13.5.2008 | 21:58
Kríuvargurinn mættur á svæðið
Jæja fyrst Krían er komin þá hlýtur sumarið að vera rétt handan við hornið. Hér sjáum við nú ekki þennan gargandi fugl en í kvöld stóðum við nokkur saman á svölum Sænska Sendiráðsins hér í Prag og ræddum um fálkann sem jafnan svífur þar tignalega yfir þegar kvölda tekur.
Ég og Norski sendiherrann vorum að furða okkur á því hvað hefði orðið um kauða, mér datt helst í hug að hann hefði yfirgefið borgina vegna fjölda túrhesta undanfarna daga. Umræðan snérist síðan um fiðrildi og önnur náttúruundur veraldar.
Allt í einu birtist sá gamli yfir okkur og hnitaði nokkra hringi fyrir ofan okkur eins og hann vildi segja: Hér er ég gömlu vinir, ég hef ekki yfirgefið ykkur.
Við Peter gengum síðan saman til borðs fegin því að fálkinn okkar hafði ekki yfirgefið borgina þrátt fyrir allt.
![]() |
Krían komin á Nesið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.5.2008 | 13:42
Tékkneskt fyrirbæri
Hér hef ég séð bílstjóra sitja undir ungabörnum og hundum keyrandi um á hraðbrautinni. Svo þetta hefði alveg getað gerst hér í Tékklandi.
Tékkar hefðu líka fest bjórinn kyrfilega, hann er þeirra lífselexír. Börnin hefðu þess vegna verið sett í framsætið og ekkert sérstaklega hugsað um að festa þau í belti.
Er alltaf að vona að yfirvöld fari að taka á þessum beltismálum hér en ég held þeir nenni ekki að standa í því að stoppa bíla einungis vegna kæruleysi bílstjóra.
Annað mál væri ef það væru settar háar sektir hér þá væri löggæslan eins og mýflugur um allt, því auðvitað færi helmingurinn eða meira í þeirra eigin vasa.
![]() |
Setti belti á bjórkassann en ekki barnið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2008 | 20:38
Hvítasunnuhelgin með góðum vinum.
Þá er Hvítasunnan liðin og þó nokkuð langt í næsta almenna frídag þarna uppi á Hamingjulandinu. Ætli það sé ekki 17. júní sem ber núna upp á þriðjudag að mig mynnir Nú geta allir farið að telja dagana. Hæ, hó jibbí......
Helgin var mjög skemmtileg hér hjá okkur. Á laugardag komu hingað til Prag góðvinir okkar Sigurjóna og Halldór Ásgrímsson. Það var orðið ansi langt síðan við hittumst síðast svo þetta voru kærkomnir endurfundir.
Í gær komu þau í sveitina okkar og borðuðu með okkur síðbúinn hádegisverð. Spjallað var hér í vorsólinni um menn og málefni þar til sólin fór að síga bak við húsþökin.
Að sjálfsögðu var vel tekið á móti maraþonhlauparanum okkar þegar hann kom úr hlaupinu með tilheyrandi húrrahrópum og kampavíni. Hann hljóp á rúmum fjórum tímum og sagði Auður að hann hefði varla blásið úr nös þegar hann kom í markið. Flottur kall!
Í dag var bara venjulegur mánudagur og ég dundaði hér í lóðinni fram undir kvöld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.5.2008 | 09:20
Mæðradagsblómið
Þú varst líknin, móðir mín,
og mildin þín
studdi mig fyrsta fetið.
Í dag er mæðradagurinn og mér finnst þessi fallegu orð eiga vel við í tilefni dagsins.
Margar voru þær mæðurnar hér áður fyrr sem börðust fyrir sjálfstæði og ólu önn fyrir börnum sínum einar og óstuddar. Ein af þeim konum var Katrín Pálsdóttir móðuramma míns elskulega. Hún ól önn fyrir stórum barnahóp með því að skúra fyrir þá háttsettu menn Alþingis eftir að hún flutti á mölina þá nýorðin ekkja.
Katrín var ein af þeim konum sem stofnuðu Mæðrafélag Íslands. Mikil kjarnorkukona.
Mæðradagurinn hefur alla tíð verið dálítið ofarlega í minningunni. Sólbjartur og fallegur þar sem maður skottaðist á milli húsa í hvítum sportsokkum og seldi Mæðradagsblómið.
