að fara bara til Wirsberg.

Wirsberg er lítill bær ekki langt frá Bayreuth og þar er eitt af mínum uppáhalds hótelum. Það tekur svona þrjá tíma að keyra þangað heiman frá okkur. Ég var varla búin að sleppa orðinu þá var minn búinn að hringja og panta herbergi, ríkur upp af stólnum og segir:  ókey drífum okkur þá.

Eftir hálftíma vorum við búin að pakka niður fyrir okkur og hundinn,  því auðvitað varð að keyra hann í pössun í leiðinni og klukkan hálf sex renndum við hér úr hlaði.

Ég get alveg sagt ykkur að þetta var ekki alveg það gáfulegasta sem okkur gat dottið í hug.  Í fyrsta lagi var föstudagur og brjáluð traffik í öðru lagi var ausandi rigning og hrikalegt skygni.

Það tók okkur tvo klukkutíma að ná út úr borginni, segi og skrifa tvo tíma!

Það sem hefði tekið þrjá tíma tók okkur fjóra og hálfan. 

En skítt með það þessi keyrsla var þess virði.  Eins og alltaf var tekið vel á móti okkur við nutum þess í botn að láta stjana við okkur yfir helgina. Þar sem Reiterhof er Spa hotel þá var dagurinn í gær svona heilsu dagur með gufu, sundi, nuddi og fl. sem var ekki slæmt fyrir minn eðalskrokk.  

Þá vitið þið það, þið sem eruð búin að reyna að ná í okkur yfir helgina.  Við vorum ekki heima.

Erum sem sagt komin aftur heim og minn kominn á traktorinn og ég er að hugsa um að setjast í sólina með góða bók og halda áfram að hafa það huggulegt. 


Lítil fátæk þjóð sem allir vilja heimsækja.

Síðan gáfu þeir honum að éta af því þeir sögðu að Íslendingar þyrftu alltaf að lifa á bónbjörgum frá útlendum þjóðum annars dræpust þeir skrifaði skáldið. 

Um daginn var ég spurð hvort ég ætlaði ekki að fara aftur með hóp héðan til Íslands. Við þyrftum örugglega á öllu að halda núna þar sem landið væri farið á hausinn.  Þetta kom svona eins og köld gusa framan í mig.   Ja það er nú ekki farið á hausinn sagði ég og innra með mér sauð reiðin.

- já en er ekki rosalega gott fyrir ykkur að fá útlendinga núna með gjaldeyri og lappa aðeins upp á aumingjaskapinn.  (tek fram þetta var ekki svona orðrétt en næstum því)

´-jú sjálfsagt er það það svaraði ég en ég hef nú ekkert pælt í því að vera með skipulagðar verslunarferðir heim.  En ef þú hefur áhuga á landinu sem slíku og ferðast um þá gæti ég hugsanlega aðstoðað þig með ferðaplan en ekki það að ég sé að fara með hópa heim núna á næstunni. 

Ef til vill snýst mér hugur.  Ef til vill ætti ég að fara að skipuleggja ferðir heim. Ef til vill getur það hjálpað upp á efnahagslífið.  Alla vega sýnist mér vera mikill áhugi hjá þessum útlendingum sem búa hér í Tékklandi. Hvort það er til þess að kynnast okkar fallega landi eða til að geta sagt að það hafi séð þessa guðsvoluðu þjóð veit ég ekki.

Vitna hér í skáldið okkar aftur:

Við Íslendingar erum lítil og fátæk þjóð, og allir útlendingar halda að við séum skrælíngjar og þess vegna hef ég alltaf sagt: Ef við getum einhverja ögn af einhverju tagi, alveg sama hvað lítið það er, þá eigum við að gera það í augsýn als heimsins.


mbl.is Ísland eitt það heitasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Þar rauður loginn brann" hér að Stjörnusteini. Trúi mér hver sem vill.

Stjörnubjartur himinn hvelfist hér yfir sveitina og tungl veður í skýjum í frostkaldri vetrarnóttinni.  Það er Þrettándinn.

Ég heyri ógreinilega hófaskellina á íshjarninu hér á akrinum. Hljóðið færist nær og nær.  Nú sé ég loga frá blysunum sem bærast vart því enginn er vindurinn. Þau koma út úr kolsvartri nóttinni hvert af öðru ríðandi hvítum fákum.  Það heyrist klingja í reiðtygjum. Tær bjölluhljómur.

Nú sé ég þau greinilega.  Fyrstur fer Álfakóngurinn hvítklæddur í silki og purpura.  Þá næst Álfadrottningin, glæsilegust allra, klædd bláu silki með glitrandi bryddingum og skinni.  Þau ríða hægt yfir, hér er engin að flýta sér.  Á eftir kemur fjöldinn allur af fylgdarliði og þvílík ró sem fylgir þessu fólki.  Enginn mælir orð af vörum. Allir eru fyrir utan tíma og rúm.

Nú stoppar kóngur og réttir upp hendi. Allir hinir hægja á hestunum.  Úr annarri átt kemur önnur ekki síðri glæsileg hersing.  Þegar um það bil einn meter er á milli þessara tveggja höfðingja  þá reisa þeir sig upp í hnökkunum og heilsa hvor öðrum kurteislega. 

Enginn mælir orð frá munni.  Þeir sem komu frá austri halda til vesturs en þeir sem komu frá vestri halda beint hingað að Stjörnusteini.  Þar sem ég stend og fylgist með þessu reyni ég að píra augun og sjá hvert þeir fara en allt í einu skellur á þoka fyrir augum mínum og ég get ekki lengur fylgt þeim eftir.

Það eina sem ég veit með vissu, Huldufólkið hefur tekið búsetu hér hjá okkur og bíð ég þau hjartanlega velkomin. 

Fari þeir sem fara vilja.

Veri þeir sem vera vilja.

Mér og mínum að meinalausu.

 


mbl.is Jólin kvödd með virktum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að heilsa og kveðja.....

Þannig er það hjá okkur öllum á lífsleiðinni.  Þessi litli vinur sagði við ömmu sína í morgun þar sem hann stóð ferðbúinn með litla bangsann sinn undir hendinni:  Amma é koma attur.  Áramót 2008   2009 025 Þessir tveir voru óaðskiljanlegir sl. tvær vikur.  Nú sitjum við hér Erró og amman og tárin trilla og svei mér þá ef hundinum vöknar ekki um augun líka, alla vega horfir hann á mig með sorgarsvip. 

Góða ferð heim litli vinur við sjáumst fyrr en varir.

 


Afi é er a koma till-ín!

Klukkan var að verða hálf sjö í morgun og lítill gutti hringdi í afa sinn til Prag.  Hann var staddur í Leifsstöð með foreldrum sínum á leið til afa og ömmu sín.

Eitthvað hefur hann nú verið lúinn blessaður því eftir þessa setningu var hann farinn úr símanum og þá heyrðist í mömmunni:  Þórir Ingi minn ekki liggja í gólfinu.

Þetta verður langur dagur fyrir lítinn skriðdreka þar sem þau lenda ekki hér fyrr en hálf níu í kvöld. Ég býst nú við því að minn verði nú ekki par hrifinn þegar hann lendir í Köben og enginn afi að taka á móti honum.

En langþráður dagur er runninn upp. 

Nú færist líf og fjör yfir Stjörnustein.

Ætla að fara að hitta jólasveininn og sjá hvort hann á ekki eitthvað í skóinn handa tveggja og hálfs árs ömmustrák.

Njótið nú síðasta sunnudags í aðventu og elskið hvort annað.

 

 


Að gera nákvæmleg ekki neitt en verða örmagna.

Ég skil alveg svona hugarástand í svefni, eða næstum því.  Tounge  Blessuð konan að hafa annað hvort verið tölvunörd með síþreytu eða svo einmanna og langþráð eftir parý að hún skellti smá færslu hálf sofandi.

Ok nenni nú ekki að velta mér yfir þessu lengur en langaði í framhaldi að segja ykkur hvað maður getur orðið hrikalega þreyttur að gera nákvæmlega ekki neitt!

Eftir frekar stuttan nætursvefn sl. nótt vaknaði ég og ákvað að gera ekki neitt til klukkan ellefu en þá yrði ég að keyra sjálfa mig niðrí bæ því ég átti litun og klippingu hjá eðalklippara borgarinnar honum Honsa.  Sko það er eins gott að hafa tímann fyrir sér hér í jólatraffikinni  en ég var komin tímalega og randaði smá í nærliggjandi götu, svona gluggaverslunarleiðangur. 

Mætti stundvíslega.  Varð að bíða í hálftíma áður en ég komst í stólinn.  Allsherjar gjörningar gerðir á hárinu og eftir þrjá og hálfan tíma (án sígó) stóð ég upp eins og ný manneskja um hausinn en með hrikalega sárann afturenda.  Keypti rándýrt shampoo og næringu frá Hollywood og fór út, vil ekki segja ykkur hvað það kostaði því ef ég yfirfæri þetta á ykkar auma gengi þá mynduð þið fá flog! 

Nú átti ég klukkustund þar til ég átti að mæta í næsta dekur og maginn hrópaði á mat!  Ég fór inn á næsta veitingastað og pantaði mér heitt súkkulaði og gulrótarköku.  Þjónninn sem þekkti mig horfði á mig stórum augum þar sem ég hámaði í mig gúmmelaðið en brosti öðru hvoru voða sætt til mín eins og hann vildi segja:  Jæja vinkona er ástandið svona eftir að þú seldir Reykjavík, gefur kallinn þér ekkert að éta? 

Nú var ég komin í tímaþröng! Reikninginn í hvelli og bauð gleðilega hátíð og út!

Bíllinn var á sínum stað.  Ég veit aldrei hvort það er búið að toga bílinn minn í burtu af því ég legg alltaf ólöglega og stöðumælir er ekki til í mínum orðaforða, ja nema núna í augnablikinu.

Umferðin var til að gera alla hálf vitlausa sem venjulega eru með fulle fem!  Ég náði samt upp í Prag 6 áður en klukkan sló fimm og hljóp inn í Spaið sem er ekkert smá huggó, þið vitið svona Tai dót út um allt og ljúf mussik og svo tala allir á lágu nótunum.  Dísús hvað ég á stundum erfitt með að tala á lágu nótunum. 

En ég andaði djúpt og lagðist endilöng upp á bekkinn sem var notalega heitur.  Þarna eru bekkirnir hitaðir á veturna.  Sko ekkert slor.  Kertaljós og austurlenskur ilmur kemur manni í annan heim.

Tveggja tíma andlitsbað og ég var orðin svo þreytt í öllum skrokknum að mér var helst í hug að panta mér heilnudd á eftir.  Að liggja eins og kæst Skata í tvo tíma og láta dúlla við sig hljómar eins og himnaríkismeðferð en minn eðal skrokkur er bara orðinn svo vanur öllu amstrinu síðustu daga að þetta var hreinlega to much!  Fyrirgefðu Þráinn minn smá sletta.

Ég afþakkaði alla föðrun á eftir og skakklappaðist út í bíl og setti í gang.

Elsku bíll taktu mig nú heim án allra skakkafalla.  Please!  Önnur afsökun til Þráins.

Og eftir nákvæmlega 45 mín  á 160 km hraða var ég komin heim og er nú aðeins að ná mér niður eftir erfiði dagsins.Wink

Ég vona að ég gangi ekki í svefni í nótt og bjóði til veislu en það væri svo sem alveg eftir mér.

 

 

   


mbl.is Bauð sofandi í kampavínsveislu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju orði sammála.

Langt í frá að það sé skemmtilegt að ferðast í dag með Íslenskt vegabréf í farteskinu.  Við fundum vel fyrir þeirri niðurlægingu á ferð okkar núna um Danmörk og Þýskaland sem frú Vigdís talar hér um í viðtalinu við El País. Við erum því miður öll merkt sama brennimarkinu. 

 Fólk brosir ekki lengur við okkur þegar við sýnum vegabréfin okkar.  Það spyr ekki lengur um land eða þjóð og segist vilja heimsækja okkur eða upplýsir mann um að það hafi nú hitt Íslendinga áður eða eigi vini á Íslandi.  

Við vorum spurð að því, þar sem við sátum á veitingastað, hvort við værum Svíar?  Nei, við erum Íslendingar svöruðum við samhljóma.  Ég var hreint ekki alveg á því hvort þjónninn kæmi aftur að borðinu eða mundi senda einhvern útlending til að afgreiða okkur.  Sorglegt, mjög sorglegt.

Mér fannst erfit að koma heim núna.  Það ríkti svo mikið svartnætti í sál margra.  Þó voru all margir sem báru sig vel og voru enn með bjartsýnina að leiðarljósi en umræðan var skelfileg hvar sem maður kom.

En nú er ég sest hér í skotið mitt og búin að kveikja á kertum til handa öllum ættingjum og vinum heima.

Ég veit að við komum öll til með að endurheimta virðingu meðal annarra þjóða en það á eftir að taka tímann sinn.  Það fer víst ekkert á milli mála því miður. 

      


mbl.is Íslendingar verða að endurheimta virðinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegur hittingur í Berlin annað kvöld.

Þá skal haldið heim á leið.  Ég komst að því í dag þegar ég var að pakka niður að ég þarf tilfinnanlega að endurnýja fataskápinn og ekki verra að vera fara heim því þá get ég ef til vill slegið tvær flugur í einu höggi, dressað mig upp og um leið lappað aðeins upp á gjaldeyrisskortinn í heimalandinu. 

Ég er alla vega harðákveðin í því að reyna að gera mitt besta.

En talandi um að pakka niður í ferðatösku, mikið óskaplega finnst mér það leiðinlegt verk.  Veit aldrei hvað ég vil hafa með mér, hvað er nauðsyn eða hvað er óþarfi.  Yfirleitt pakka ég óþarfa hlutum og borga svo yfirvigt fyrir allt draslið.

Þetta er bara til þess að búa til leiðindi á milli hjóna skal ég segja ykkur.

Var voða skynsöm núna, enda á ég ekkert til skiptana eins og ég var búin að segja.

Þar sem við vorum búin að ákveða að keyra til Berlinar um helgina þá slógum við bara til og keyptum okkur flugmiða frá Köben.  Þannig að við keyrum þangað og skiljum bílinn eftir og fljúgum þöndum vængjum heim með Icelandair ja svo framalega sem það eðalfélag verður lifandi á mánudaginn.

Annað kvöld verður skemmtilegur hittingur í Berlin en þá ætlum við að knúsa vini okkar Þráinn Bertelsson og frú Sólveigu alveg í klessu, en þau eru stödd þarna í borginni núna. Mikið rosalega hlakka ég til að hitta þau heiðurshjón og kryfja þjóðmálin til mergjar yfir góðum kvöldverði.

Þetta verður nú ekki skemmtiferð til heimalandsins í þetta sinn eins og þið vitið sem hafið lesið síðustu færslu mína en lífið heldur áfram ekki satt?

Kíki inn þegar ég má vera að næstu daga og glamra ef til vill líka á lyklaborðið.

Eigið góða helgi kæru vinir.

BURT MEÐ SPILLINGARLIÐIÐ !!!!!!!

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband