Færsluflokkur: Tónlist

Óvirðing við listamenn.

Hvimleitt satt er það en þetta er óvirðing við listamenn og fólk á að sýna sóma sinn í því að mæta ekki ef það getur ekki hamið sig eða alla vega að ganga úr salnum.

 Finnst eins og fréttamaður sé að dæma Mr. Schiff fyrir hrokafulla framkomu.   Ég skil listamanninn fullkomlega og sjálfsagt hefur honum fundist komið nóg af því góða og beðið fólk fólk vinsamlegast um að hemja sig rétt á meðan hann spilaði.

Við sem sækjum tónleika vitum að yfirleitt þegar hlé er gert á milli verka byrjar hálfur salurinn að ræskja sig og hósta, leiðindar ávani!  Hitt er annað mál að ef þú ert með kvef og hósta og veist að hóstinn getur brotist fram hvenær sem er og þá sérstaklega þegar þú ert í tónleikasal í gömlum byggingum sem eru uppfullar af ryki  þá bara mætir þú ekki á tónleika, þú sleppir þeim! 

Ég hef oftsinnis orðið að sitja heima vegna þess að ég ber virðingu fyrir listamönnum og kæmi aldrei í hug að mæta á konsert eða óperur vitandi það að ég gæti fengið hóstakast í miðju verki.  Ég hef líka orðið fyrir því að verða að ganga úr salnum vegna þess að ég hélt að ég gæti hamið mig rétt á meðan flutning stæði. 

Annað sem kvefaðir áheyrendur gera líka sem er ekki síður ósmekklegt er að mæta með hálstöflur, í skrjáfandi umbúðum.  Hvers vegna ekki að taka töflurnar úr umbúðunum áður en gengið er í salinn.  Síðan eru það farsímarnir, á ég að halda áfram?

Nei læt hér staðar numið. 

  Bara smá svona pirringsblogg héðan frá Stjörnusteini inn í kvöldsólarlagið. 

 

  


mbl.is Hóstaður út af sviðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmælistónleikar Bjarkar Jónsdóttur í kvöld

Mikið hefði verið gaman að geta verið heima núna og glaðst með mágkonu minni Björk Jónsdóttur, söngkonu en hún heldur tónleika í Iðnó í kvöld.  Segir í tilkynningu að þarna ætli hún að sýna á sér nýjar hliðar.  Spennandi þar sem hún er búin að vera með annan fótinn í kóngsins Köben í nokkur ár og er enn.

Elsku Bökka mín innilega til hamingju með þennan áfanga og afmælið 26. ágúst!

Toj, toj, toj !!!!!

 


Þessi fallegi dagur, þessi fallegi dagur!

Elsku kallinn okkar. Var að hlusta á lagið þitt og fannst það eiga svo vel við á þessum fallega degi.  Okkar innilegustu hamingjuóskir til ykkar Hrafnhildar!  Vonandi kíkið þið í kaffi fljótlega. Borgin skartar sínu fegursta hér núna og við flöggum fána í tilefni dagsins.

Njótið þess að vera til!  Bestu kveðjur og knús frá okkur hér að Stjörnusteini og öðru frændfólki hér í Prag. Heart


mbl.is Bubbi Morthens á afmæli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki beint fallegur svanasöngur

 Arrow Head Lásu þeir ekki nóturnar áður en ákveðið var að taka verkið til flutnings?  En gott að vita þetta svona í tíma ef ég yrði nú boðin á tónleika með verkum Dror Feiler.  Þá bara sit ég heima, ekki spurning. Wink

Nútíma verk geta verið undurljúf og jafnvel stundum fyndin, maður þarf bara að vera með athyglina á fullu til að meðtaka sumt.  Jóni Leifs var nú ekki beint vel tekið hér áður fyrr, man að einstaka fólk talaði um pottaglamur og fólk kom út af tónleikum með hellur fyrir eyrum.  

  Ef marka má fréttina, þá hefst verkið á því að skotið er úr hríðskotabyssu, ja hérna er það nú tónlist hehehe er það nú ekki aðeins of mikið af því góða.  Ekki skrítið að tónlistafólkið hafi kvartað undan höfuðkvölum.   


mbl.is Heilsuspillandi tónverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pákuleikarinn og Páfuglar Tékknesku sinfóníunnar.

Hver nema ég gæti fengið hláturskast  í miðri sinfóníu Brahms, nánar tiltekið þegar Tékkneska sinfónían spilaði Allegro non troppo kaflann fyrir troðfullum áheyrandasal.  Þarna sat ég eins og fífl og hristist af hlátri innra með mér, OK ég gat sem betur fer hamið það að hljóðið bærist út úr búknum, en augnatillitið sem minn elskulegi sendi mér sagði allt sem þurfti:

Reyndu nú að hemja þig manneskja, það er bara ekki farandi með þig innan um fólk.  Þetta er kultúrkvöld, ekki trúðaskemmtun! 

 Við vorum sem sagt stödd á tónleikum í boði sendiherra Lettlands þar sem m.a. var frumflutt verk eftir Lettneska tónskáldið Péteris Vasks. Tónleikarnir byrjuðu á undurfögru verki eftir Haydn og síðan kom verk Mr. Vasks sem var bara virkilega gott miða við að ég er ekkert sérlega hrifin af nútímatónlist. 

Í hléi var síðan dreypt á kampavíni eins og tilheyrir á svona stundum og ég veit ekki hvort það var vínið eða Brahms sem fengu mig til þess að hætta að fylgjast með tónlistinni.  Sumum sem leiðist á tónleikum fara að telja hljóðfæraleikarana en ég dundaði mér þarna við að grandskoða múnderinguna á kvennaliði hljómsveitarinnar.

Eitthvert þema var þarna örugglega í gangi því allar höfðu saumað hárautt siffon hingað og þangað á svarta síða kjólana og litu út eins og páfuglar með fiðlur.  Hræðilegt að sjá þetta drusluverk bylgjast með hreyfingum hvers og eins.  E.t.v. hefur þetta verið gert í tilefni páskanna en þvílíkt mislukkað dæmi.

Þetta var nú samt ekki það sem vakti kátínu hjá mér heldur var það yndislegi pákuleikarinn sem trónaði þarna aftast.  Ungur og örugglega mjög efnilegur maður en gat bara ekki hamið tilfinningar sínar. 

 Þarna stóð hann í öllu sínu veldi og lifði sig þvílíkt inn í verkið að hann var farinn að stjórna öllum í hljómsveitinni með höfuðhneigingum til hljóðfæraleikaranna þegar þeir áttu að koma inn.  Andlitið gekk í bylgjum og einstaka sinnum sýndist mér hann tralla með.  Þegar hann fékk svo tækifæri á að koma inn sjálfur og sýna getu sína þá var það gert með þvílíkum tilþrifum að maður bjóst við að kjuðarnir myndu skoppa úr höndunum og lenda bein í hausinn á stjórnandanum.  Aumingja drengurinn var svo gjörsamlega ómeðvitaður um þessa tilburði sína og naut sín svo fullkomlega þarna að það hálfa var nú nóg.

Þetta voru sem sagt hálfgerðir trúðaleikar sem við fórum á í gærkvöldi.   Mime 

 

 

      


Stórsigur Sigrúnar Pálmadóttur í kvöld! Bravo!

Sigrún Pálmadóttir brilleraði sem Violetta í uppfærslu Íslensku Óperunnar á La Traviata Verdis í kvöld.  Ég hef sjaldan verið viðstödd önnur eins fagnaðalæti hérlendis enda frábærir listamenn sem tróðu upp á fjölum Óperunnar. 

Frumsýningagestir fylltu húsið þrátt fyrir skaðræðisveður og mikil stemmning ríkti á sýningunni.  Fagnaðarlætin í lok sýningarinnar þar sem fólk klappaði, stappaði, hrópaði og bravoaði ætlaði hreinlega að rífa þakið af gamla góða Bíóhúsinu okkar.   

Sigrún Pálmadóttir var stjarna kvöldsins, engin spurning.  Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Tómas Tómasson voru líka frábærir í hlutverkum Alfredo og Giorgio.  Skemmtileg uppfærsla hjá Jamie Hayes. Hamingjuóskir til allra sem stóðu að þessari sýningu og vonandi líður ekki á löngu þar til við getum boðið öllu þessum glæsilegu listamönnum upp á stærra og betra tónleikahús.  Bravo!! 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband