Færsluflokkur: Bloggar
25.3.2007 | 10:41
Í kulda og strekkingi á Íslandi
Úps! Þvílík veðrátta þessa daga sem ég dvaldi á Íslandinu góða. Norðan garri og skítakuldi! En nú er ég komin heim í hlýjuna frá mínum elskulega og vorinu í Prag, og byrjuð að blogga aftur.
Það var gaman að koma heim til Íslands og þá sérstaklega að fá að njóta samvistar við Juniorinn minn. Hann er soddan gleðigjafi. Soffa okkar var að flytja frá London eftir sjö ára búsetu og ég kom heim til þess að hjálpa henni að koma sér fyrir í nýju íbúðinni þeirra í Garðabænum og leika Ömmuhlutverkið, sem felst í því að dekra drenginn í óþökk foreldrana, nei ég segi nú bara svona.
Eins og alltaf náði ég ekki að hitta alla þá sem mig langaði til, en í þetta skipti var fjölskyldan í fyrirrúmi. Enda ekkert eins mikilvægt og að hlúa að sínum nánustu.
Sem sagt komin aftur heim og hversdagsleikinn tekinn við. Sunnanvindar blása hér fyrir utan og sólin brosir blítt til okkar hér að Stjörnusteini.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2007 | 14:17
Hundar eru skynugar skepnur...
...og þar er hundurinn okkar, hann Erró engin undantekning, enda eðalhundur af Golden Retriever kyni. Hann hefur undanfarna viku fundið á sér að vorið hefur hafið innreið sína hér og vill ólmur komast út um leið og við förum á stjá. Yfirleitt er hann mjög rólegur og ef rignir fer hann ekki út fyrir dyr, enda fæddur aristokrat, fussar við bjór en elskar Kampavín.
Í morgun var hann alveg að gera útaf við mig og grenjaði og gelti við eldhúshurðina eins og hann vildi segja, hvað er þetta kerling ætlar þú að sitja inni í allan dag, eða hvað? Hann hætti ekki fyrr en ég fór út á veröndina með kaffibollann. Sólin var rétt að gægjast upp yfir trjátoppanna og ég fann strax að hundurinn hafði rétt fyrir sér. Vorið er komið! Einhvern tíma hefði ég farið í "bongo-blíðu" dressið í svona veðri en þetta leit nú út fyrir að verða svona í og úr veður.
Það er sem sagt hundinum að þakka að ég er búin að vera á kafi í vorverkunum í dag, með rassinn upp í loft. Minn elskulegi segir oft að hann sjái ekkert af mér á þessum árstíma, nema botninn. Ojæja, það gæti nú verið verra.
Þar sem ég er að puða hér í framlóðinni erum við með gosbrunn, reyndar tvo, sem per se er ekkert merkilegt. Mér hefur alla tíð þótt róandi að hlusta á gljáfrið í vatninu en í dag hefur þetta haft mjög slæmar afleiðingar fyrir blöðruna og ískyggilega margar ferðir farnar á "The little girls room". Nú segir einhver iss, er ekki bara kerlingin að verða gömul, ég vil þvertaka fyrir svoleiðis vitleysu! Annar segir örugglega: Halló, hvernig væri þá bara að skrúfa fyrir vatnið. En það er nú mergurinn málsins, ég hef ekki hugmynd hvar kraninn er. Læt vita hvort ég hef fundið hann á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2007 | 13:09
Geraldine Mucha heiðursgestur á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna
Hér í Prag er starfræktur Alþjóðlegur kvennaklúbbur IWAP (International Womens´s Association of Prague) og í tilefni dagsins verður heiðursgestur okkar í hádeginu Geraldine Mucha.
Geraldine er ættuð frá Skotlandi og var gift syni Alfons Mucha, eins þekktasta listamanns Tékklands.
Ég kynntist þessari merku konu fljótlega eftir að ég kom hingað til Prag. Geraldine sem verður níutíu ára í júlí á þessu ári, man tímana tvenna. Hún hefur búið hér meir og minna síðan 1945 og upplifði hörmungar kommúnismans. Þegar hún flutti fyrst til Prag bjó hún hjá tengdamóður sinni, ekkju Alfons Mucha. Maður hennar, Jiri var fljótlega tekinn fanga af kommúnistum og var í haldi í þrjú ár. Geraldine sá fyrir sér og einkasyni þeirra hjóna með því að skrifa tónverk fyrir ríkið enda mikill tónlistamaður. Enn þann dag í dag semur hún tónverk sem flutt eru hér í borg og víðar.
1970 flutti hún aftur til London og vann þar hörðum höndum við að aðstoða eiginmann sinn við að koma upp sýningum með verkum Mucha. Eftir nokkra ára aðskilnað þeirra hjóna flutti hún aftur til Prag og býr enn í sama gamla húsinu upp í Hradcany innan um húsgögn og verk tengdaföðurs síns.
Það er vel við hæfi að heiðra þessa merku konu hér í dag sem hefur snert svo marga strengi í hjörtum okkar sem kynnst hafa, og haldið uppi nafni Alfons Mucha.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2007 | 08:30
Góu-gleði í Vínarborg
Við hjónakornin renndum til Vínar um síðustu helgi til að taka þátt í árlegu Þorrablóti Íslendinga í Austurríki. Ég vil nú heldur kalla þetta Góu - gleði þar sem Þorrinn er nú löngu liðinn og Góan gengin í garð.
Um áttatíu landar okkar voru þarna saman komnir til þess að háma í sig "ónýtan mat" Ég hef aldrei skilið hvernig fólk getur látið þennan óþverra inn fyrir sínar varir. En sitt sýnist hverjum. Fyrir þá sem fussa við súrmetinu komum við hjónin með lax, síld og rækjur í farteskinu til að einginn færi svangur heim.
Það var mikið fjör á litlu kránni þar sem hófið fór fram og kyrjaðir ættjarðarsöngvar fram eftir nóttu eins og venja er á slíkum samkomum, enda miklar upprennandi söngpípur í Vínarborg.
Til hamingju landar mínir í Austurríki! Þið stóðuð ykkur með sóma! Hlökkum til að koma aftur næsta ár!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2007 | 08:47
Séra Pétur í Laufási
Sú harmafregn barst okkur hingað, fjölskyldunni í Prag að góðvinur okkar Pétur hefði skilið við í gærmorgun. Það er svo erfitt að trúa því, eins og Bríet tengdadóttir mín orðaði það, alveg sama hversu oft og hvað lengi Pétur lagðist inn á spítala, hann kom alltaf aftur heim. Það var bara einfaldlega þannig. En í þetta sinn átti það ekki fyrir honum að liggja.
Elsku Inga og fjölskylda. Okkar innilegustu samúðarkveðjur. Péturs verður sárt saknað og minning um góðan mann mun lifa með okkur æfinlega. Megi ljósið lýsa ykkur öllum á þessum erfiðu tímum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2007 | 12:54
Kveðja frá Tékklandi
Til að gleðja ykkur, þau sem margsinnis hafa beðið mig um að byrja að blogga, kemur hér fyrsta færslan mín úr sveitinni í Tékklandi.
Ekki amalegt að byrja að skrifa á þessum fallega vordegi, með fuglasöng í bakgrunni.
Þetta er nú einungis gert til þess að vinir og vandamenn geti fylgst með litbrigðum lífs okkar hér í Tékklandi. Hlakka til að heyra viðbrögð ykkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.3.2007 | 11:59
Fyrsta bloggfærsla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)