Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Velkomin í heiminn litla frænka.

Þú sýnir strax að þú hefur góðan smekk þar sem þú velur þér góða uppalendur.  Þú hefðir ekki getað valið betur.  Rikki og Anna systir eru frábær bæði tvö en passaðu þig að láta þau hafa dálítið fyrir þér öll uppvaxtarárin þín. 

 Þar sem þau eru nú ekki búin að nefna þig og okkur finnst þetta með nafnið ,,Lillan"  ekki beint eiga við þig þá var þér gefið nafn þegar Daddi frændi þinn og Bökka voru hér í heimsókn um helgina. Þú ræður síðan sjálf hvort þú heldur því nafni eða tekur nafnið sem foreldrar þínir velja þér.

Að sjálfsögðu nefndum við þið Þóru Björk í höfuðið á mínum elskulega og Bökku mágkonu.  Finnst þér þetta ekki flott, okkur finnst þetta frábær nafngift.

Guð blessi þig litla frænka mín og skilaðu kveðju til Mömmu þinnar og pabba og stóra bróður.


Nú fer ég í bloggfrí á meðan ég nýt þess að vera heima í hlaðvarpanum, sjáfarseltunni og fuglagarginu.

,,Jæja strákar" eins og góður vinur minn segir oft á tíðum.  Nú fer ég í bloggfrí og ætla að njóta þess að vera heima á landinu okkar góða í nokkra daga með fjölskyldu og vinum. Það verður fróðlegt að heyra frá mér þegar ég sest aftur að skrifum, bíðið bara...........

Íslensk gestrisni stendur enn fyrir sínu og fljótt flýgur fiskisagan.

  Nú þegar leiðin liggur heim á morgun til að kæla okkur aðeins þá flykkjast að okkur heimboðin, húsnæði og bílar svo við vitum eiginlega ekki hvernig við eigum að bera okkur að allri þessari gestrisni. Ég hélt að örfáir vissu af því að við vorum á leið heim en einhvern vegin hefur þetta spyrst út og við ætlum að reyna að gera okkar besta að hitta sem flesta af okkar vinum.  Auðvitað verður fjölskyldan í fyrirrúmi og ég get ekki beðið eftir því að knúsa Juniorinn okkar og dekra hann upp úr skónum.

Ég býst fastlega við því að við verðum í Tjarnargötunni eins og undanfarið þar sem vinur okkar er svo vel stæður að eiga íbúðir hér og þar um alla Reykjavík og getur skipt um þær eins og nærbuxur ef að til þarf og telur ekki eftir sér að ganga úr rúmi fyrir okkur þegar við birtumst heima.  Við erum svo sem ekki vön því að hafa neinn fyrirvara á okkar ferðum en hann er algjör perla og aldrei neitt mál.

Við vonum að þið haldið góða veðrinu áfram. Ég nenni ekki að koma heim í rigningarsudda og leiðindi!  Hlökkum til að sjá ykkur öll hress og sólbrún.  Nú vitið þið öll að við erum á leiðinni heim svo þið getið haft samband við okkur næstu daga á gamla góða Fróni.   

 

    


Hratt flýgur stund.

Hér fór helgin aðallega í það að hlúa að sálartetrinu, litlu fjölskyldunni okkar hér og garðinum.  Við erum enn símasambandslaus og fáum engin svör frekar en fyrri daginn.  Hvað gerði maður ef maður ætti ekki göngusíma?  Einu sinni ætlaði ég aldrei að kaupa mér þetta litla sæta tæki.  Mér fannst það algjört bull að ganga með beina línu í vasanum en í dag þakka ég fyrir þessa tækni af heilum hug.

Við erum að vonast til þess að bilunin hér í sveitinni sé það mikil að þeir sjái sér ekki annað fært en að koma fyrir nýjum og betri línum. Dálítið kaldhæðnislegt að hugsa svona en samt OK að halda í vonina.  Nú tekur við ný vika með nýjum verkefnum og eins og dagbókin lítur út, fyrir næstu daga, sýnist mér þeir  ætla að verða ansi líflegir.


Bloggstuð farið fyrir bí vegna símasambandsleysis.

Minn elskulegi brá sér sí svona til Danaveldis í dag upp úr þurru svo ég var komin í þvílíkt bloggstuð en þar sem allar þrjár símalínurnar hér í húsinu eru óvirkar og ég að nota þráðlausa línu nenni ég ekki að blogga meir í dag.  Þetta tekur svo rosalega á fínu taugarnar. Þannig að  þið verðið bara að bíða spennt eftir næstu færslum. 

Það er eins og alltaf þegar þið þarna heima eruð í bongó blíðu erum við hér í súld.  Reyndar hefur ekki bara verið súld í dag heldur hafa óveðurský hnitað hringi hér yfir Litla Íslandi en allt í kring um okkur hef ég séð í bláan himinn.  Ótrúlegt en satt.  Hér hafa verið þrumur og eldingar öðru hvoru í allan dag.  Ojæja þetta lagst upp úr helginni eða svo er mér sagt. Verð vonandi komin í gott samband á morgun. 

  


Hitinn hér í dag er næstum óbærilegur.

Í morgun hef ég verið að reyna að millifæra nokkrar plöntur en get sagt ykkur það að í 32° hita í skugga er það ógjörningur. Jafnvel kattarófétið hefur ekki látið sjá sig í dag. Ef til vill hafa heilræðin sem ég fékk frá bróður mínum, þetta með sítrusávextina virkað, því auðvitað fór ég eftir ráðleggingunum um hvernig ég gæti losnað við kisa svo nú er öll landareignin útbíuð í appelsínuberki og öðrum góðum sítrusávöxtum.  Og skepnan hefur ekki sést í dag.

Það er annað sem er að pirra mig núna í hitanum.  Það virðast allir þarna á Fróni hafa gleymt mér, enginn póstur, síminn þegir og ég er bara rosalega fúl útí ykkur öll!  Ojæja, ætli þið séuð bara ekki komin í sumarfrí elskurnar eða þá á kafi í vinnu, ef svo er þá er ykkur fyrirgefið af öllu hjarta.

Gott mál, nú er ég búin að kæla mig nóg niður og argaþrasast dálítið og líður miklu betur svo þá er bara að koma sér aftur út og halda áfram að puða hér í svækjunni.

   


Kattaróhræsið farinn að gera sig virkilega heimakominn

Ég hef aldrei verið sérlega hrifin af köttum, og alla tíð verið hálf hrædd við þá.  Undanfarna tvo mánuði hefur kattarkvikindi gert sig heimakominn hér mér til mikillar armæðu.  Fyrst í stað reyndi hundurinn að bægja þessari skepnu frá mér en nú er svo komið að ég get ekki lengur treyst á hundinn. Í staðin fyrir að vera eins og hundur og köttur eru þeir orðnir bestu mátar og farnir að leika sér saman. 

Það er ekki nóg að þetta litla gráa loðna dýr væli hér eftir mat heldur grefur hann upp í öllum úrgangi ef ekki er nógu vel gengið frá, sjálfsagt vegna þess að ég harðneita að fæða þetta óféti.  Minn elskulegi er búinn að segja mér að ég sé óttaleg ótukt við litla greyið en ég bara get ekki að þessu gert, mér er meinilla við hann. Síðan hef ég líka heyrt að kettir hjálpi ekkert við músagangi, þeir bara leika sér að þeim og koma jafnvel með þær hálfdauðar inní hús. Thank you very much! 

Kisi reyndar forðast mig ef hann sér mig því ég stappa niður fótum eins og brjálæðingur og hef gripið til vatnsslöngunnar ef hún er við hendina.  En það virðist ekkert duga til.  Einhverntíma hafði ég heyrt að kettir þoldu ekki hvítlauk, ég er búin að reyna það.  Útdeildi hér hvítlauk um alla lóðina en ég held bara að hann hafi étið hann og fundist góður. Svo nú er ég heimaskítsmát og þigg allar þær ráðleggingar ef einhver hefur þær á takteinum.    


Merkisdagur 15. júní og ég ætla að taka mér frí!

 Í tilefni dagsins ætla ég að gera næstum ekki neitt og njóta hans í botn hér í sumarblíðunni. Reyndar er einhver flensudrusla að hrjá mig en ég ætla ekki að láta hana komast upp með það að skemma fyrir mér daginn, kemur ekki til greina.

Sum ykkar vita hvers vegna þessi dagur er mér svona kær en fyrir ykkur hin sem ekki vita, þá var það var fyrir 33 árum að ég gekk að eiga minn elskulega í Árbæjarkirkju.  Sko gamla settið!  Í gegnum súrt og sætt í 33 ár, ekki svo slæmt ha? 

 


Sakna þín ömmustrákur!

Eftir að hafa haft litla sólargeislann okkar hér í tvær vikur er tómlegt í húsinu.  Enginn sem bablar á sínu máli. þeysist um á göngugrindinni. rífur út allar skúffur og gefur lífinu lit. Og nú þarf amma að pakka niður öllu dótinu þínu og geyma það vel þar til þú kemur aftur í haust.  Ætli við komum ekki heim fljótlega til að fylgjast með þér stúfur litli. 

Að sjálfsögðu vakti átta mánaða drengurinn mikla athygli hvar sem hann kom enda síbrosandi og þar sem afi hans gekk um götur Würzburg með hann á háhesti hélt hann uppi miklum söng við fögnuð gangandi vegfaranda.  Margir höfðu á orði að þarna væri á ferðinni upprennandi óperusöngvari, nú ekki ólíklegt að hann kippi í kynið sá stutti.

Eftir að hafa skilið við Soffu okkar og Juniorinn litla á flugvellinum í Frankfurt héldum við, ég og minn elskulegi til suður Þýskalands og þvældumst þar um í nokkra daga.  Frábært frí en alltaf er nú gott að koma heim aftur.   


Ísland í sjónmáli

Þá er heimsókn þeirrar gömlu að verða lokið í hundrað turna borginni að þessu sinni.  Ég og minn elskulegi ákváðum að fara með hana heim og koma henni í örugga höfn.  Treysti ekki alveg á þjónustuna heima eftir það sem á undan er gengið. Því miður!

Þetta eru búnar að vera góðar vikur hér með þeirri gömlu.  Í gær var hér þessi líka fína grillveisla þar sem foreldrar Bríetar okkar komu í heimsókn.  Það fannst henni aldeilis gaman. Hún er strax farin að tala um hvenær hún ætlar að koma aftur.Wink  

Í dag fór ég með hana í andlitsbað og nudd svo henni fannst hún yngjast um mörg ár.  Á eftir fengum við okkur kvöldmat á Kogo og núna er hún að horfa á fótboltann með mínum elskulega. Bæði alveg í essinu sínu. 

 Við hlökkum til að sjá litla Juniorinn okkar, sem stækkar með hverjum deginum og ykkur öll.  Við förum síðan aftur heim á mánudaginn svo þetta verður stutt stopp.  

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband