Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
7.3.2008 | 08:54
Sorgleg staðreynd
Hvað er það sem kallar á okkur að flytja aftur heim, jú fjölskyldan, vinirnir og sterk þjóðerniskennd sem bindur okkur við landið okkar. Ég býst við því að flestir mundu vilja flytja heim ef þess væri einhver kostur en því miður er það bara ekki svo auðvelt þá sérstaklega fyrir ungt fjölskyldufólk sem er rétt að byrja að koma undir sig fótunum.
Dóttir okkar sem bjó með sinni fjölskyldu erlendis í nær átta ár flutti heim í fyrra. Þau voru ein af þeim heppnu, áttu sína eigin íbúð og fengu góða vinnu bæði tvö. Það var sem sagt ekkert basl framundan og þau hlökkuðu mikið til að vera nálægt fjölskyldu og vinum.
Ef þú spyrð þau í dag hvernig þeim líki heyrir þú smá hálfkæring á milli orðanna. Jú, margt er gott annað er ekki svo gott. Bæði í 100% krefjandi vinnu og barnið í leikskóla, aðeins eins og hálfs árs gamall. Nánast engin tími fyrir venjulegt fjölskyldulíf vegna þess að þau eru útkeyrð þegar heim er komið. Það er engin amma eða afi til að létta undir og gefa þeim smá frí inn á milli. Hvernig verður þetta þegar drengurinn stækkar og fer að krefjast meiri tíma.
Ég yrði ekkert hissa ef þau tækju þá ákvörðun að flytja aftur erlendis, í alvöru tala. Þetta er sorgleg staðreynd og þau eru ekki ein í þessari stöðu. Fjöldinn allur af velmenntuðu fólki getur ekki hugsað sér að fara heim til þess eins að þræla sér út og láta börnin sín sitja á hakanum.
Ekkert vit í að flytja til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.2.2008 | 22:57
Sápustríðið herjar á fleiri stöðum
Sá þessa undarlegu frétt ef frétt skildi kalla í morgun og af því að hún hangir enn inni (skil ekki hvað er málið) þá langar mig til að upplýsa ykkur um það að nú er að skella á sápustríð um gjörvalla Evrópu. Allir sem vettlingi geta valdið hella sér í stórþvotta með Ariel Ultra, Ariel Mountain og Ariel Color. Sápulöðrið flæðir hér hvarvetna úr hýbýlum manna svo fólk á fótum sínum fjör að launa og kerlingar standa kófsveittar yfir þvottavélum og suðupottum og sést ekki til sólar fyrir mjallahvítum þvotti sem blaktir hér í vorgolunni eins og gunnfáni við hvert heimili.
Jú, jú hér fóru þeir líka hamförum, Proctor & Gamble og bjuggu til fjöll af þessu undra þvottaefni í öllum helstu stórmörkuðum Tékklands. Hvað er svona merkilegt við það? Stórfrétt í Mbl. tekið beint úr Aftenposten. Sápustyrjöld yfirvofandi! Halló það vita allir sem hafa haft einhver kynni af Norðmönnum að þeir elska sitt OMO og fara nú varla að skipta um tegund eins fastheldnir og þeir eru.
Ég skildi þessa herferð hér ósköp vel vegna þess að í dag flæðir inn í landið allskyns hreinlætisvörur sem Tékkar hafa litla sem enga þekkingu á svo fyrir mér var þetta ósköp eðlileg sjálfsbjargarviðleitni af hálfu P & G.
Þegar við komum hingað 1991 var aðeins hægt að fá eina tegund þvottaefnis, man nú ekki hvað það hét en flestir keyptu bara þessa gömlu grænsápu svo og það sem við kölluðum Sólskinsápu þegar ég var að alast upp. Mörg heimili suðu sína eigin sápu og hér var enginn sóðaskapur á heimilum. Tékkar eru mjög þrifin þjóð og hvergi voru eins hreinar gardínur fyrir gluggum og hér. Allir áttu eins gardínur og allar voru þær mjallahvítar. Sápa var munaðarvara og ef þú komst inn á almenningssalerni þá var sápan í neti sem var kirfilega fest við vegginn, stundum með hengilás.
Einu sinni spurði ég konu hér hvert ég gæti farið með fötin mín í hreinsun. Hún hafði aldrei heyrt um fatahreinsun svo ég spurði ,, Nú hvað gerir þú þá við t.d. jakkaföt mannsins þíns?" ,,Ég þvæ þau í höndunum heillin" svaraði hún og brosti svo skein í skemmdar tennurnar. Svona var nú þetta 1991 en hvort Arial eða Persil kemur til með að koma á einhverri sápustyrjöld hér það stórefa ég.
Datt þetta bara svona í hug þegar ég sá þessa bjánalegu frétt um yfirvofandi sápustríð í Noregi
Nýtt sápustríð yfirvofandi í Noregi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.2.2008 | 16:23
Eitthvað hljóta þessar endalausu vegaframkvæmdir að kosta.
Þetta er nú ekki nýtt af nálinni og nákvæmlega þessa hugmynd viðraði ég við samferðamenn mína þegar við vorum að keyra til Keflavíkur í fyrradag. Svörin sem ég fékk voru eitthvað á þá leið að kostnaður væri of mikill og fjöldi ferðamanna ekki nægur til að lestarkerfi borgaði sig.
Eins og þetta lítur út í dag er vegurinn stórhættulegur og þrisvar urðum við að fara út af aðalbrautinni vegna vegaskemmda, að ég held eða framkvæmdir liggja niðri tímabundið vegna þess að verktakinn fór á hausinn. Eitthvað í þá áttina voru svörin við heimskulegri spurningu minni. Eitthvað hljóta þessar endalausu vegagerðir að kosta. Jarðýta stóð utan vegar ein og yfirgefin og við fengum þær upplýsingar að tækið væri svo gamalt og úr sér gengið að það borgaði sig ekki að selja það og allt of kostnaðarsamt að fjarlægja gripinn. Ýtan er víst búin að vera þarna í langan tíma og verður örugglega á sama stað þegar ég kem heim næst.
Vilja láta skoða möguleika á lestarsamgöngum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |