Færsluflokkur: Vefurinn
20.1.2008 | 09:03
Fer skammdegið svona illa í ykkur?
Ég er nú viss um að Fischer karlinn hefur verið búinn að gera einhverskonar ráðstafanir varðandi útför og greftrun eins sérvitur og hann var. Nú svífur hann yfir ykkur og hlær hásum hrossahlátri yfir allri vitleysunni og hversu auðvelt var að hafa ykkur í vasanum.
Nei í alvöru tala. Leggja hann til hinstu hvílu við hlíð Jónasar eru menn ekki með fullu viti þarna. Fer skammdegið svona illa í ykkur eða hvað? Á síðan að reisa aðra súlu með logandi kyndli. Ég er ekkert að gera lítið úr Fischer. Merkur maður sem á allt gott skilið, en jarðsetja hann á Þingvöllum! Hvað með okkur öll hin?
![]() |
Fischer grafinn á Þingvöllum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2008 | 13:22
Og ég sem var farin að hlakka svo til..
svo bara gleymir kallfauskurinn því að hann var búinn að lofa að taka mig með næst. Tekur bara einhverja Ditu pítu í staðin. Ætli það hafi verið þetta von sem gerði útslagið ég er auðvitað bara dóttir, ekkert svona von kjaftæði. Svo hefði ég alveg getað sparslað upp í hrukkurnar og gert mig svona málmkennda eins og hún lítur út fyrir að vera á myndinni. Síðan hefði ég líka sparað honum flugfargjaldið því ég hefði bara keyrt mig sjálfa á svæðið.
Ég er bara grútspæld var meira að segja búin að fá leyfi hjá mínum elskulega enda löngu ákveðið að hann tæki Ingibjörgu Sólrúnu með sér svo fær maður bara þetta svona beint í andlitið.
Þetta mál er sko í athugun skal ég segja ykkur.
![]() |
Dita von Teese gestur Lugner á óperudansleiknum í Vín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.1.2008 | 10:34
Erum ekki komin með ,,útibú" á Íslandi
Þar sem borðapöntunum hefur rignt yfir okkur og vegna fjölda fyrirspurna frá vinum og vandamönnum um hvort við, ég og minn elskulegi værum búin að opna,, útibú" í höfuðborginni við sundin blá, viljum við til leiðrétta allan misskilning láta ykkur vita að svo er ekki.
Restaurant Reykjavík - Praha er enn á sínum stað eftir sautján ár og litlar líkur á því að útibú verði opnað á næstunni. Útvarpsauglýsingin frá Restaurant Reykjavík er væntanlega frá Café Reykjavík í Vesturgötunni. Dálítil önnur ella. En þið eruð öll velkomin hvenær sem er hingað til Prag en því miður erum við ekki með Þorramat á boðstólum en við munum taka á móti ykkur með bros á vör.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.12.2007 | 10:57
Áramótakveðja héðan frá Stjörnusteini
..GAMLÁRSKVÖLD er sú stund sem minnir okkur best á vanmátt sjálfsins í tímanum. Þannig kemst Búi Árland að orði í Atómstöðinni. Dulítið sem vert er að hugleiða á tímamótum.
Öll skiljum við eftir eitthvað af okkar sjálfi í formi minninga þegar gamla árið kveður og vonandi horfa flestir björtum augum til komandi árs 2008. Að lifa fyrir líðandi stund og getað þakkað fyrir hvern dag, hvort sem okkur finnst hann hafa verið okkur gjöfull eða erfiður er mikil kúnst en ætti að takast ef við leggjum okkur fram. Grasið er heldur ekki alltaf grænna hinum megin girðingar.
Við hér að Stjörnusteini óskum ykkur öllum farsældar á nýju ári hvar sem þið eruð stödd í heiminum. Þökkum vináttu ykkar á lífsleiðinni og sendum ykkur ljós á nýju ári 2008.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2007 | 11:36
Jólakveðja frá Stjörnusteini
Megi jólin færa ykkur frið og fögnuð hvar sem þið eruð stödd í heiminum kæru vinir og fjölskylda. Njótið samverustunda í faðmi fjölskyldu og vina og hafið það reglulega huggulegt um hátíðina. Kveikjum á friðarkertum og minnumst þeirra sem ekki eru lengur á meðal okkar og biðjum fyrir öllum nær og fjær.
Jólaknús til ykkar allra frá okkur hér að Stjörnusteini.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2007 | 13:47
Jólaklukkur hljóma í byrjun lesturs jólakveðja hjá Ríkisútvarpinu
Það var ekki laust við að lítið tár eða tvö læddust í augnkrókana áðan þegar lestur jólakveðja hófst nú fyrir stuttu í Ríkisútvarpinu. Síðan ég man eftir mér hafa jólakveðjur landsmanna verið órjúfanlegur hluti Þorláksmessu ef frá eru talin þau ár sem við náðum ekki útvarpstengingu hér í Tékklandi.
Á okkar heimili á Íslandi var Þorláksmessa ávallt mjög skemmtileg. Minn elskulegi var yfirleitt á kaf í vinnu þar sem við rákum veitingastað í miðborginni en ég naut þess að vera heima með börnunum og klára undirbúning jólanna. Um kvöldið þegar búið var að loka Matstofunni fengum við hjónin okkur göngutúr niður Laugarveginn og alltaf var stoppað hjá gull- og úrsmiðunum Jóni og Óskari og fengið sér koníakslögg. Haldið var síðan áfram alla leið niður í miðbæ með smá stoppum hingað og þangað þar sem kunningjum og vinum var óskað Gleðilegra Jóla. Eftir bæjarrölt var haldið í Hraunbæinn og kíkt aðeins inn hjá góðvinum okkar. Þegar heim kom var síðan jólatréð skreytt. Yfirleitt var það nú minn elskulegi sem stóð í því en ég var góð þar sem ég sat í stól og stjórnaði verkinu með harðri hendi. Stundum laumaðist ég aftur inn í stofu þegar minn elskulegi var sofnaður og ,,lagaði" aðeins skreytinguna eftir mínu höfði.
Já það hefur mikið breyst hér síðan við héldum okkar fyrstu jól hér í borg og ein Þorláksmessa er mér ofarlega í huga núna þegar ég skrúfa til baka. Ekki man ég nú hvaða ár það var en það er örugglega langt síðan.
Allavega var Soffa okkar ekki hér þá með okkur þau jólin því annars hefði ég ekki verið svona alein á Þorláksmessu. Ætli sonurinn og minn elskulegi hafi ekki verið á kafi í vinnu því ég man bara eftir því að ég var að ganga hér ein um götur Prag í frostkaldri nóttinni og tárin streymdu niður andlitið, mikið fannst mér ég þá vera einmanna. Mikið saknaði ég þá þess að vera ekki heima á rölti niður Laugarveginn.
Já stundum var erfitt að vera hér í ókunnu landi en mikið má ég vera þakklát fyrir að þessi tilfinning kemur örsjaldan yfir mig og í dag hef ég næstum alla fjölskylduna hér hjá mér. Alla nema Soffu mína og hennar fjölskyldu. Mikið sakna ég þeirra núna.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2007 | 08:15
Jólaskaup Orkuveitunnar
Allgjör snilld! Starfsfólk með húmorinn í lagi. Þeir sem ekki hafa kíkt á myndbandið ættu að gera það hið snarasta. Lífgar upp á svartasta skammdegið og kemur öllum í gott skap. Ætli þau verði fengin til að troða upp í Áramótaskaupinu? Það mætti alveg borga fyrir svona skemmtilegheit!
![]() |
Rei, rei, ekki um jólin" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2007 | 11:03
Nú klikkuðu Svíar aldeilis....
....því jólasveinarnir búa enn á Íslandi og meira að segja svo tugum skiptir. Það vitum við sem fylgjumst með fréttum og þjóðarsálinni. Ekki aðeins jólasveinar heldur líka fullt af jólasveinkum sem afneita bleika litnum bara svo eitthvað sé nefnt.
Leppalúði, Grýla, Leiðindarskjóða og Bóla eru þarna einhvers staðar líka og stjórna öllum þessum skara með harðri hendi. Það hefur ekkert breyst og mun ekki breytast. Við höldum fast í okkar menn og engin von um að þeir finnist í Kirgistan.
Íslenski jólasveinninn verður alltaf á okkar góða landi, bara misjafnlega sjáanlegur.
![]() |
Leita að Sveinka í Kirgistan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2007 | 13:40
Tvær rannsóknir að mínu skapi
Nú geta karlar hætt að þusa yfir því að við konur förum öðru hvoru á trúnó. Ég hef alltaf sagt að þeir séu ekkert betri, þeir laumupokast einfaldlega bara miklu meira með þetta en við. Láta svo eins og þeir hafi verið að bjarga heiminum en eru bara að ,,kjafta" sín á milli.
Að við konur séum duglegri við húsverkin er engin ný bóla en gott að þetta er nú orðið skjalfest svo maður getur vitnað í án þess að hugsa sem svo: ,,æ grey kallinn hann er nú líka duglegur við þetta eða hitt" Það tók minn elskulega nokkur ár að finna rafmagnssnúruna í ryksugunni. Fann hana ekki fyrr en dóttir okkar benti honum snyrtilega á að hún væri ,,inni í" græjunni.
![]() |
Rannsókn: Karlar eru málgefnari en konur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2007 | 21:32
Þráinn Bertelsson með nýja bók
Í dag kom út ný bók eftir vin okkar Þráinn Bertelsson og ég og minn elskulegi óskum honum innilega til hamingju. Hér ríkir mikil eftirvænting að fá að líta þetta verk augum og verður örugglega slegist um hver fær fyrstur að lesa.
Ég hef haft það á tilfinningunni að þessi bók eigi eftir að slá í gegn, veit ekki af hverju en stundum fæ ég mjög sterk hugboð sem yfirleitt sannreynast. Þráinn minn til hamingju með ,,skrudduna" þína eins og þú orðaðir það sjálfu hér áðan í póstinum. Held að þetta sé aðeins meira en einhver skrudda heillakallinn.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)