Lítil prinsessa fæddist í morgun hér í Prag

Hér ríkir mikil hamingja og við erum enn hálf skjálafandi, afinn og amman að Stjörnusteini.  Í morgun hringdi Egill sonur okkar og sagði að nú væri Bríet okkar komin á spítalann og keisaraskurður í undirbúningi. 

Litla Elma Lind Egilsdóttir fæddist síðan rétt fyrir ellefu í morgun.  Heilbrigð lítil ömmu og afa stelpa, 2570 gr og 49 cm.  Þeim mæðgum heilsast vel en við fáum ekki að sjá þær fyrr en á morgun þar sem Bríeti er haldið á gjörgæslu í 24 tíma eftir fæðingu. 

 Velkomin í heiminn litli sólargeisli!  Hlökkum til að hitta þig á morgun!


Rusl eða ekki rusl?

Nú verð ég að fara út og grandskoða ,,ruslið" sem fór út í gær!  Ekki spurning. Ég var í skápatiltekt og það fóru fleiri pokar af ,,drasli" út úr húsi sem fara síðan til góðgerðafélaga. Fékk þvílíkan bakþanka þegar ég las um málverkið sem fannst fyrir tilviljun á götu úti. Gæti hugsast að ég hafi hent uppáhalds hálsbindum míns elskulega?  Úps, eins gott að hann komist ekki í pokaskjattana, þá er ég í vondum málum. 

Minn elskulegi er einn af þeim sem heldur því fram að allir hlutir komi að góðum notum einhvern tíma seinna á lífsleiðinni og er með hálfgerða söfnunaráráttu en ég aftur á móti held ekki mikið í gamalt ,,drasl" og gef óspart úr skápunum. Almáttugur minn, eins gott að pæla ekki mikið í hverju ég hef fargað um ævina af okkar veraldlega drasli.Tounge   


Í kulda og trekki hími ég volandi

Ólánsræfillinn! Fyrirsögning dálítið skondin.  Sá hann fyrir mér horaðan, kaldan og blautan húka undir vegg bak við ruslatunnur með búðarkassann í fanginu skjálfandi á beinum, skíthræddan við verði laganna sem sóttu að honum úr öllum áttum með blikkandi blá ljós.  Kunni engin skil á þessari sjóðsvél sem hann hélt á og langaði bara heim til mömmu.  Frown


mbl.is Fannst í felum með búðarkassa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú skil ég nafngiftina

Þökk sé myndum og korti frá Kjartani P. Sig. en samt, hvaða snillingur fann upp þetta orð?  Þvílíkt hugmyndaflugW00t Verð að heimsækja staðinn næst þegar ég kem heim og sjá þessi un dur og stórmerki með eigin augum, nú ef ekki allt verður þá komið undir hraun og Upptyppingar hættir að standa undir merkjumBlushLoL


mbl.is Áfram skjálftavirkni við Upptyppinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Garðurinn tilbúinn fyrir ,,Halló-vín"

Ég og minn elskulegi erum búin að vera síðan níu í morgun úti að vinna á landareigninni og nú eru Erikurnar og Krisurnar komnar í potta, Graskerin og það sem tilheyrir Halloween skreytir nú garðinn í stað sumarblóma sem voru farin að láta á sjá.  Það skemmtilega við að búa erlendis er að hér getur maður breytt umhverfinu utandyra eftir árstíðum.  

Við erum að stækka aðeins húsið okkar og mikið rót hér á efri lóðinni.  Brutum niður 10 metra af Miðgarði svo nú er okkar hús orðið sjálfstæð eining en ekki samtengd Miðgarði. 

 Gröfukallinn mætti hér eldsnemma í morgun til þess að ganga frá lóðinni fyrir veturinn eftir allt niðurrifið.  Heilmikið umstang. Það ýtti undir okkur að drífa í að koma sumarhúsgögnum og öðru sumardóti í geymslu fyrir veturinn.  Mér finnst alltaf dálítið tómlegt þegar allt er komið í hús en haustlitafegurðin bætir þetta allt upp því nú er skógurinn hér í kring eins og logandi eldhaf í haustsólinni.     


Föstudagsþankar hvutta - æ mig auman

Ég heyrði á tal fóstru minnar um daginn þar sem hún ræddi þá hugmynd að best væri að láta vana mig.  MIG, þennan eðalhund sem hef verið þvílíkt góður undanfarna mánuði og ekki látið mig hverfa síðan óþvera karlinn hér í hverfinu lokaði mig inni heila nótt í þrumuveðri.  Mér finnst hún rosalega harðbrjósta, ég á þetta engan veginn skilið.  Bara kíkt öðru hvoru á tíkurnar hér í sveitinni á undanörnum árum og aðeins einu sinni átt afkvæmi, en við það vil ég nú ekki kannast og hef megnustu andúð á þeim undanvillingum.  Læt bara sem ég hafi aldrei komið þar nærri.

En það er víst engu tauti við hana fóstru mína komandi svo ætli ég verði ekki að gangast undir þessa hræðilegu aðgerð í janúar.  Fóstri minn er nú reyndar ekki á sama máli og finnst þetta óþarfa vesen en ,,yfirvaldið" ræður víst hér á heimilinu.  Æ mig auman, ég kvíði svo hræðilega fyrir þessu. Hef líka heyrt að hvuttar eins og ég verði bara þunglyndir eftir svona meðferð. En hvað verður maður ekki að sætta sig við í henni verslu? 

 

 

 

 


Þú ert algjör snillingur!

Hvað annað? Ég hef alltaf vitað það og þarf ekki að lesa það í stjörnuspá Mbl. til að sannfærast og þó... Snillingurinn ég, get ómögulega gert það upp við mig hvort ég eigi að fara út og koma mér í haustverkin.  Finnst eiginlega ekki alveg tími til kominn þar sem haustsólin yljar manni enn hér á veröndinni og notalegt að fá sér hádegisverð með litasinfóníuna allt í kring.  Veit svo sem að þetta endist ekki mikið lengur og ekki eftir neinu að bíða með að taka inn húsgögn og blóm sem þola ekki kvöldkulið. 

Ætli ég drífi ekki bara í þessu - hum...eða hvað?  Má svo sem alveg bíða til morguns. Ef til vill betra að nota snilligáfuna í eitthvað viturlegra.    


Lítill gutti á afmæli í dag

Sigurður Orri á afmæli í dag og er orðinn stór strákur. Hann er einn af þessum hressu litlu krílum í fjölskyldunni og mikill gleðigjafi.  Til hamingju Siggi minn með daginn og láttu pabba og mömmu stjana við þig og halda stóra veislu! Hlökkum til að sjá þig næst þegar við lítum við heima.  Kossar og knús til þín litli vinur frá okkur hér að Stjörnusteini. 

Síðasti kaffibollinn. Rut Ingólfsdóttir kveður að sinni.

Í morgun fengum við Rut okkur kveðjubolla hér að Stjörnusteini en hún hefur verið gestur okkar undanfarnar sex vikur í Listasetrinu.  Mikið flýgur tíminn!  Okkur finnst hún hafa komið hingað í gær!  Það var mikill heiður og ánægja að fá þessa frábæru listakonu hingað og þökkum við kærlega fyrir ófáar og skemmtilegar samverustundir á undanförnum vikum.  Góða ferð heim Rut mín og takk fyrir að fá að kynnast þér.  Gangi þér vel með öll verkefnin sem framundan eru.


Hvernig á að koma afa í rúmið?

Afi, 85 ára er hér í heimsókn og klukkan langt gengin eitt og sá gamli bara eiturhress og talar og talar.  Úps, hvernig á ég að koma honum í rúmið? Hann sem segist vera andvaka alla nóttina, er ekkert á því að koma sér í bælið!  Örugglega búinn að dorma hér í allan dag á meðan ég fór í verslunarleiðangur.  Ef til vill er hann skíthræddur um að Lilli Klifurmús sé ekki allur og hoppi uppí rúmið til hans. Nei bara segi svona.

Ég og minn elskulegi eigum langan dag fyrir höndum þar sem við erum að taka á móti Lumex genginu hingað í smá teiti ásamt fleira skemmtilegu fólki á morgun og þurfum á smá pásu núna!  Halló getur einhver gefið mér ráð með þann gamlaWink     


Föstudagsþankar hvutta - Lilli Klifurmús gerir sig heimakominn að Stjörnusteini

Hehehe..  hér er búið að ríkja stríðsástand undanfarnar klukkustundir og hún fóstra mín var alveg að missa það!  Og það er allt mér að þakka eða kenna. Ég þefaði uppi Lilla Klifurmús undir borðstofuskápnum á meðan fóstra mín og fóstri ásamt afa Gunna hámuðu í sig kvöldmatinn. Það er vitað mál að hér þarf enga ketti því ég get þefað uppi Lilla hvar sem hann er og allt hans hyski og það veit hún fóstra mín vel.

Þar sem ég lá og nagaði mitt kvöldbein fann ég lykt sem ég vissi að átti engan vegin heima hér í húsinu og fóstra mín sá að eitthvað var í gangi undir borðstofuskápnum.  Kallaði strax til fóstra minn og hann lýsti með vasaljósi undir skápinn en sá auðvitað ekki neitt því Lilli var svo klár að skríða upp bakvið skápinn. Loks tókst fóstra mínum að ná honum undan en þá vildi ekki betur til en svo að hann skaust inn í eldhús og fóstra mín forðaði sér út á veröndina með hljóðum. 

 En Lilli hefur góðan smekk og faldi sig innan um Gestgjafana sem eru í uppáhaldsborði fóstru minnar.  Hún heimtaði að borðinu væri snarlega rennt út og henni afhent Gestgjafinn, sem telur margra ára safn.  Borðið sem er á hjólum fór út og fóstri minn selflutti árgangana í hendur fóstru minni sem allt í einu hljóðaði upp yfir sig og viti menn, Lilli hafði skriðið inn í uppáhalds uppskriftamöppuna hennar og auðvitað slapp hann aftur inn í eldhúsið. Fóstri minn var sem sagt alveg skíthræddur við Lilla ekki síður en fóstra mín. 

Eftir langa mæðu og eltingaleik tókst fóstra mínum að koma honum út og nú er aumingja Lilli einhvers staðar úti í kuldanum,  ja nema hann hafi leitað í Listasetrið því hann hefur víst gert sig heimakominn þar líka en er svo klár að hann nagar bara ostinn úr gildrunum sem fyrir hann hafa verið lagðar.  Nú er fóstri minn búin að setja þessa líka forláta Freschezza skinku í gildruna svo á morgun verður sjálfsagt minningarathöfn fyrir Lilla Klifurmús og hans hyski.

Ég prinsinn fékk þvílíkt klapp og smá kjötbita að launum og er mjög upp með mér af afrekum kvöldsins. Nú er ég aftur orðinn númer eitt á heimilinu.  Æ ég vona samt að ég þurfi ekki að eltast við Lilla aftur og hans kumpána, ég er nú enginn köttur en mér finnst samt gaman að leika mér að þeim, en bara úti.  Var satt að segja sjálfur hálf smeykur við aðskotadýrið. En hafið það samt ekki eftir mér.    

 

 

 


Fyrsta Jack & Jones opnuð í Prag í dag

Egill Þórisson og Bríet Þorsteinsdóttir opna í dag sína fyrstu Jack & Jones verslun hér í Prag.  Verslunin er til húsa í göngugötunni, nánar tiltekið þar sem fyrsta Vero Moda verslunin var opnuð árið 2000. Í dag reka þau hjónin fimm verslanir hér í Prag og Dresden með vörumerkjum frá danska fyrirtækinu Best Sellers. 

 Miklar breytingar hafa verið gerðar á húsnæðinu og verslunarrýmið stækkað upp á aðra hæð og er samtals um 800 fermetrar.  Við óskum ykkur Egill minn og Bríet innilega til hamingju með áfangann og gangi ykkur allt í haginn í framtíðinni.        


Misskilningur barþjóns vakti kátínu ferðafélaga

Fékk áðan póst frá vini mínum sem var með okkur á ferðalagi um helgina og sagðist hafa fengið hálfgert fráhvarfseinkenni í morgun þar sem hann hafði sofnað edrú í gærkvöldi eftir sukk síðustu daga.  Sagt auðvitað meira í gamni en alvöru. 

Ég mundi þá eftir skemmtilegu atviki sem gerðist síðasta kvöldið okkar í Würzburg.  Vinkona mín bað barþjóninn um vatnsflösku en hann skildi ekki betur en að hún væri að biðja um Vodka flösku og auðvitað var svarið ,,Við seljum ekki í heilum flöskum, bara í glösum".  OK, hún bað þá um glas og viti menn, þjónninn setur glas á barborðið og kemur síðan með Vodka flösku og  byrjar að hella glasið fullt. Sem betur fer gat hún stoppað þetta í tíma enda ef hún hefði fengið sér gúlsopa af þessum Guðaveigum hefði aumingja strákurinn fengið vodka gusuna yfir sig beint úr munni gestsins.

Við göntuðumst með þetta félagarnir þar sem hópurinn er hóvær í drykkju og engir berserkir með í  för.     


Vel heppnuð haustferð Wildberries Traveler´s

Í haustlitafegurð Frönsku Sviss Þýskalands var ekki amalegt að ferðast og gleðjast með sextán gömlum vinum okkar hjóna.  Hópurinn dvaldi í þrjá daga í Wirsberg, litlu sveitaþorpi, þaðan sem farið var dagsferð til Selb, Marianské Lazné og Nürnberg.  Við heimsóttum Rosenthal og Villeroy & Boch verksmiðjuverslanirnar í Selb og síðan kíktum við aðeins yfir landamærin til Tékklands svona rétt til þess að fá að sötra aðeins á  Tékkneskum bjór.

Dagsferð var farin til Nürnberg og endað á Kon Tiki þar sem tekið var á móti okkur með blysförum. Jólabærinn Rothenburg var heimsóttur og síðan eyddum við tveimur seinustu dögunum í Würzburg og var m.a. farið í vínkynningu og hádegisverð í Staatlicher Hofkeller sem er í Resedenz Würzburg.  Það var eftirminnilegt hádegi enda enginn smá vínkjallari frá 12. öld með skemmtilega sögu. 

Þessi ferð var svo vel lukkuð að allra mati að ákveðið var að fara aftur saman eftir tvö ár og  þá að sækja  Svía, Finna og Rússa heim.  Ég og minn elskulegi þökkum ykkur, kæru vinir fyrir frábæra haustdaga sem verða okkur ógleymanlegir.      

 

  


Takk fyrir Dýrin í Hálsaskógi

Svo óheppilega vildi til í dag að litli Juniorinn fékk heljarins grjótönd á litla fótinn sinn svo úr blæddi og amma heldur að nöglin fari af stóru tánni.  Það var mikill grátur og eftir að búið var að setja plástur á meiddið var enn grátið sáran.

Hvernig huggar maður lítinn dreng sem meiðir sig í fyrsta skipti?  Mamman, sem vissi að ég hafði fengið Dýrin í Hálsaskógi á DVD frá Heiðu og Jóni mínus datt í hug að setja diskinn í tækið og sjá til hvort það virkaði á lítinn eins árs peyja. Og viti menn, þetta svínvirkaði.  Gráturinn þagnaði og þessi eins árs gamli ömmustrákur horfði andaktugur á skjáinn. 

 Sko, þarna er upprennandi leikari á ferð skal ég segja ykkur.  Í heilar tuttugu mínútur sat hann alveg stjarfur og horfði á Mikka ref og alla mýslurnar leika listir sínar.  En þegar Lilli byrjaði að syngja Vögguvísuna missti hann áhugann og fór úr fangi mömmu sinnar og meiddið var gleymt og búið.

Heiða mín og Jón mínus takk fyrir að gefa mér diskinn með Dýrunum í Hálsaskógi, þetta kemur örugglega til með að virka seinna í framtíðinni.

 

 

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband