Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
2.11.2007 | 13:41
Föstudagsþankar hvutta - Dekurdagur
Hún fóstra mín er búin að vera alveg sérstaklega góð við mig í dag. Algjör dekurdagur! Hún er búin að klippa mig svo nú lít ég út eins og eðalhundur en ekki eins og eitthvað flækingsgrey.
Mér finnst ég aðeins hafa verið hafður útundan undanfarið en allt stefnir þetta nú í betra horf þar sem hún ætlar að baða mig í kvöld og gefa mér næringarnudd. Oho ég hlakka mikið til, það er það besta sem ég veit og þá get ég loksins spókað mig hér í sveitinni án þess að skammast mín fyrir útganginn.
Hver veit nema ég fái líka eitthvað sérstakt í kvöldmatinn, þá verður dagurinn fullkominn dekurdagur.
31.10.2007 | 10:36
Nornir og seiðskrattar til hamingju með daginn!
Ég nornin, eins og fleiri sem fæddir eru 31. október erum að sjálfsögðu mjög sérstakur þjóðflokkur og teljumst til norna og seiðskratta. Ekki leiðinlegt það. Hér gutlar í pottum og þokan liggur þung og svört yfir sveitinni. Alveg sérstök Halloween stemmning í tilefni dagsins og ég fíla þetta alveg í botn skal ég segja ykkur.
Minn elskulegi vakti mig með kossi og þegar ég opnaði pósthólfið var það fullt af Amerískum tónkveðjum frá vinum mínum handan hafsins. Soffa mín talaði við mig frá Íslandi með kossum og knúsi. Ekki slæm byrjun á góðum degi. Ætla núna að koma mér í nornarmúnderinguna og halda á fund hins óvænta sem dagurinn hefur uppá að bjóða.
29.10.2007 | 14:47
Nú má ég virkilega skammast mín!


25.10.2007 | 21:31
Föstudagsþankar hvutta - nú er ég fúll á móti
Í allan dag hef ég verið hunsaður af fóstru minni, já hunsaður. Allt hefur snúist um þessa prinsessu sem fæddist í morgun. Örugglega rosalega sæt og fín en hvers á ég að gjalda, bara spyr? Ekki nóg með það, nú á að skilja mig eftir hér heima alla helgina með hússtýrunni þar sem fóstra mín og fóstri ætla að dandalast til Vínarborgar í smá teiti.
Það var búið að lofa mér því að ég fengi almennilegt bað og fínerí á morgun en það skeður örugglega ekki því þau ætla eldsnemma í fyrramálið að heimsækja þessa prinsessu þeirra og segja eitthvað svona dúdú, ossalega ertu mikið krútt og blablabla. Svo á bara að skilja mig eftir hér heima. Þvílíkt hundalíf! Varð bara að koma þessu á blað þar sem ég heyrði að fóstra mín ætlaði að loka tölvunni alla helgina.
25.10.2007 | 12:51
Lítil prinsessa fæddist í morgun hér í Prag
Hér ríkir mikil hamingja og við erum enn hálf skjálafandi, afinn og amman að Stjörnusteini. Í morgun hringdi Egill sonur okkar og sagði að nú væri Bríet okkar komin á spítalann og keisaraskurður í undirbúningi.
Litla Elma Lind Egilsdóttir fæddist síðan rétt fyrir ellefu í morgun. Heilbrigð lítil ömmu og afa stelpa, 2570 gr og 49 cm. Þeim mæðgum heilsast vel en við fáum ekki að sjá þær fyrr en á morgun þar sem Bríeti er haldið á gjörgæslu í 24 tíma eftir fæðingu.
Velkomin í heiminn litli sólargeisli! Hlökkum til að hitta þig á morgun!
20.10.2007 | 14:44
Garðurinn tilbúinn fyrir ,,Halló-vín"
Ég og minn elskulegi erum búin að vera síðan níu í morgun úti að vinna á landareigninni og nú eru Erikurnar og Krisurnar komnar í potta, Graskerin og það sem tilheyrir Halloween skreytir nú garðinn í stað sumarblóma sem voru farin að láta á sjá. Það skemmtilega við að búa erlendis er að hér getur maður breytt umhverfinu utandyra eftir árstíðum.
Við erum að stækka aðeins húsið okkar og mikið rót hér á efri lóðinni. Brutum niður 10 metra af Miðgarði svo nú er okkar hús orðið sjálfstæð eining en ekki samtengd Miðgarði.
Gröfukallinn mætti hér eldsnemma í morgun til þess að ganga frá lóðinni fyrir veturinn eftir allt niðurrifið. Heilmikið umstang. Það ýtti undir okkur að drífa í að koma sumarhúsgögnum og öðru sumardóti í geymslu fyrir veturinn. Mér finnst alltaf dálítið tómlegt þegar allt er komið í hús en haustlitafegurðin bætir þetta allt upp því nú er skógurinn hér í kring eins og logandi eldhaf í haustsólinni.
19.10.2007 | 11:09
Þú ert algjör snillingur!
Hvað annað? Ég hef alltaf vitað það og þarf ekki að lesa það í stjörnuspá Mbl. til að sannfærast og þó... Snillingurinn ég, get ómögulega gert það upp við mig hvort ég eigi að fara út og koma mér í haustverkin. Finnst eiginlega ekki alveg tími til kominn þar sem haustsólin yljar manni enn hér á veröndinni og notalegt að fá sér hádegisverð með litasinfóníuna allt í kring. Veit svo sem að þetta endist ekki mikið lengur og ekki eftir neinu að bíða með að taka inn húsgögn og blóm sem þola ekki kvöldkulið.
Ætli ég drífi ekki bara í þessu - hum...eða hvað? Má svo sem alveg bíða til morguns. Ef til vill betra að nota snilligáfuna í eitthvað viturlegra.
19.10.2007 | 10:06
Lítill gutti á afmæli í dag
12.10.2007 | 22:29
Hvernig á að koma afa í rúmið?
Afi, 85 ára er hér í heimsókn og klukkan langt gengin eitt og sá gamli bara eiturhress og talar og talar. Úps, hvernig á ég að koma honum í rúmið? Hann sem segist vera andvaka alla nóttina, er ekkert á því að koma sér í bælið! Örugglega búinn að dorma hér í allan dag á meðan ég fór í verslunarleiðangur. Ef til vill er hann skíthræddur um að Lilli Klifurmús sé ekki allur og hoppi uppí rúmið til hans. Nei bara segi svona.
Ég og minn elskulegi eigum langan dag fyrir höndum þar sem við erum að taka á móti Lumex genginu hingað í smá teiti ásamt fleira skemmtilegu fólki á morgun og þurfum á smá pásu núna! Halló getur einhver gefið mér ráð með þann gamla
3.10.2007 | 22:56
Takk fyrir Dýrin í Hálsaskógi
Svo óheppilega vildi til í dag að litli Juniorinn fékk heljarins grjótönd á litla fótinn sinn svo úr blæddi og amma heldur að nöglin fari af stóru tánni. Það var mikill grátur og eftir að búið var að setja plástur á meiddið var enn grátið sáran.
Hvernig huggar maður lítinn dreng sem meiðir sig í fyrsta skipti? Mamman, sem vissi að ég hafði fengið Dýrin í Hálsaskógi á DVD frá Heiðu og Jóni mínus datt í hug að setja diskinn í tækið og sjá til hvort það virkaði á lítinn eins árs peyja. Og viti menn, þetta svínvirkaði. Gráturinn þagnaði og þessi eins árs gamli ömmustrákur horfði andaktugur á skjáinn.
Sko, þarna er upprennandi leikari á ferð skal ég segja ykkur. Í heilar tuttugu mínútur sat hann alveg stjarfur og horfði á Mikka ref og alla mýslurnar leika listir sínar. En þegar Lilli byrjaði að syngja Vögguvísuna missti hann áhugann og fór úr fangi mömmu sinnar og meiddið var gleymt og búið.
Heiða mín og Jón mínus takk fyrir að gefa mér diskinn með Dýrunum í Hálsaskógi, þetta kemur örugglega til með að virka seinna í framtíðinni.