Færsluflokkur: Bloggar
12.6.2007 | 05:34
Var á ,,vaktinni" í alla nótt
Ekki veit ég hvað olli því að ég lá andvaka í alla nótt. E.t.v. var það nýi bíllinn minn sem ég fékk óvart upp í hendurnar í gærkvöldi, þessi með fjóru hringunum, eða ný ofnæmislyf sem ég byrjaði að taka í gærmorgun. En mikið rosalega var ég orðin pirruð þegar klukkan var orðin fimm og ég ennþá glaðvakandi.
Ég var að festa blund rétt fyrir sex þegar ég hrekk upp við það að vinnumaðurinn ræsir traktorinn beint fyrir neðan svefnherbergisgluggann. Ég hefði getað rekið hann á stundinni. Ekki séns að ég yrði á hann í dag!
En hvað um það ég er enn glaðvakandi, fuglarnir kyrja morgunsönginn sinn hér á fullu og sólin komin hátt á loft og nýr dagur með nýjum verkefnum í uppsiglingu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2007 | 12:33
Bílhrædd, lofthrædd og skíthrædd á sveitavegi í Þýskalandi
Ég var að líta yfir fréttir dagsins þar sem sorglegar fréttir úr umferðinni eru áberandi. Hvernig er hægt að velta bíl í göngum? Hér fara yfirleitt allir eftir hraðatakmörkunum þegar farið er í gegnum göng. Ég tók líka eftir því um daginn þegar við vorum að keyra í Þýskalandi að viðvörunarskilti eru orðin áberandi fyrir bifhjólamenn og ekki af ástæðulausu.
Ég hef alltaf verið bílhrædd og ekki hefur það skánað með aldrinum. Er alveg óþolandi aftursætisbílstjóri, er eiginlega alltaf á bremsunni ef ég keyri ekki sjálf. Ég held nú samt ég sé alveg skítsæmilegur bílstjóri og á það til að kitla pinnann af og til. En undanfarið hef ég ásett mér hægari akstursmáta og fer yfirleitt eftir settum reglum. En það er ekki aðeins að ég sé bílhrædd heldur er ég líka hræðilega lofthrædd og get varla farið upp tvær tröppur í lausum stiga.
Um daginn vorum við að keyra um Þýskaland og ég tók við keyrslunni þar sem minn elskulegi var orðinn ansi lúinn. Allt gekk vel framanaf og minn dottaði við hliðina á mér þar sem ég keyrði örugglega um sveitavegi landsins. Leiðin lá uppí móti og í byrjun var þetta ekkert mál ég lullaðist þetta áfram en allt í einu fann ég hvernig maginn herptist saman og ég varð löðursveitt um lófana. Það var þverhnípi niður hægra megin og ég var hreinlega að drepast úr hræðslu en ætlaði nú aldeilis ekki að gefast upp, fannst þetta fremur asnalegt að líða svona þar sem það var ég sem sat undir stýri. En ég var orðin svo hrædd að ég var farin að ímynda mér að bíllinn færi afturábak, þrátt fyrir að ég væri á fullri ferð áfram.
Ég reyndi að líta eftir útkeyrslu til að geta stoppað en það var enga slíka að finna svo ég var nauðbeygð til að halda áfram. Eitthvað hefur keyrslumátinn raskað ró mínum elskulega þar sem hann vaknar og spyr ,,hvað er eiginlega að þér manneskja, haltu áfram, þú getur ekki stoppað hér". Það lá við að ég stoppaði á punktinum og færi út úr bílnum, svo hrædd var ég orðin. Loksins gat ég fundið útkeyrslu og var snögg að láta minn taka við. Næst læt ég hann keyra, þá get ég bara lokað augunum og beðið til Guðs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2007 | 14:44
Hans heilagleiki gekk út í garðinn og um leið braust sólin fram
Í gær var dumbungur í henni Prag og eiginlega í mér líka en þar sem langur dagur var óumflýjanlegur, varð maður bara að koma sér í gírinn og taka á honum stóra sínum.
Við mættum í móttöku hjá vinum okkar Norðmönnum þar sem haldinn var hátíðlegur 17. maí. Við erum nú ekki mikið fyrir að sækja þessar móttökur nema þá hjá nágrannaþjóðum okkar Íslendinga. Eins og vera ber stóðu sendiherrahjónin Inger og Peter í anddyrinu og tóku á móti gestum sínum. Vinkona mín var glæsileg í sínum fallega þjóðbúningi en með vinstri hendina hátt á lofti þar sem hún var reyrð í einhverskonar spelkur eftir að hafa dottið á skíðum fyrir sex vikum. Þar sem hún hefur mjög góða kímnigáfu fannst mér bara vanta norska fánann í hendina. Þetta var auðvitað ekkert findið en samt ansi skoplegt.
Þar sem frekar þröngt var orðið um manninn fór fólk að safnast saman á veröndinni þrátt fyrir dumbung og hráslaga. En viti menn, um leið og Hans heilagleiki, fulltrúi kaþólsku kirkjunnar gekk út þá birti til og sólin hellti geislum sínum yfir samkomuna. Einn af gestunum gat ekki á sér setið og hrópaði upp yfir sig, kraftaverk!
Ekki náði kraftaverkið til míns slæma maga svo eftir einn og hálfan tíma kvöddum við vini okkar sem stóðu enn í sömu sporum, frúin en með hendina hátt á lofti, auðsjáanlega sárþjáð með frosið bros á vörum. Kraftaverkið hafði heldur ekki náð til hennar. Þarna var hvorki staður né stund til að gantast með kringumstæður en það verður örugglega gert seinna í góðu tómi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2007 | 22:40
Þvílíkur dagur! Dóttir okkar þrítug! Lunch hjá Skoda! Konsert í boði Hernaðarmálaráðherra! Dinner ,,með
Ja hérna, dóttir okkar varð þrítug í dag og ég byrjaði daginn með því að syngja fyrir hana í símann eldsnemma í morgun þar sem ég var svo langt frá henni og gat ekki knúsað hana nema í huganum. Soffa mín til hamingju með daginn!
Ég var síðan boðin í hádegismat til vinkonu minnar sem er gift forstjóra Skoda verkmiðjanna hér í landi. ,,Lunchinn" dróst aðeins á langinn eins og alltaf þegar við kellur komum saman en ég varð að yfirgefa samkvæmið um fjögurleitið þar sem ég varð að keyra heim, sem tekur mig yfirleitt ca. 40 mínútur þar sem við hjónin áttum að vera mætt í Tónleikahöllina klukkan sjö til að vera viðstödd hátíðartónleika í boði Hernaðarmálaráðherra Tékklands.
Þegar ég rann í hlaðið hér heima þá spurði ég hundinn hvar minn elskulegi væri eiginlega. Viti menn er hann ekki að sitja fyrir hjá listamanninum Helga Gísla og það er verið að móta kallinn í leir. Nú á sem sagt að gera minn elskulega ódauðlegann. Ég er viss um að hann lætur búa til fjöldan allan af afsteypum af sér og dreyfir þessu til ættingja og vina í famtíðinni, nei nú er ég bara að grínast, ekki séns.
Ég drattaðist síðan dragfín með mínum elskulega með hálfum huga á tónleikana því ég bjóst við að þetta yrði fremur þreytandi. En viti menn, þetta var þvílíkt skemmtileg uppákoma. Þarna tróð upp blásarasveit hersins og fékk í lið með sér frábæra listamenn. Við hjónin skemmtum okkur konunglega.
Þar sem ekki var boðið upp á neinar veitingar eftir tónleikana ákváðum við hjónin að halda upp á þrítugsafmæli dóttur okkar yfir síðbúnum kvöldverði á Four Season. Hver situr þá við næsta borð? Enginn annar en Morgan Freeman. Mikið rosalega er hann cool! En það er hér eins og annars staðar, hann fékk að vera í friði með sína súpu. Skemmtilegur dagur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2007 | 21:43
Bon voyage!
Eftir sautján ár hér í Tékklandi höfum við hjónin mætt í ótal mörg kveðjuboð. Í byrjun, fyrir mig var þetta hreint út sagt óbærilegt. Ég fann mig svo mikinn einstæðing þegar góðir vinir fluttu í burt, aleina og yfirgefna, en ég lærði smátt og smátt að sætta mig við aðstæður og reyndi að taka hlutunum með tóískri ró. Í gærkvöldi var enn eitt kveðjuboðið hjá vinum okkar frá USA, sem búið hafa hér í 13 ár en enn er svo ótrúlega sárt að sjá á eftir góðum vinum og vita ekki hvað framtíðin býr í skauti sér. Hittumst við aftur? Eða er þessum kapítula í lífi okkar lokið? Spurningunni verður sjálfsagt svarað þegar fram líða stundir.
Þetta er ekki í síðasta skipti sem við þurfum að mæta í kveðjuboð hjá góðum vinum. Sem betur fer höfum við haldið tryggð við marga sem flutt hafa héðan, annaðhvort hefur þetta fólk farið til síns heima eða fengið annan póst einhverstaðar í heiminum. Í dag erum við í sambandi við tvo góða vinahópa sem flutt hafa héðan en hittast alltaf annaðhvert ár. Það er okkur ómetanlegt! Við höfum þann háttinn á að við hittumst hingað og þangað um heiminn og endurnýjum okkar tengsl. Þar sannast máltækið ,,góður vinur er gulls ígildi"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2007 | 13:35
Kaldhæðni landa minna fór í mínar fínustu!
Það fór um mig kuldahrollur þegar við hjónin vorum stödd heima á Íslandi um síðustu helgi. Ekki var það nú um að kenna veðrinu heldur ótrúlegt skopskyn landa okkar. Mér og mínum manni var svo sannarlega ekki hlátur í huga þar sem við horfðum upp á brunarústir sögufrægra húsa Reykjavíkur sem geymdu aldagamla sögu okkar. Hvað ef manntjón hefði orðið, hefði fólk þá líka skopast að því? Hvað er að fólki, mér er bara spurn?
Þar sem við vorum á gangi með vinum okkar á laugardaginn í hádeginu í leit að góðum matsölustað tekur ein vinkona mín upp göngusímann sinn og fer að lesa skilaboð sem gengu manna á milli, þar sem sagt var að Pravda væri reyklaus staður og síðan kom heil romsa um matseðil sem væri í boði, en nenni nú ekki að tíunda það bull nánar enda fannst mér þetta ótrúlega ósmekklegt. Henni fannst þetta alveg rosalega fyndið. Ef til vill hefur minn húmor breyst eftir að hafa búið svona lengi erlendis, ég bara skildi þetta engan veginn og fannst þetta fyrir neðan allar hellur.
Annað kom mér á óvart þennan dag þar sem við röltum um miðbæinn í leit að góðum veitingastað þar sem hægt væri að fá sér hádegismat. Okkur datt í hug að fara inn á Hótel Borg sem þykir víst einn besti og mest ,,Inn" staðurinn í Reykjavík. Þar komum við að lokuðum dyrum, eða réttara sagt ekki lokuðum en enginn fannst þjónninn og staðurinn ekki opinn í hádeginu. Ég komst að því að það er ekki auðvelt að finna opinn veitingastað í hádeginu um helgar í miðborg Reykjavíkur. Gestir, hvort sem þeir eru erlendir eða heimamenn eiga að lúlla frameftir, éta kvöldmat og djamma fram á nótt. Það er íslensk menning! Ja hérna!
Eftir töluverða leit gengum við inn á Grand Hotel Reykjavík (ég held það heiti það, beint á móti styttunni af Skúla gamla fógeta) reyndar var veitingastaðurinn lokaður en við gátum fengið snarl á barnum, sem sumir í hópnum áttu erfitt að sætta sig við. En þar var tekið vel á móti okkur enda gamall og reyndur þjónn sem þjónaði til borðs. Við fengum góðan mat og ,,áttum staðinn" því við vorum einu gestirnir.
Þessi laugardagur með vinum okkar var nú ekki alveg alslæmur því eftir skemmtilega samverustund í hádeginu heimsóttum við gömlu Morgunblaðshöllina og sáum sögusýningu Landsbanka Íslands sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara og fengum við frábæra leiðsögn með Sveinbirni Guðbjarnarsyni. Kærar þakkir Sveinbjörn.
Þegar leið á daginn fór hrollurinn smátt og smátt að hverfa enda við í góðum félagskap langt fram eftir kvöldi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við sem biðjum um að fá hjólastól og aðstoð fyrir aldraða ættingja okkar sem ferðast einir til og frá útlöndum erum ekki að gera þetta að gamni okkar, eða til að íþyngja starfsfólki flugstöðvarinnar í Keflavík, þetta er gert af illri nauðsyn. Því miður virðist þessi þjónusta vera í algjöru lágmarki á Íslandi og jafnvel talin ónauðsynleg. En sjálfsagt vegna þess að alþjóðareglur kveða svo um að þessi þjónusta verði að vera fyrir hendi þá verða starfsmenn að hlýta þessum reglum, en gera það með hundshaus.
Í vikunni sem leið var móðir mín 83ja ára, ein á ferð frá Keflavík til Prag. Ég hafði pantað fyrir hana hjólastól og fylgd þegar ég sótti flugmiðann og var það auðsótt. Ég hef beðið um þessa þjónustu einu sinni áður og þá flaug hún með Icelandair til Frankfurt og flugfreyjurnar í vélinni höfðu ekki hugmynd um að það væri farþegi um borð sem þurfti á hjólastól að halda. Ég vil taka það fram að ég er ekki að áfellast starfsfólk Heimsferða, heldur þjónustuleysi starfsfólks flugstöðvarinnar. Ég hef líka heyrt að þetta sem við lentum í er ekkert einsdæmi.
Flugið var áætlað klukkan sjö um morguninn og bróðir minn keyrði móður okkar til Keflavíkur og var mættur stundvíslega tveimur tímum fyrir brottför, eins og lög gera ráð fyrir. Á öllum flugvöllum sem ég hef komið til hafa verið aðgengilegar upplýsingar fyrir farþega fyrir ofan hvern bókunarbás. Þú ert að fljúga til Oslo og þá ferð þú að bás sem stendur Oslo og bókar þig inn þar. Ég skil ekki þessa hringavitleysu í Keflavík. Þarna sem bróðir minn kemur með gömlu konuna, fyrir allar aldir, og sem gefur að skilja, þreytta eftir ónægan svefn, er margmenni í einni kös að bíða eftir að bóka sig í flug enda sex eða átta vélar að fara í loftið á sama klukkutímanum. Á öllum skiltunum fyrir ofan bókunardeildina stendur aðeins Icelandair.
Hann plantar þeirri gömlu á meðal farþega og fer að líta eftir hjólastól. Eftir nokkra stund kemur starfsmaður með stól og hann spyr hvort þetta sé stóll fyrir tiltekna konu. Svarið er já og um leið segir hún ,,það er bókað inn hér hinum megin við vegginn til Prag" Ja hérna, hvernig átti fólk að átta sig á þessu, það voru engar merkingar að sjá. Eftir að hafa bókað þá gömlu inn spyr hann svona í sakleysi sínu hvort henni verði síðan fylgt í gegn um passaskoðun og upp í fríhöfn. Svar: ,,Já eftir einn og hálfan tíma" Hann kváði og fékk það svar að farþegum sem væru í hjólastól væri rennt beint að hliðinu hálftíma fyrir brottför. Jahá, þá átti gamla konan að dúsa þarna í stólnum eins og illa gerður hlutur, ekki einu sinni hægt að fá sér kaffisopa. Bróðir minn spyr þá af hverju í ósköpunum sé ekki látið vita af þessu þegar stóll sé pantaður svo fólk sé ekki að þvælast tveimur tímum fyrr, eingöngu til þess að bíða í þessari óvistlegu brottfararbyggingu. Það var víst lítið um svör.
Nú spyr ég, af hverju var ekki hægt að renna henni í gegn og koma henni fyrir á einhverjum kaffistaðnum uppi. Þetta hefði teki í mesta lagi tíu mínútur. Biðjast síðan afsökunar og spyrja hvort þetta sé ekki í lagi? Útskýra líka að það kæmi síðan starfsmaður og færi með hana út að vél rétt fyrir brottför? Þvílíkt þjónustuleysi!! Ég veit að svarið sem ég fengi væri að það væri svo fátt starfsfólk og svo margar vélar að fara á sama tíma. Þetta svar er mér gjörsamlega ófullnægjandi. Hvergi í heiminum er farið svona með gamalt fólk.
Til allrar hamingju þekkti bróðir minn einn af farþegunum sem var á leið til Prag og þessi elskulega kona bauðst til að taka móður okkar að sér og koma henni út í vél. Vil ég þakka henni fyrir alla hjálpina og hugulsemina. Allan tímann sem hún var með gömlu konuna uppi í fríhöfn kom enginn að athuga með konuna í hjólastólnum, hvort hún væri lífs eða liðin. Starfsfólkið var sjálfsagt guðs lifandi fegið að þurfa ekki að standa í þessu óþarfa veseni.
Þegar vélin síðan lenti í Prag kom flugfreyjan til móður minnar og sagði að það biði hennar hjólastóll við útganginn og fylgdarmaður. Auðvitað var gamla konan farin að kvíða því að lenda í Prag og fá enga aðstoð frekar en í Keflavík. En það var auðvitað allt önnur þjónusta hér. Töskurnar teknar af bandinu og henni fylgt alla leið út og beðið með henni þar til tekið var á móti henni og hún í öruggrihöfn. Sem sagt ósköp eðlileg þjónusta. Nú er bara að bíða eftir því að heyra hvernig þetta verður þegar hún lendir í Keflavík eftir nokkra daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2007 | 11:13
Með kantskera að vopni
Undanfarna daga hef ég verið með rassinn upp í loft í garðvinnunni með kantskera, skóflu og önnur tiltæk áhöld að vopni, enda búið að vera hið fínasta vorveður. Eitthvað er nú aldurinn farinn að segja til sín því ég þarf að leggja sjálfa mig í bleyti á hverju kvöldi í nuddpottinn. Minn elskulegi segir að ég teygi ekki nóg á mér. þvílíkt bull og vitleysa, að hanga svona yfir beðunum eru ekkert nema teyjur og þrælerfiðar þar að auk.
Í morgun ætlaði ég síðan að fara að þrífa grillið hér úti eftir veturinn. Ég vopnaðist bleikum gúmmíhönskum og vírbursta því nú átti að taka á því. En eftir svo sem hálf tíma úti hröklaðist ég inn. Það var kominn skítakuldi. þvílík vonbrigði O, jæja, ætli ég bara taki ekki fram lopapeysuna og láti mig hafa það þegar líða fer á daginn
Nú er súkkulaði-hátíðin að ganga í garð svo ég skellti mér bara í smákökubakstur því hér verða alltaf að vera til Mömmu súkkulaði kökur á Páskum. Ætli ég verði ekki að hunskast út og halda áfram með grillþrifin því það á að grilla Páskalambið á Páskadag. Og að sjálfsögðu verður það Íslenskt lamb.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2007 | 19:32
Dagur kominn að kvöldi....
og eftir skemmtilega en erilsama viku höfum við tekið því rólega. Það voru frábærir endatónleikar á PP-premieres á laugardaginn þar sem barnakórverk eftir Jón Nordal var flutt fyrir fullu húsi og vel fagnað.
Við nutum þess að hafa Menntamálaráðherra, Þorgerði Kartínu hér í heimsókn. Þrátt fyrir stíft prógram gafst okkur kostur á að taka hana hingað heim í sveitina okkar og sýna henni Listasetrið Leifsbúð sem við erum svo stolt af.
En nú tekur hversdagleikinn við og ró farin að færast yfir okkur hér að Stjörnusteini. Ég get farið að dunda aftur í garðræktinni og minn elskulegi sest upp á traktorinn, sem er hans uppáhalds leikfang yfir sumartímann. Síðan fer að styttast í Páska og þá hópast hingað túrhestarnir, sem sagt stutt í næstu törn. Mikið gaman, mikið fjör!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2007 | 14:05
Frábærar móttökur eftir heimsfrumflutning á tónverki Atla Heimis í Prag
Það var ekki leiðinlegt að vera Íslendingur í Prag í gærkvöldi þegar við hjónin tókum á móti prúðbúnum gestum okkar, Menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu, Tónskáldinu Atla Heimi Sveinssyni og konu hans Sif, löndum okkar og erlendum vinum fyrir utan Rudolfinum undir blaktandi þjóðarfána. Sannkölluð hátíðarstemmning.
Ekki er það heldur á hverjum degi sem okkur gefst kostur á að vera viðstödd heimsfrumflutning á tónverki eftir Íslenskt tónskáld hér í borg. Sinfónía númer fjögur eftir Atla Heimi Sveinsson var samin að hluta til hér að sveitasetri okkar í janúar í fyrra. Mikil eftirvænting hefur ríkt hér undan farna daga eftir að fá að hlýða á þetta tónverk sem flutt var af Tékknesku Fílharmóníuhljómsveitinni, sem er talin vera ein af sjö bestur hljómsveitum í heimi, undir stjórn Zdenék Mácal en hann er víðfrægur hljómsveitarstjóri. Árið 1970, að ég held, kom hann sem gestastjórnandi til Íslands og stjórnaði Sinfóníuhljómsveitinni.
Tónleikarnir hófust með verkum eftir tónskáld frá Tékklandi, Danmörku og Svíþjóð. Hápunktur kvöldsins var síðan Sinfónía númer 4 fyrir hljómsveit og tvær fiðlur. Einleikarar voru Miroslav Vilímec á fiðlu og Bohomil Kotme á violu, báðir frábærir listamenn. Athygli vakti óvenjuleg staðsetning einleikarana þar sem þeir stóðu á svölum fyrir aftan hljómsveitina en ekki á efðbundum stöðum. Eftir frábært ,,Grand finale" var höfundi, stjórnanda og hljómsveit vel fagnað og þakkað með löngu lófataki.
Í móttöku eftir tónleikana, í boði okkar hjóna voru uppi fjörlegar umræður um verk Atla. Nokkrir voru að geta gátur að því að þarna væri hann að segja lífshlaup sitt, jafnvel alveg frá því hann var við nám í Þýskalandi, hver veit?
Það voru stoltir landar sem gengu út í milda vornóttina í gærkvöldi eftir frábært kvöld og skemmtilega tónleika í hundrað turna borginni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)