Færsluflokkur: Vísindi og fræði
22.7.2007 | 23:28
Nikótín gegn Parkinsonveiki?
Barbara vinkona mín frá USA sem þjáðst hefur af Parkinson í 15 ár gisti hér hjá okkur um helgina og okkur rak í rogastans þar sem hún fékk sér sígarettu úr pakkanum mínum og kveikti í. Hvað var hér í gangi? Ég vissi fyrir víst að hún hafði aldrei reykt og var alfarið á móti reykingum. Ég varð hálf bjánaleg og sagði eins og fífl,, What is going on?" Hún brosti þessu blíða brosi eins og henni einni er lagið og sagði: ..Well,I found out it is good for my disease" Ja hérna, þessu hefði ég aldrei búist við.
Barbara er ein af þeim sem aldrei gefst upp og þar sem ég hef fylgst með henni í öll þessi ár hér er með ólíkindum hvað hún hefur getað haldið sjúkdómnum lengi í sama horfinu með ótrúlegri seiglu. Hún er enn að spila Golf og starfar á fullu hér hjá IWAP. En nú hefur henni hrakað mjög hratt og hún ætlar svo sannarlega ekki að gefast upp. Kaffi, sígó og annar ,,óþverri" er núna á hennar lista. Og læknirinn hennar í USA samþykkir allar hennar tillögur, jafnvel finnur hún stundum ný lyf og biður um þau þrátt fyrir að hún viti að þau eru aðeins til reynslu.
Við erum góðar vinkonur til margra ára en höfum við aldrei talað um hennar sjúkdóm og það var ekki fyrr en fyrir tveimur árum að ég var með henni í samkvæmi þar sem boðið var upp á hlaðborð. Ég sá að hún gat engan vegin haldið á disknum svo ég tók hann af henni og sagði henni að setjast við borðið. Þarna voru engin orð nauðsynleg, og við töluðum aldrei um þetta atvik fyrr en í fyrrakvöld hér heima. Hún sagði: Yes, I remember, we did not need any words that day"
Í dag eigum við tvo aðra vini sem þjást af þessum sjúkdómi. Góða vinkonu okkar heima á Íslandi og vin á Írlandi sem greindist með Parkinson í ár. Ekki veit ég hvort nikótínið hjálpar, en hver veit?
9.6.2007 | 09:14
Gleðifrétt, brátt getum við andað léttara!
Ég er ein af þessum prinsessum á bauninni sem verð að sofa með marga kodda og held vöku fyrir mínum elskulega með óþolandi gelti. En nú getum við sem þjáumst af þessum kvilla sem kallast astma og heymæði glaðst því vinir okkar Svíar ætla að leiða okkur út úr þessum vanda.
Hér við grasrótina eru akrar sem bæta ekki beint ástandið hjá minni. Í ár er þetta virkilega slæmt og ég hef verið að hlaupa á milli Lyfjaverslana til að reyna að finna eitthvað nýtt lyf sem e.t.v. gæti virkað betur en þau sem undanfarið hafa fengist hér. Það er verra með pústið, það á ekki að fást nema með lyfseðli en í fyrrasumar fann ég Lyfjaverslun hér í borg þar sem þeir voru svo elskulegir að selja mér púst án lyfseðils. Ég bara bar mig þvílíkt aumingjalega og þeir sáu að konan var alveg að gefa upp öndina svo mér voru rétt lyfin. Nú þarf ég að láta reyna á þetta aftur, sjáum bara til. Ég nenni ekki að fara til læknis og lenda í endalausum rannsóknum.
Þegar ég greindist fyrst með þennan kvilla fór ég í rannsókn hér í Prag og var gefin svo mörg lyf að ég var hætt að geta talað fyrir hæsi og var hálf utanvið mig alla daga. Ári seinna fór ég með öll þessi lyf í plastpoka og kastaði þeim á borðið hjá lækni hér í borg og hann bara góndi á mig og spurði hvort ég hefði virkilega tekið allt þetta inn. Ég sagði sem satt var að ég hefði fljótlega hætt því vegna allskyns aukaverkana. Hann sagði bara Thank God, þú værir orðin mjög háð þessu ef þú hefðir tekið allt þetta sull inn. En nú sem sé getum við farið að hlakka til, eftir svo sem 15 ár að geta andað léttara.