Brosandi var tekið á móti manni alls staðar þar sem barið var að dyrum og allir keyptu blómið, alveg sama hvað lítil peningaráð voru á heimilinu. Tíndir voru smáaurar úr gamalli, snjáðri buddu og aldrei man ég eftir því að nokkur maður skellti á nefnið á manni. Ef einhver hafði verið á undan að selja þá var annað hvort blómið hengt í stórrisan fyrir hurðinni eða brosandi andlit sagði : Nei takk góða mín, ég er búin að kaupa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.5.2008 | 07:56
Sveinn Baldursson hleypur Prag maraþonið á morgun.
Á morgun sunnudag fer fram hér Prag maraþonið 2008 en ekki láta ykkur detta í hug að ég ætli að fara að hlaupa. Hef lítinn áhuga á svona sprangi út um alla trissur. En ástæðan fyrir að ég hef fylgst með þessu er sú að Sveinn ábúandi hér í Leifsbúð þessa dagana ætlar að vera einn af þessum tugi þúsunda hlaupara.
Í fyrradag fór hann og skráði sig inn í hlaupið og sagði okkur að hann hefði aldrei séð jafn glæsilegan undirbúning. Svæðið sem innskráning fer fram er hér í Prag 7, Vista Vista eins og við köllum það. Þetta er útivistasvæði nánast hér í miðborginni, skemmtigarður, íþróttasvæði m.m.
Þarna var tekið á móti þátttakendum með margskonar uppákomum, lifandi tónlist og sölutjöld voru áberandi út um allt sem seldu hlaupaskó, boli og fl. sem ég kann ekki skil á enda ég ekki í þessari deild.
Við innritun var honum afhent bæklingur þar sem leiðin er vandlega kynnt og allar vatnsstöðvar á hlaupaleiðinni. Hann sagði að hann hefði aldrei séð svona vel staðið að undirbúning hlaups áður.
Gangi þér vel á morgun Sveinn!
![]() |
Dæmigerð helgi er 40 km á laugardegi og 30 á sunnudegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.5.2008 | 19:23
Vinurinn sem flaug alltaf með Fokker
Hér áður fyrr þegar við flugum á milli Köben og Prag var eingöngu notast við Fokkar vélar. Stundum gat þetta verið ansi östugt ferðalag þá sérstaklega þegar miklir sviptivindar voru í lofti. Það var ekki ósjaldan að maður þakkaði sínum verndara fyrir að vélin lenti á sínum þremur á flugbrautinni.
Einn góðvinur okkar, Breti, sem bjó hér í Prag þá ferðaðist mikið á milli landa og þá yfirleitt í Fokker. Sá kallaði nú ekki allt ömmu sína og gat verið ansi orðljótur og klæminn í ofanálag. Eitt sinn vorum við að tala um þessar ferðir hans og þá segir hann: Já ég bara get ekki vanist því að fljúga með þessum vélum, bara nafnið kemur mér í annarlegt ástand. Hugsið ykkur hélt hann áfram að verða alltaf að ferðast með fucking Fokker.
![]() |
Flugfélag Íslands leigir Fokker 50 vél til Air Baltic |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.5.2008 | 18:34
Gleðigjafarnir mínir, ömmubörnin.
Dagur að kvöldi kominn og næturhúmið að síga hægt yfir sveitina okkar. Svölurnar hnita hér í hringi eins og þeirra er siður þegar sólin sest. Ég held að ekkert sé eins tignalegt og svölur á flugi. Þær svífa hér yfir í u.þ.b. 15 mínútur áður en þær hverfa undir þakskeggin. Síðan koma þær í ljós með fyrstu sólargeislunum í morgunsárið og fara sinn vanalega rúnt hér yfir húsin.
Einkennilegt háttalag hjá þessum fallegu fuglum. Eins fallegur fugl og svalan er þá held ég að enginn fugl búi til jafn ósjáleg hreiður. Í fjarlægð virka þau eins og kúpur sem búnar eru til úr allskonar úrgangi. Þetta festa þær einhvern veginn upp í þaksperrum og rjáfrum húsanna. Dálítill sóðaskapur af þessu sem við fjarlægjum alltaf þegar ungarnir eru flognir úr hreiðrunum en þær koma alltaf aftur á vorin og setjast hér að yfir sumartímann.
Sólargeislinn okkar hún Elma Lind kom í heimsókn í dag til ömmu og afa við borðuðum saman hér litla Prag-fjölskyldan í sólinni seinni partinn. Afi grillaði kjúlla með kus kus blandað grænmeti og mango. Barnið fékk auðvitað ekkert af þessu góðgæti þar sem hún er rétt nýfarin að fá smá grautarslettu. Ohhh, get ekki beðið eftir því að mega stinga upp í hana einum og einum bita.
Afbrýðisama hundspottið minn þurfti auðvitað að láta aðeins í sér heyra svo barninu varð hverft við og áttum við í mesta basli við að hugga prinsessuna sem sætti sig alls ekki við þetta óargadýr. En þetta vonandi venst með tímanum.
Eftir að þau voru farin heyrði ég aðeins í litla prinsinum mínum honum Þóri Inga á Íslandi. Hann blaðraði þessi ósköp við ömmu sína og eftir að amman var búin að marg ítreka að hún væri amma en ekki mamma þá allt í einu kom hátt, skýrt og greinilega: Ammmma. Ohh hvað maður er að verða stór strákur.
Þetta var svona krúttdagur í dag hér í blíðskaparveðri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2008 | 07:40
Hún kom dansandi inn í heiminn.
Okkur var færður lítill sólageisli fyrir 31 ári eða nánar tiltekið 9. maí 1977 klukkan 8:30. Þessi litli geisli lét engan bíða eftir sér og skaust út í tilveruna á tilsettum tíma okkur foreldrunum til mikillar hamingju og gleði.
Það má eiginlega segja að hún hafi komið dansandi inn í heiminn og allar götur síðan hefur ekki verið nein lognmolla í kring um þá stelpu. Nú er ég að tala um afmælisbarn dagsins, dóttur okkar Soffíu Rut sem heldur upp á daginn í dag heima með sinni litlu fjölskyldu og vinum.
Elsku Soffa mín knús og kossar til þín héðan frá okkur pabba í tilefni dagsins. Vildum gjarna vera þarna með þér í dag en sendi þér í staðin margar hlýjar hugsanir.
Þakka þér fyrir að vera til elskan. Heimurinn væri ansi litlaus án þín. Ég knúsa þig hér í huganum. Elskum þig sæta stelpa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.5.2008 | 18:06
Fyrir ykkur sem hafið stundum pælt í þessum stærðum
Have you ever wondered why A,B,C,D,DD,E,F,G and H are the letters used to define bra sizes?
If you have w.w, but couldn´t figure out what the letters stood for, it is about time you became informed!
A - ALMOST BOOBS.......
B - BARELY THERE
C - CAN´T COMPLAIN
D - DANG!
DD - DOUBLE DANG!
E - ENORMOUS
F - FAKE
G - GET A REDUCTION
H - HELP ME, I´VE FALLEN AND CAN´T GET UP!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.5.2008 | 13:18
Lítill pistill um umferðamenninguna í Hamingjulandinu
Það er víst ekki bara heima í Hamingjulandinu sem eitthvað er ábótavant í umferðinni. Þegar við heimsóttum landið okkar um daginn vorum við dálítið að pæla í umferðamenningunni og komumst að því að við erum mjög sjálfstæð þjóð sem setjum okkur eigin reglur og látum ekki skipa okkur fyrir að fara eftir lögum ef við komumst hjá því.
Takið eftir, nú segi ég við því við vorum sjálfsagt engin undantekning frá reglunni þegar við bjuggum heima. En það er nú þannig að um leið og við stígum fæti inn í bíl á fósturjörðinni byrjum við á því að fylgjast mjög grannt með hraðamælinum. Viljum nú ekki láta taka okkur í landhelgi svona fyrsta daginn.
Það sem við tókum strax eftir er að landar okkar vita ekki að það eru stefnuljós á bílnum og svona stöng sem þú ýtir varlega upp eða niður eftir því sem við á. Ef til vill veit fólk þetta, er bara að spara rafmagnið, hvað veit ég. Eða því finnst þetta algjör aðskotahlutur sem þjóni engum tilgangi svo best bara að hunsa þessa litlu stöng við stýrið hvort sem skipt er um akrein, innáakstur eða beygt sé inn í aðrar götur.
Innáakstur er stórvandamál, maður verður að sæta lagi til að komast inn á aðalbrautir. Enginn gefur séns, allir eru svo sjálfstæðir í sínum bíl að þeir hafa ekki hugmynd um að fleiri séu á ferli og vilji komast leiðar sinnar. Sem sagt allir ,,Palli einn í heiminum"
Rosalega mega landar mínir vera fegnir að umferðaljósin eru sægstyllt eða eru allir litblindir? Gulur litur er örugglega ekki til í heilabúi margra. Grænt er grænt, gult er grænt og rautt er appelsínugult. Og drífa sig svo yfir gatnamótin og gefa hressilega í með ískri í dekkjum. Flott maður!
Framúrakstur á hægri akrein er bara hrein snilld! Koma svo, kitla pinnann, sjá hvað kerran drífur.
Svo fannst okkur alveg með einsdæmum allir jeppaeigendurnir á 15 milljóna tækjunum sem tíma örugglega ekki að láta fjarstýringu á farsímann í bílnum, allir með Prada síma við eyrað og keyrandi eins og kóngar í ríki sínu. Flott skal það vera maður!
Á meðan dvöl okkar stóð vorum við vitni að tveimur bílveltum á Reykjavíkursvæðinu, sem betur fer urðu engin stórslys.
Þar sem ég var að koma keyrandi frá Keflavík einn morguninn um ellefu leitið beygði sendiferðabíll fyrir mig inn á veginn við afleggjarann frá Keflavík. Ég hugsaði með mér jæja greyið hann er sjálfsagt að flýta sér. Mér lá ekkert á og keyrði á löglegum hraða á eftir kauða. Allt í einu hægir bíllinn á sér og tekur að rása á veginum. Ég hugsa með mér, ætli það sé eitthvað að og hægi á mér um leið. Sé ég þá hvað bílstjórinn hallar sér yfir í framsætið og sé ég ekki betur en hann taki upp síma. Þarna keyrum við á 50 km hraða en löglegur hraði var þarna 90km.
Bannað var að keyra fram úr svo ég held mig í mátulegri fjarlægð á eftir bílnum. Eftir nokkra stund hallar bílstjórinn sér aftur til hægri og nú sé ég að hann heldur á flösku í hendinni. Bíllinn rásar og auðséð að maðurinn er að bögglast við að skrúfa tappann af, síðan leggur hann flöskuna frá sér og tekur upp eitthvað sem líktist brauði eða hvað veit ég. Þarna var hann bara að borða hádegissnarlið sitt hinn rólegasti og algjörlega einn í heiminum.
Ef ég hefði verið stressaður bílstjóri hefði ég verið búin að blikka ljósum, blása í lúðra eða hvað veit ég en ég var orðin dálítið forvitin um framvindu mála svo ég bara lullaði þarna á eftir. Þegar við komum síðan að vegaframkvæmdunum við Vatnsleysu/Voga og ,,aumingjaskiltið" sem varla sést sýnir 50 km hraðatakmörkun, haldið ekki að kauði gefi í og snarar örugglega hraðamælinum upp í 90 ja alla vega sá ég hann ekki aftur. Sem sagt matartíminn var búinn og nú bara að drífa sig í vinnuna.
Er þetta hægt, ég bara spyr?
Annars er bara hér allt í góðu og fínt veður.
![]() |
Sektaðir fyrir að keyra of hægt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.5.2008 | 08:15
Flottir strákar á fráum fákum
![]() |
Hilmir Snær og Benedikt ríða í bæinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.5.2008 | 12:38
Þvottavélin farin að færa sig upp á skaftið
Ég er búin að horfa fram hjá því í mörg ár að þvottavélin mín étur reglulega sokka míns elskulega. Hef bara ekki sagt múkk og leyft henni að fara sínu fram en nú er kvikindið farin að færa sig upp á skaftið og orðin virkilega gráðug. Hún er sem sé farin að kjamsa á blúndunærunum mínum og það á nú ekki alveg við hana vindu, skítt með sokkaplöggin en rándýrt hýjalín, þá er mælirinn fullur.
Ég er búin að ragna og bölsóttast yfir henni en ekkert gengur, hún lætur einfaldlega ekki segjast og heldur áfram uppteknum hætti svona við og við. Ég get svarið þetta eins og ég sit hérna. Djöfuls græðgi í kvikindinu.
Eitt sinn eignaðist ég svona líka fínan poka sem mér var sagt að setja alla sokka, nærur og hannað fínerí í og binda rækilega fyrir áður en ég setti það í gin vélarinnar. Þetta gerði ég einu sinni eða tvisvar. Ég hafði enga þolinmæði í svona dútl við þvottinn og pokaskjattinn týndist einn góðan veðurdag.
Er að fara að taka út úr kvikindinu. Taldi í hana áður en ég setti hana í gang, nei joke.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.5.2008 | 08:26
Auður Vésteinsdóttir, velkomin í Listasetrið Leifsbúð
Nú er aftur að færast líf í Listasetrið okkar og fyrsti gestur okkar mættur á svæðið. Auður Vésteinsdóttir myndlistamaður mun dvelja hér næstu sex vikurnar og vinna að verkum sínum. Við bjóðum hana og hennar eiginmann Svein Baldursson velkomin og vonum að þau njóti dvalarinnar hér.
Það var vinalegt að horfa yfir að Leifsbúð í gærkvöldi, uppljómaða, vitandi af svo góðu fólki þarna að vinnu. Erró minn var fljótur að koma sér í kynni við nýja ábúendur og í morgun skellti hann sér í morgungöngu með þeim hjónum í góða veðrinu.
Læt hér fylgja vefsíðuna okkar: www.leifsbud.cz
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.5.2008 | 18:30
Þær taka ,,fýlupillur" líka í Kóngsins Köbenhavn
Komin heim frá Hamingjulandinu heil á húfi en auðvitað töskulaus. Ég mátti svo sem alveg búast við því þar sem ég hafði aðeins 25 mín í millilendingu í Köben. Held að heilinn í mér sé aðeins farinn að klikka, ég hef lent í þessu áður að bóka mig á flug með svona stuttum millilendingartíma og lofað sjálfi mér að gera það aldrei aftur en einhvern vegin dettur þetta bara í gleymskunnar dá og ég lendi aftur og aftur í þessari hringyðu sem líkist geðveiki.
Þegar ég kom til Keflavíkur um hádegisbil var fátt um manninn í innbókun og ég þakkaði fyrir það pent í huganum. Þar sem ég stend fremst við borðið kemur voða sæt stúlka til mín og segir: ég skal hjálpa þér að bóka þig inn hérna megin. Ja hérna hugsa ég eitthvað hefur nú þjónustan batnað.
Stúlkan dregur mig að maskínu sem stendur þarna aðeins afsíðis og sé ég þá að þetta er sjálfbókunarvél. Ég brosi mínu blíðasta og segi: Ég held að þetta gangi ekki ég verð að millilenda og bóka töskuna alla leið til Prag. Ekkert mál segir hún, ég ætla bara að kenna þér á þetta og rífur um leið af mér bókunarblaðið og pikkar inn númer og aftur númer, segir svo voða sætt sjáðu, svo bara ýtir þú á áfram.
Á meðan er ég á kafi ofan í tösku að leita að gleraugunum því ég sé ekki glóru án þeirra, þ.a.l. missti ég af þessari kennslustund í innbókun. Ég nennti ekki að fara að útskýra fyrir henni að ég hefði bara engan áhuga á svona apparati, sem sagt þarna var ég rosalega meðvirk Hallgerður. Hehehehhe.... Auðvitað varð ég síðan að fara að afgreiðsluborðinu og bóka inn töskurnar, þetta var sem sé algjör tvíverknaður.
Þar tók á móti mér önnur yndælis stúlka og ég krossaði fingur, góðu verndarar, enga yfirvikt! Taskan bókuð og ég bið um Priority-miða á töskuna vegna þess hve stutt sé á milli véla. Ekkert slíkt fékkst en hún vafði Saga miða um handfangið og sagði að það virkaði rosa vel. Huhumm ég vissi betur.
Þegar ég kem inn í vélina sé ég að ,,apparatið" hafði gefið mér sæti næstum aftast í vélinni og lítil von um að geta látið færa sig því vélin var fullbókuð. Flugið yfir hafið gekk vel þrátt fyrir að ég gat engan vegin hreyft mig þar sem 170 kg. karlmaður sat mér við hlið og þrýsti sínum holdlega líkama fast að mér alla leiðina. Þegar við nálgumst Kóngsins Köben kalla ég í eina freyjuna og spyr hvort möguleiki sé á að ég geti fengið að færa mig fram í þar sem ég hafi svo lítinn tíma á milli véla , þetta var ekkert mál og ég gat loks andað eðlilega síðustu tíu mínúturnar.
Ég er lent og þá byrjar martröðin fyrir alvöru. Hlaup frá terminal B yfir í C til að bóka mig í Transit. Þar er ætlunin að farþegar taki miða og bíði rólegir þangað til kemur að þeim. Ég hafði bara engan tíma í þetta svo ég arka að næsta deski og bið unga konu um að bjarga mér á nóinu þar sem vélin væri að fara eftir 15 mín. Sú hafði tekið nokkrar ,,fýlupillur" um morguninn og var ekkert nema ólundin. Ég taldi upp á 100 andaði djúpt, talaði dönsku með ísl. hreim en það hefði ég einfaldlega ekki átt að gera því þá fyrst fór stúlkan í baklás. Loksins, loksins og ég aftur til baka alla leið á terminal A. Hljóp eins og geðsjúklingur með svitastrokið andlit og rétt náði að smeygja mér inn um hliðið áður en því var skellt aftur. Hjúkket ég náði!
Óveður geisaði í Prag í lendingu og vélin tók dýfur og hentist til hægri og vinstri vegna mikilla sviptivinda. Haglið dundi á vélarskrokknum og síðan steypiregn í kjölfarið. Veðurguðirnir tóku ekki sérlega vel á móti mér í gærkvöldi og síðan til þess að kóróna allt kom ekki taskan.
Það var úrvinda kona sem féll í faðm síns elskulega. Gat vart komið upp orði. Eina hugsunin var rúm og sofa og sofa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.5.2008 | 00:52
Kveð ykkur öll með söknuði
Síðasti dagur minn hér í Hamingjulandinu að þessu sinni g á morgun flýg ég heim. Þessi tími er búinn að vera hreint út sagt frábær og ég hef notið hverrar mínútu með fjölskyldunni og vinum. Mikið er ég rík og mikið má ég þakka fyrir. OK, ekki hella sér út í dramatíkina núna þetta er búið að vera svo frábær tími.
Í dag fórum við til Egils bróður í Brunch. Eins og alltaf frábært að heimsækja þau þar sem hljóðfærin eru í hverju horni og börnin gera mann hálf vitlausan með glamri á píanó og önnur tiltæk slagverk. Lútsterkt kaffi bætir upp hausverkinn svo og þeirra elskulega nærvera.
Eftir kossa og knús röltum við Soffa mín með Þóri Inga niður á Skúlagötu. Á Hlemmi varfólk að safnast saman í kröfugönguna og ég svona hálft í hvoru bjóst við að heyra Maístjörnuna en þess í stað bárust jazzaðir tónar um svæðið svo mín fór bara að dilla sér þar sem hún gekk með kerruna á undan sér. Hummm... eitthvað hefur nú fylkingatónlistasmekkurinn breyst með árunum.
Við sátum síðan hjá mömmu og drukkum MEIRA KAFFI og spjölluðum við þá gömlu og ég lofaði að hún fengi að koma til okkar með haustinu. Hún var strax farin að pakka niður í huganum þegar við kvöddum. Elsku mamma mín.
Amman bauð síðan litlu fjölskyldunni í kvöldmat í Grillið á Sögu. Frábær matur, þjónusta og ekki spillti útsýnið yfir borgina okkar í kvöldsólinni.
Að sjálfsögðu var Þórir Ingi stjarna kvöldsins og það fyrsta sem hann gerði þegar þjónninn kom að borðinu með matseðlana var að skipa honum að setjast niður. Sesssdu!! var sagt hátt skírt og greinilega og aumingja þjónninn vissi ekki hvort hann æt´ð hlýða skipuninni, þessi litli gutti var jú gestur og gestir hafa alltaf rétt fyrir sér.
Frábært kvöld sem endaði með því að Daddi bróðir og Bökka komu aðeins við í Garðabænum svo við gætum aðeins knúsað hvort annað áður en ég héldi í faðm litlu útrásarfjölskyldunnar í Prag.
Mikið var gaman að koma heim. Ég elska ykkur öll með tölu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)