Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Chaplintaktar hjá þeirri gömlu

Ég fór með þá gömlu í smá  verslunarferð í vikunni.  Nú tala ég eins og Flosi Ólafs, gamli kollegi minn.  Hann sagði oft að Lilja sín færi með sig hitt og þetta, eins og gamalmenni.

 Eftir að hafa gengið um í verslunarmiðstöðinni og verslað dálítið ákvað ég að nú væri nóg komið og best að koma sér út enda þoli ég ekki svona Mall.  Sú gamla vildi enga hjálp í rúllustiganum og ég var alveg á nálum að hún steyptist þarna á hausinn, en allt gekk vel og við komnar að útgöngudyrunum. Hún æðir beint af augum og inn um snúningsdyrnar á undan mér.  Eitthvað hefur henni fundist hraður snúningurinn því allt í einu stekkur hún af stað og ég horfi á hana hlaupa útskeifa, veifandi stafnum eins og í bestu Chaplin mynd.  Ég stóð þarna fyrir innan í hláturskasti, en út komst sú gamla, óslösuð!  

Önnur verslunarferð var farin því ég varð að fara upp í gróðrastöð og versla plöntur. Á meðan ég var að útrétta fór sú gamla á stúfana og ég létt hana bara eiga sig, enda hefur hún komið þarna mjög oft og þekkir sig mætavel.  En það hefði ég ekki átt að gera, því hún hafði það af að kaupa þvílíka vitleysu, einhverja ómerkilega glerdiska, forljóta.  Ég spurði hvað hún ætlaði að gera við þetta.  Þá átti þetta að vera gjöf til Önnu systurShocking  Síðan nokkrum dögum seinna þegar ég segi að hún geti nú varla farið að gefa svona dót, þá segir sú gamla ,, æ,já ég var nú að hugsa það, ætli ég eigi þetta þá ekki bara sjálf". Wink

Annars hefur vikan liðið stóráfallalaust og farið að síga á seinni hluta ferðarinnar.  Ég verð nú að fara með hana í bæinn í dag eða á morgun svona til að róa verslunargleðina.  Það er líka búið að vera gestkvæmt hér og það finnst henni alveg meiri háttar gaman. Svo hefur veðrið leikið við hana og ekki hefur það skemmt ferðina.  

Jæja, ég heyri að mín er vöknuð svo það er best að setja sig í hlustunarstellinguna.  Ég hef reynt að nota tímann á morgnanna á meðan hún sefur til að gera það nauðsynlegasta.  Þetta er eins og að vera með litlu börnin, drífa sig að gera eitthvað á meðan þau sofaLoL 


Gleðilega páskahátíð!

Hér er búin að vera mikil hátíð í allan dag.  Lambakjötið að heiman var frábært!! Minn elskulegi stóð yfir pottunum og útbjó þvílíkt páskagúmmelaði!  Ég gerði síðan litlu ljúfu sæluna.  Glæsilegt páskaborð með Nóa Sirius eggjum og tilheyrandi dúlleríi.  Egill okkar, Bríet, Helga og Hafsteinn komu hingað og fögnuðu páskum með okkur. 

Í gær fór ég með þá gömlu á páskamarkaðinn á gamla torginu og hún var alsæl!  Ætlaði fyrst ekki að vilja fara neitt, var eitthvað sloj, en ég bara dreif hana með mér og enduðum við eftir góða göngu um markaðinn, með Helgu og Hafsteini á Reykjavík í kvöldmat.  Mín var alsæl og sat lengi vel hér í eldhúsinu hjá mér þegar heim kom og talaði um, úps, eitthvað fólk sem ég þekki ekki sporð né haus á.  Rlosalega gott að segja bara já og amen eftir efninu. 

Nú er sú gamla komin til kojs og ró farin að færast yfir okkur hjónin enda klukkan að ganga tíu.  Á morgun verður dagurinn tekinn rólega.  Ætli ég geri ekki huggulegan brunch fyrir okkur hér úti á veröndinni enda á sólin að skýna og hitinn að fara yfir 18°   


Sú gamla mætt á svæðið, heil á húfi og alsæl!

Minn elskulegi tók á móti tengdamömmu sinni í gær og lýsti því með tilþrifum fyrir mér þegar hann kom heim.  Þarna kom hún út úr flughöfninni sitjandi í hjólastól með fylgdarmann og veifaði mannfjöldanum í allar áttir eins og drottning.  Hún átti ekki orð yfir huggulegheitin og tillitsemina sem henni var sýnd hér við komuna til  Prag.  Það var víst eitthvað annað heima á Flugstöð Leifs Eiríkssonar við brottför, en ég þarf að kanna það mál betur áður en ég fer að skammast opinberlega.

Erna var svo elskuleg að fylgja henni alla leið og þarf ég að finna út á hvaða hóteli hún býr svo ég geti þakkað henni fyrir.  Hafsteinn og Helga voru líka með vélinni en hittu kellu aldrei, ætli hún hafi ekki verið að verslaWink  gæti hugsað mér það.  Mér var nú farin að lengja eftir þeirri gömlu en minn elskulegi varð að fara með H & H niður á Reykjavík, en þau gista í íbúðinni þar.  Egill og Bríet komu þangað til að hitta Ömmu sína og sú gamla fékk Häagen Dazs ís, alsæl. Vildi ekkert borða, var örugglega alltof spennt. 

Þegar hún loksins kom hingað heim gaf ég henni kaffi og rak hana síðan í rúmið.  Þar svaf hún í tvo tíma og klæddi sig síðan upp fyrir kvöldmatinn eins og hefðarkonu sæmir.  Auðvitað var fiskur á borðum og hún auðvitað sársvöng eftir langan föstudag.  Við tókum upp eðalhvítvín, dýsætt og mín alsæl með lífið.  Ég rak hana síðan aftur í rúmið klukkan hálf ellefu og ég veit þið trúið því ekki, en hún sefur enn.  Ætli ég verði ekki að prófa að setja spegil við vitin á henni til að tékka á önduninni.  Nei, það er allt í lagi með hana, engar áhyggjur. 

 Ég læt ykkur fylgjast með hér á blogginu kæra fjölskylda næstu daga.     


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband