Færsluflokkur: Tónlist

Endurfundir - Við og strákarnir í Blásarakvintett Reykjavíkur - Hittingur í Vínarborg

Bara svo þið vitið það þá erum við að fara í tveggja til þriggja daga frí frá tölvu, sláttuvél og öðru heimilisstússi.  Það verður gott að skipta um umhverfi og ekki verra að hitta skemmtilega landa okkar sem búa í borginni við ,,bláu ána",  Jamm Vienna here we come again!

Hef aldrei skilið þetta með ,,Dóná svo blá, svo blá"...........  Fyrir mér er hún svört en ekki blá, aðeins einu sinni man ég eftir að hafa séð bláan bjarma á yfirborðinu  í ljósaskiptunum og þá langt inn í Dónárdal.  En það skiptir ekki svo miklu máli hún er tignaleg eins og hún er.

Það verða nú fleiri sem við ætlum að knúsa þarna í Vínarborg, því þarna eiga eftir að verða miklir og skemmtilegir endurfundir þar sem Blásarakvintett Reykjavíkur mætir á svæðið.  Við komum til með að hitta strákana annað kvöld á heimili sendiherrahjónanna þeirra Sveins Björnssonar og Sigríðar og síðan verðum við viðstödd tónleika á fimmtudagskvöldið einhvers staðar í tónlistarborginni fögru.

Ég hlakka mikið til þess að knúsa strákana það er næstum ár síðan þeir spiluðu hér í garðinum okkar að Stjörnusteini.Blásarakvintett Reykjavíkur

Sem sagt engar áhyggjur þó þið heyrið ekkert frá mér í nokkra daga ég verð á full swing að skemmta mér og öðrum á bökkum Dónár.


Ekkert lát á hjónabandsælunni jafnvel eftir 35 ár í blíðu og stríðu.

Ég rakst á þetta í morgun þegar ég var að blaða í Perlunum hans Laxness og datt í hug að setja þetta hér inn með færsu dagsins:

Það er ekki annað en uppspuni að konan kasti sér andvarpandi um háls elskhuganum þegar hann stynur upp bónorðinu og svari:  Ég er þín að eilífu!  Slíkt ber ekki við nema í illa ortum ljóðum og fimmtíu aura lygasögum skrifuðum fyrir vinnukonur og borgara.

Þegar karlmaður hefur upp bónorð sitt svarar konan alltaf þessu sama:  Hvað býðurðu mér? Hvað borgarðu mér? Fæ ég borðstofumubblur, stássstofumubblur og píanó?  Gefurðu mér steiktan kjúkling? Gefurðu mér strútsfjöður? Gefurðu mér bíl?

Þetta á við færslu dagsins þar sem við hér að Stjörnusteini héldum upp á 35 ára hjúskaparafmæli okkar í gær og ekki nóg með það heldur héldum við upp á 40 ára hjúskaparafmæli Helga bróður Þóris og Jónu konu hans hér hátíðlegt þann 14. júní en þau komu hingað á fimmtudaginn til að halda með okkar hátíð þessa helgi. Afmælið haldið hátíðlegt  Hér erum við í fyrsta í afmæli.  Glæsileg hjón og ekkert mjög þreytuleg þrátt fyrir að vera búin að hanga saman í 75 ár samanlagt!

Þetta er ástæðan fyrir því  að ég hef ekki verið dugleg að blogga undan farið, hef bara haft alveg brjálað að gera í partýstandi alla daga og verður ekkert lát á fyrr en á fimmtudaginn en þá fljúga vinir okkar heim.

  Martial Nardeau hélt stofutónleika fyrir okkur í gærkvöldi.  Ekki allir sem fá svona stórkostlegan glaðning á afmælisdaginn sinn.

Í dag ætlum við að taka það rólega enda dumbungur í lofti og ekkert spes veður.  Gestir okkar keyrðu sig í Mallið en við gömlu erum heima og tökum lífinu með ró. 

Svo bíðum við bara eftir næsta ,,Happy hour" eins og venjulega. 

Eins gott að halda sig við efnið!

 

 


Flautuhjónin eru að lenda núna hér í Prag.

Nú fer að færast líf aftur í Listasetrið þar sem von er á Guðrúnu Birgisdóttur og Martial Nardeau hingað hvað úr hverju.  Þá megum við búast við því að heyra ljúfa flaututóna hljóma frá Leifsbúð bara svona með morgunkaffinu.

  Hugsið ykkur hvað við erum heppin, við þurfum ekki einu sinni að sækja konserta þeir bara koma hingað til okkar frábæru listamennirnir á færibandi ár eftir ár.

Hjartanlega velkomin kæru flautuhjón hingað í sveitina okkar.  Vonandi eigið þið eftir að njóta dvalarinnar hér næstu vikukurnar og fá innblástur héðan úr okkar fallega umhverfi.

   


Svona er það þegar maður finnur hinn eina sanna tón!

Graduale kórinn hans Jóns Stefáns 066Þær koma með gull og silfur heim flottu stelpurnar hans Jóns Stefánssonar!  Það var svo sem ekki við öðru að´búast þar sem þarna er á ferð alveg frábær kór og fagrar raddir.

Við hjónin vorum á leið heim núna rétt áðan þegar Jón hringdi í okkur frá Olomouc og sagði okkur þessi frábæru tíðindi. Þetta kom svo sem ekki okkur á óvart þar sem kórinn var  búinn að halda hér tónleika við mikinn fögnuð áheyranda.

  Það er á svona stundum sem maður fyllist þjóðarstolti. 

Innilegar hamingjuóskir og stórt knús til ykkar allra sem standið að þessu verkefni frá okkur hér að Stjörnusteini.

Góða ferð heim á morgun.


mbl.is Gullverðlaun til Gradualekórsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gradualekórinn hans Jóns Stefánssonar kom hingað í dag.

Það er ekki á hverjum degi sem við fáum einkakonsert hér að Stjörnusteini en þó kemur það fyrir.

  Klukkan hálf fimm í dag keyrði Grétar Hansson rútuna sína í hlað

Ef þið smellið á myndina þá sjáið þið að rútan er merkt Reykjavík Iceland

Graduale kórinn hans Jóns Stefáns 074 og út skondruðust flottu stelpurnar hans Jóns Stefánssonar úr Gradualekórnum.  Hver annarri glæsilegri!

Kórinn er hér í Prag í nokkra daga og hélt tónleika í miðborginni í gærkvöldi og einnig söng hann við messu í gærmorgun en það voru víst viðstaddir athöfnina um 500 manns.  Var þeim rosalega vel tekið og fengu meir að segja klapp í messunni sem er víst ekki algengt að gerist hér við slíkar athafnir.

Graduale kórinn hans Jóns Stefáns 053  Þar sem ég gat ekki sótt tónleikana í gærkvöldi fékk ég einkakonsert hér í dag.  Þær tóku lagið fyrir mig út í Listasetrinu og að sjálfsögðu undir stjórn síns meistara.

Graduale kórinn hans Jóns Stefáns 057Ég þarf ekki að taka það fram hér að kórinn er alveg sérlega flottur með frábærar raddir enda held ég að ég fari rétt með að það séu 22 stelpur af þessum 30 sem eru í söngnámi hjá einkakennurum.

Graduale kórinn hans Jóns Stefáns 066 Áður en haldið var til Prag var að sjálfsögðu tekin ein hópmynd en því miður sjást ekki allar skvísurnar á myndinni.  Hundspottið sem þið sjáið í var að trufla myndatökuna svo ljósmyndarinn fór aðeins út fyrir rammann.

Takk elsku Jón minn fyrir að koma með stelpurnar þínar hingað í heimsókn og gangi ykkur vel á alþjóðamótinu í Olomoc. 

Takk stelpur fyrir frábæran söng og skemmtilegan eftirmiðdag hér í garðinum. Þið eruð landi okkar og þjóð til sóma!

 


Tónlistin varð allt í einu lifandi og ég sveif eins og í draumi. Já sæll!

Vitið þið hvað Ayurvedic Massage er?  Nei ekki það, ekki ég heldur fyrr en í gær þegar ég uppgötvaði þetta frábæra Indverska heilunarnudd.  Það var ekki amalegt að byrja sumarið á því að kynnast þessari meðferð.

Ég hafði verið að hugsa um að reyna eitthvað nýtt tll þess að koma orkuflæðinu í stand og reyna að koma mér út úr þessu aðgerðaleysi og aumingjaskap og hafði hugsað mér að reyna Reiki sem ég hafði heyrt um að væri gott fyrir sál og líkama.  Þess í stað var mér bent á Indverska meðferð þar sem notaðar eru þrennskonar olíur og þú liggur þarna eins og Skata í einn og hálfa klukkustund og lætur mjúkar hendur gæla við líkamann sem endar á sandmeðferð sem einnig er líka mjög þægileg. 

Þessi meðferð á að hjálpa líkamanum að endurnýja sig sjálfur en auðvitað með þinni hjálp, sem fellst í því að hugleiða og vera meðtækilegur og skemmir ekki að hafa trúna meðferðis.

Ég veit ekki hvað gerðist en ég fékk það á tilfinninguna að ég lægi í mjúkum grænum mosa og yfir mér hvolfdist iðjagrænt laufþak.  Tónlistin sem var framandi og kom úr litlum Ipod varð allt í einu lifandi og ég sá konu í hvítum kufli sem stóð ekki langt frá mér og söng þessa framandi söngva.  Seinna tók við á Ipodinum karlaraddir en þá fannst mér þær berast all langt frá úr einhverskonar húsagarði með gosbrunni í miðju og þar gengu þessi munkar um í rólegheitum og hummuðu fyrir mig. 

Alveg sama þið þurfið ekkiert að trúa mér en þetta var ótrúleg reynsla fyrir mig.

Í framhaldi varð ég svo heilluð af þessari meðferð að yfir teinu sem Camilla nuddarinn eða eigum við ekki heldur að kalla hana heilara drakk með mér, tek það fram að ég er ekki te fan, en þarna fannst mér það allt í einu gott,  þá pantaði ég Jóga tíma í næstu viku og nudd á eftir.  Aldrei komið nálægt Jóga en það var bara eitthvað sem sagði mér að þetta ætti eftir að hjálpa mér heilmikið og trúin flytur fjöll það vitum við.

Það var ekki amalegt að byrja sumarið svona vel.

SENDUM YKKUR ÖLLUM HLÝJAR SUMARKVEÐJUR HEIM Í YKKAR HÚS SEM BERAST VONANDI MEÐ SUNNANVINDUM HÉÐAN FRÁ STJÖRNUSTEINI.

 

 


Nú er hún alveg búin að missa það hugsa sumir....

Þið sem hafið lesið færsluna mína hér neðar á síðunni þar sem ég talaði um ítarlegar rannsóknir þar sem kaffi getur valdið ofskynjun og maður færi að heyra raddir þá sannprófaði ég þetta hér í morgun á leiðinni til hundrað turna borgarinnar. 

Eftir að hafa hvolft í mig tveimur lútsterkum expresso var ég glaðvöknuð. (Er ekkert svona morgunmanneskja í janúar) Já, nei auðvitað henti ég ekki þessari fínu kaffikönnu út á hlað, það er bannað að taka mig svona alvarlega þegar ég bulla.

OK hvar var ég , já sem sagt klukkan var hálf tíu (hrikalega ókristilegur tími, enn nótt hjá mér) og ég keyrði mig niðr´í borg.  Þar sem ég var komin langleiðina inn í borgina fór að hægjast á umferðinni svo ég renndi rúðunni aðeins niður mín megin.  Þarna eru fjórar akreinar og ég var á þeirri ystu vinstra megin.  Þarna dólaði ég góða stund á eftir hinum bílunum sem allir voru að fara í sömu átt og ég.  Mín orðin aðeins of sein á fundinn og komin svona smá ergelsi í kroppinn.

Þá allt í einu heyri ég blístur.  Ekki beint laglínu en mjög melódíska tóna.  Mér fannst þetta koma úr aftursætinu og leit ósjálfrátt við um leið hugsaði ég:  Ertu að verða vitlaus eða hvað það er enginn þarna aftur í.  Hugsa rökrétt.  Hljóðið hlýtur að koma úr einhverjum bíl hér við hliðina á mér og þar sem ég veit að blístur flyst betur en söngur rúllaði ég rúðunni alveg niður og stakk hausnum út.  Nei þetta kom innan úr bílnum.  Ég rúllaði rúðunni upp og enn hélt blístrið áfram.  Fagrir tónar en engin laglína. 

 Ég hristi hausinn vel og stakk puttanum á kaf í eyrað. Nuddaði vel og vandlega en blístrið hélt áfram úr aftursætinu.  Ég endurtók þetta með rúðuna upp og niður, stakk hausnum út en allt kom fyrir ekki það var einhver að blístra í aftursætinu.

Þá datt mér allt í einu í hug faðir minn heitinn.  Á meðan hann lifði blístraði hann í tíma og ótíma enda mjög músíkalskur.  Ég sneri höfðinu aftur og sagði:  Veistu pabbi minn nú er komið nóg af þessu blístri.  Blobbb.... blístrið hætti eins og við manninn mælt, sko í orðsins fyllstu....

Mér er alveg sama hvort þið trúið mér eða ekki en þeir sem þekkja mig vita vel að ég er stundum pínu öðruvísi á köflum.

 Svo nú er ég alvarlega að hugsa um hvort ég eigi að henda helv... könnufjandanum út á hlað eða sjá til hvað gerist á morgun.

Ætla að bíða til morguns ég hef nefnilega grun um að ástæðan fyrir heimsóknin hans föður míns eigi sér skýringu og segi ykkur frá henni seinna.


Cavalleria Rusticana og Pagliacci.

Ef einhver á núna heiður skilið þá er það Stefán Baldursson Óperustjóri sem sýndi enn og aftur að hægt er að galdra fram meistaraverk í litlu Óperunni okkar og fá okkar færustu söngvara til að koma fram og gleðja okkur í skammdeginu.

Prúðbúnir frumsýningargestir fögnuðu listamönnunum vel í lokin og satt best að segja hélt ég á tímabili að gólf fjalirnar í Gamla Bíó myndu gefa sig.  Held að þetta sé eitthvað sem óperugestir hafa fundið út, að í stað þess að klappa þar til lófarnir eru orðnir eldrauðir og aumir þá stappa gestir af öllu afli í gólfið svo dynur í gömlu fjölunum. 

Það var ánægjulegt að fá tækifæri á að hlusta á Kristján Jóhannsson syngja Canio en það hefur hann sungið margoft út í hinum stóra heimi.  Ekki fannst mér verra að fá að heyra í henni Sólrúnu Bragadóttur í hlutverki Neddu því  ég hef ekki heyrt Sólu syngja í mörg, mörg ár. Langar að geta þess að Elín Ósk Óskarsdóttir var mjög flott í hlutverki Santuzza. 

Þar sem ég er aðeins leikmanneskja þá ætla ég ekki að fara að skrifa kritik hér en vil samt láta koma hér fram að allir einsöngvararnir stóðu sig með mikilli prýði og ekki gat ég heyrt annað en við ættum þarna fólk á heimsmælikvarða. Kórinn var mjög góður líka en pínu staður að mínu mati en sviði býður nú ekki upp á mikinn hreyfanleika.

Til hamingju með kvöldið litla Ópera!

Takk fyrir mig og mína.

 

 

 

    

 

 


Þeir voru hreint út sagt frábærir!!!!!

Blásarakvintett ReykjavíkurUm fimmtíu manns sóttu okkur heim í gær og hlýddu á tónleika Blásarakvintetts Reykjavíkur.  Hér myndaðist svona hálfgerð stofustemmning þar sem ég hafði komið fyrir sófum og hægindastólum hingað og þangað á veröndinni og fólk lét fara vel um sig í síðsumarsólinni og naut þess að hlýða á þessa frábæru listamenn spila hér hvert verkið á fætur öðru. 

Listamönnunum var að sjálfsögðu vel fagnað í lokin og eftir tónleikana buðum við upp á léttar veitingar þar sem öllum gafst tækifæri á að ræða við strákana og fræðast um þeirra feril. 

 Pósthólfið mitt fylltist í dag af kveðjum og átti ég að færa þeim bestu þakkir fyrir frábæran flutning og ánægjulegan eftirmiðdag hér að Stjörnusteini og geri ég það hér með.  

Um kvöldið héldum við Þórir þeim og mökum þeirra auk sendiherrahjónunum okkar sem komu frá Vínarborg smá matarboð hér úti í Leifsbúð.  Mikil og góð stemmning ríkti hér og Listasetrið bauð þessa listamenn velkomna á sinn einstæða hátt með brakandi arineldi og flöktandi kertaljósum sem sendu skugga sína upp í rjáfur þessa sérstaka seturs.

Mig langar að þakka Einari Jóhannessyni fyrir skemmtilega daga hér undanfarnar vikur og góða viðkynningu, en hann hélt heim með félögum sínum í dag. 

Benni, Jo, Hafsteinn og Daði takk fyrir að koma og gleðja okkur og gesti okkar þennan fallega síðsumardag hér í sveitinni.  Ógleymanleg stund sem lengi verður í minni höfð.       


The Reykjavík Wind Quintet í hundrað turna borginni í kvöld.

Þjóðarstoltið var gjörsamlega að fara með mig í kvöld.  Strákarnir okkar úr Blásarakvintett Reykjavíkur þeir Bernharður Wilkinson á flautu, Daði Kolbeinsson á óbó, Einar Jóhannesson á klarinett, Joseph Ognibene á horn og Hafsteinn Guðmundsson á fagott gjörsamlega heilluðu áheyrendur hér í kvöld þar sem þeir héldu tónleika fyrir nær fullu húsi í Gallery Sargsyan í hundrað turna borginni Prag.

Einar Jóhannesson er búinn að dvelja hér hjá okkur í Listasetrinu undanfarnar vikur og var ákveðið að vinir hans úr Blásarakvintettnum kæmu hingað í lok dvalarinnar og héldu konsert í borginni.  Strákarnir hefðu nú átt að vera viku seinna á ferð þar sem við töldum september vænlegri til tónleikahalds.  En þeir fylltu nær húsið og fólk stóð upp í lokin og hylltu þessa frábæru listamenn okkar með húrrahrópum og lófataki. Margir sóttust eftir eiginhandaáritun og þeir voru stjörnurnar okkar sem lýstu hér upp síðsumarnóttina í öngstræti Prag í kvöld.

Efnisskráin fyrir ykkur tónlistaunnendur var Mozart, Ibert, Reicha, Páll. P. Pálsson, Bach og Farkas.

Á morgun ætla þeir að njóta lífsins í borginni með sínum eiginkonum en á laugardaginn koma þeir hingað að Stjörnusteini  þar sem þeir ætla að halda tónleika hér heima í garðinum okkar.

Þá býst ég við að þjóðarstoltið taki sig upp aftur og örugglega í miklu meira mæli þar sem þeir verða hér á næstum Íslenskri grund. 

Takk fyrir frábæra tónleika og ykkar návist kæru félagar! 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband