Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Litli Juniorinn í heimsókn hjá afa og ömmu

Það er aldeilis búið að vera fjör hér á heimilinu síðustu daga þar sem litli ömmustrákurinn er búinn að snúa afa sínum og ömmu aldeilis í kringum sig.  Þvílíkur gleðigjafi þessi stubbur sem er auðvitað alveg frámunalega skír eftir aldri og enginn á eins fallegan og skemmtilegan ömmustrák. 

 Það verður hræðilega tómlegt í húsinu þegar hann fer aftur heim á fimmtudaginn með mömmu sinni og pabba. Æ, æ hvað við eigum  að sakna þín elsku stubbur litli. Enginn til að gefa manni blauta kossa og knús.  Ætli amma komi ekki bara fljótlega að heimsæki þig, gæti vel ímyndað mér það.    


Gunnar Helgason áttatíu og fimm ára

Ég ætla að byrja þennan fallega haustmorgun á því að óska tengdaföður mínum til hamingju með áttatíu og fimm ára afmælið.  Þar sem við erum fjarri góðu gamni, litla útlagafjölskyldan, sendum við þér hlýjar kveðjur og vonum að þú eigir góðan dag Gunni minn með öllum hinum sem koma vonandi til með að gleðja þig í dag.  

Randver Þorláksson og Guðrún droppuðu hér við í smá teiti.

Það er alltaf gaman að fá skemmtilegt fólk í heimsókn og í dag droppuðu hér inn Randver vinur okkar og hans konu Guðrúnu  í smá teiti, þar sem þau voru á ferð hér með nokkrum góðum vinum í hundrað turna borginni.

Við Randver lékum fyrst saman í Ímyndunarveikinni í Gaggó Rétt og erum búin að vera vinir síðan við vorum í Ísaksskóla. Við vorum samskóla í Gaggó og enduðum síðan saman í Leiklistaskóla Þjóðleikhússins.  Reyndar var Randver ári á undan mér en við sóttum tíma saman þessi þrjú ár og unnum mikið saman í nokkur ár.  Eins og Randver segir oft ,,Þessi stelpa hefur elt mig síðan hún var fimm ára"

Sem sagt fallegur haustdagur með góðum og skemmtilegum vinum hér að Stjörnusteini. Margir höfðu orð á því að gaman væri nú vera listamaður og geta fengið afnot af Leifsbúð í framtíðinni þegar þau sáu okkar litla atalier þar sem Rut Ingólfsdóttir dvelur nú og var svo elskuleg að bjóða hópnum að skoða setrið.  En eru ekki allir listamenn í eðli sínu, bara hver á sinn hátt. 

 

 

 

 


Skemmtileg helgi í góðum hópi

Á föstudaginn skelltum við okkur bæjarleið með Ráðherrahjónunum og keyrðum til Czeský Krumlov.  Það var brúðkaupsdagur þeirra heiðurshjóna Rutar og Björns Bjarnasonar og gaman að halda upp á hann með þeim í haustblíðunni og fornri fegurð Krumlov. Minn elskulegi villtist aðeins af leið enda komið fram í myrkur þegar haldið var af stað heimleiðis.  Honum var nú fyrirgefið þetta smáræði enda allir í góðum gír eins og þar stendur.

Laugardag fórum við til Egils okkar og Bríetar og elduðum saman þennan líka fína gullash og nutum þess að vera saman, litla fjölskyldan.  Nú fer senn að líða að því að nýr fjölskyldumeðlimur fæðist og mikil tilhlökkun hjá öllum.


Juniorinn er eins árs í dag

Hann á afmæli hann Þórir Ingi!  Hann er eins árs í dag!  Til hamingju Ömmustrákur.  Láttu mömmu þína og pabba hafa mikið fyrir þér í dag.  Þetta er nú einu sinni þinn dagur. Afi og amma senda þér fullt af kossum og knúsi og vonandi sjáum við þig á ,,Skypinu" þegar líður á daginn.  Hlökkum til að fá þig hingað í næstu viku.  Afi ætlar að gefa þér fullt af ís og síðan förum við saman í bæinn og kaupum eitthvað skemmtilegt. Knúsi, knús ástarkallinn okkar! 


Föstudagsþankar hvuttalings.

Hún fóstra mín er búin að gefa mér aðgang að blogginu sínu einu sinni í viku.  Ekki veit ég af hverju, en dettur í hug að það sé af því ég er svoddan eðalhundur og eftirlæti allra, nú eða loksins er komið þetta ,,Indian Summer" sem mannfólkið er svo hrifið af. Fóstra mín var alla vega í góðu skapi í morgun og gaf mér jafnvel bita af hafrakexinu sem ég þarf yfirleitt að grenja út.

En hér ligg ég nú og sóla mig og læt mig dreyma.  Sá hvar gestur fóstru minnar fór í göngutúr, hún heitir víst Rut, en nennti ekki að skokka með henni.  Hún gæti verið eins og Gerður hans Helga listamanns.  Hún var rosaleg.  Eftir 6 km gafst ég upp og lagði niður rófuna og sneri heimleiðis.  Ég læt engan hafa mig í aðra eins vitleysu aftur. 

Nú er ég orðinn dálítið þreyttur í loppunum svo ég ætla a hætta að berja þetta á lyklaborðið.  Þarf að láta fóstru mína klippa á mér neglurnar.  Verð að muna það. Verst hvað minnið er stutt hjá hvuttum.   


Ólafur Friðrik Briem fimm ára í dag!

Hehe, alltaf fundist þetta nafn svo hátíðlegt, tvö konungsnöfn fyrir einn lítinn gutta sem er fimm ára í dag.  Elsku Óli minn, til hamingju með daginn! Láttu mömmu og pabba þinn hafa rosalega mikið fyrir þér í dag, þetta er nú einu sinni þinn dagur elskan.  Því miður get ég, móðursystir þín ekki komið í veisluna sem örugglega verður stórkostleg!  Eigðu ánægjulegan dag kæri frændi.  Sjáumst bráðum.

Enn um afmælisbörn mánaðarins

Ég er búin að missa af þvílíkum veislum undanfarna daga heima á Fróni. Æ, æ,æ, þvílík óheppni.  Helgi minn Gíslason listamaður, sextugur 24 ágúst.  Jæja vinur minn bara kominn í hóp ,,eldri manna"  Til hamingju með það!  Í gær átti síðan mágkona mín Björk Jónsdóttir söngkona afmæli og í dag er það Arnór Kári Egilsson og á morgunn Helgi mágur minn.  Það er ekkert smá hvað ágústmánuður er vinsæll sem fæðingardagur meðal vina okkar og ættmenna. 

Við höfum verið með ykkur öllum í huganum og óskum ykkur alls hins besta og skemmtið ykkur vel.


Með afmælisgjöfina í eftirdragi frá Þýskalandi.

Til hamingju með daginn minn elskulegi!  Nú var ég heppin, þarf ekkert að pæla í afmælisgjöf til þín þar sem þú valdir leikfangið sjálfur og ert núna á leið heim með það í eftirdragi.  Forláta Rolls Royce Silver ´68 módel. Þú varst ekki lítið kátur með drossíuna þegar ég heyrði í þér í morgun svo ég bara gleðst með þér í huganum og hlakka til að fá þig heim í eftirmiðdaginn.  

Ég verð nú að viðurkenna að ég er dálítið spennt að bera þetta leikfang þitt augum.  Er víst eitthvað júnik kerra með mahóní bar í aftursætinu.  Eins gott að borgarstjórinn komist ekki í hann!  Við yrðum örugglega sett í bann.

Hér bíður eftir þér Íslenskur humar og kampavín en keyrðu samt varlega elsku vinur.     


Egill Jóhannsson á Rás 1, Soffía og Þorsteinn Már eru afmælisbörn dagsins.

Frá og með deginum í dag hefst mikil afmælishátíð hjá fjölskyldunni sem stendur yfir í heila viku.  Egill minn til hamingju með daginn! Soffa mín og Steini til hamingju með daginn!

 Leitt að geta ekki verið með ykkur þarna heima í kræsingum Sigrúnar og Soffu minnar. Við sendum ykkur hlýjar kveðjur og njótið dagsins í góðum hópi fjölskyldu og vina.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband