Færsluflokkur: Menntun og skóli

Hvað er planið þegar þú verður stór?

Ég sat í sjónvarpssófanum og um mig skoppuðu barnabörnin, þriggja og fjögra gjörsamlega upptekin af sjálfum sér.  OK ég spurði aftur og var lítið um svör.  Sá stutti fjögra ára fór inn í barnaherbergið en skotta litla skottaðist í kringum ömmu sína.

Í sjónvarpinu var einhver þáttur um fólk sem hafði getið sér nafns innan þjóðfélagsins og þ.á.m. var Diddu sem var komin til Verona og smakkaði á dýrindis ítölskum krásum og þess á milli tók nokkur stef.  Skotta litla snerist á hæl og snarstansaði þegar hún heyrði Diddú opna fyrir hljóðpípurnar og eins og við manninn mælt þá fór hún að fylgjast með dýfunni okkar. Ég reyndi að skjóta inn á milli laga að þetta væri mjög góð vinkona okkar afa en sú athugasemd fór inn um annað og út um hitt þar sem söngurinn heillaði Elmu Lind gjörsamlega og ekki vegur að ná kontakt við þá stuttu svo ég ákvað bara sjálf að þessi stelpa yrði einn daginn óperusöngkona enda ekki langt að sækja það í ættirnar.

Ég leyfði henni að vera í sínum draumheimi og gekk inn í barnaherbergið þar sem fjögra ára puttinn lá á maganum og málaði í gríð og erg.  Amman alveg.....Váááá hvað þetta er flott!  Ég fór ekkert út í spurningar heldur sló því föstu að þarna færi listamaður mikill sem ætti framtíð fyrir sér.  Nóg væri af hæfileikunum.

Ég gerðist svo djörf að spyrja hvað þetta væri og þá var hann kominn með frænku sína á pappírinn og svei mér þá ef það líktist skottu ekki bara ótrúlega mikið.

Ég ákvað að þar færi mikill myndistamaður með árunum, ekki spurning.

Á meðan þau fara ekki út á leiklistabrautina þá er allt í góðu.   Amma búin að prófa það og sér ekkert vit í því ja nema fara erlendis en það stóð nú ekki svo léttilega til boða á þeim árunum.

Æ hvað er ég að bulla hér núna.

  Gerið bara það sem ykkur langar til elskurnar og verið hamingjusöm og lifið lífinu lifandi!


Krúttblogg á sunnudegi.

Sæt mynd af Gæja Lallaberta með trúðarnebbann sinn.  Fallegt af honum að skutlast út í geim til að vekja athygli á vatnsskorti!

Þegar ég sá þessa mynd datt mér í hug að í þessum sporum gæti dóttursonur okkar verið eftir svo sem þrjátíu ár eða svo.  Hvers vegna? - jú vegna þess að hann þriggja ára guttinn tilkynnti fyrir skömmu að hann ætlaði að verða geimfari þegar hann yrði stór. 

- Jæja sagði amman en þá verður þú að vera duglegur að læra.  Minn með allt á hreinu: Já amma nú er ég í leikskóla, so fer ég í grunnskóla og menntaskóla og so háskóla.  - Nú já sagði ég og hugsaði um leið:  Hver ætli hafi komið þessu í hausinn á þriggja ára snáðanum?  Var varla búin að hugsa þetta til enda þegar hann sagði:  Og so fer ég í geimfaraskóla. 

 Það er nebbla það!!!!

Hlakka til að minna hann á þetta þegar hann kemst á alvitra-aldurinn.

En þessi barnabörn mín eru algjör krútt.  Áðan vorum við að heimsækja Elmu Lind teggja áa.  Amman hafði keypt handa henni hálsmen og armband og mín var alsæl með að vera alleeinsoamma með hásesti. En klár, þegar ég var búin að setja glingrið á hana tók hún í eyrnalokkana mína en sagði ekkert.  Amma skildi áður en skall í tönnum, auðvitað, það hefðu átt að fylgja eyrnalokkar. Dúllu-Dósin....

 Svo fann amman lykt og sagði:  Ojj Elma Lind ertu búin að kúka í þig?  Bláeig, ljóshærð með bros allan hringinn með hálsesti, armb, bleika spöng og í háæluðum skóm af frænku sinni sagði hún hreykin eins og þetta væri algjört þrekvirki:  Jahááá´!!  Svo var farið að skipta um bleyju og þá allt í einu þar sem hún lá með talnabretti í höndunum byrjar mín að telja á ensku frá einum og upp í tíu.  Mamman alveg upp í skýjunum æpti á pabbann:  Egill varst þú að kenna henni þetta?  -  Hann alveg: Nei!  Hún hefur lært þetta í leikskólanum og undrabarnið var knúsað og klappað fyrir og allir alveg á dampinum hvað krakkinn væri æðisleg!

Já þetta eru snillingar þessi barnabörn okkar, vandfundið annað eins hér í henni veslu skal ég segja ykkur.        


mbl.is „Geimtrúðurinn" lentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins ásættanlegt nafn. Næstum búin að sætta mig við þetta þökk sé 5. - 7. bekk grunnskóla.

Þegar ég var heima í haust og barnabarnið var á leið út í leikskólann lét faðir hans einhverja dulu yfir höfuðið á blessuðum drengnum.  Ég reyni alltaf að skipta mér sem minnst af en þarna gat ég ekki orða bundist og spurði:

-Hvað er þetta eiginlega?

-Þetta er Buff

-Buff hvað?

-Bara Buff

-Og á drengurinn að far út með þetta á höfðinu?

-Já af hverju ekki, það eru allir með svona í leikskólanum, þetta er inn.

Hugsaði já en barnið er tveggja ára veit ekkert hvað er inni eða úti.  Þetta er sem sagt inn hjá foreldrum.

-Já er það sagði ég og hverju á þetta lufsuverk að skýla, það er við frostmark úti

-Hann er með aðra húfu í skólanum.

Amman þagði en hugsaði aumingja barnið hann lítur út fyrir að vera niðursetningur með þennan skræpótta skýluklút. Lítur út eins og förukerling.

Það skal tekið fram að á meðan ég dvaldi á heimilinu og fór út með drenginn á meðal fólks var buffið týnt og tröllum gefið.

Haldið þið ekki að minn elskulegi hafi keypt sér svona buff þarna uppi á LOST landinu en það hvarf líka með óskiljanlegum hætti sko áður en við komum heim.

Ég skil núna og veit að það var nafnið á þessu þarfa háls, eyrna og höfuðskjóli, sko auðvitað var ég frædd um gildi buffsins, sem fór svona hrikalega fyrir brjóstið á mér. 

  B U F F !  Lindu, Góu eða hakkað buff langaði mig nefnilega til að spyrja.  Ónefni sem ég bara sætti mig ekki við og þ.a.l. þoldi ég ekki þennan höfuðbúnað. Einfalt mál.

Skjóla merkir jú fata en getur líka merkt skjól ef við horfum fram hjá öllum sólarmerkjum.

Er næstum búin að sætta mig við að börn gangi með þennan skýluklút um höfuð.

 

 

 

 

 


mbl.is Höfuðfatið heitir skjóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er maðurinn að fara?

Lesblinduiðnaður, allt má nú kalla það.  Maðurinn hlýtur að vera á lyfjum!  Að lesblinda sé tilbúningur sem menntakerfið hafi fundið upp til að hylma yfir lélegan árangur nemenda.  Þvílíkt bull hef ég nú bara aldrei heyrt.

Ég tel mig þekkja það vel til les- og skrifblindu, ja alla vega nóg til þess að svona skrif fara virkilega í pirrurnar á mér.  Dóttir mín barðist við þetta allan barnaskólann og það var ekki fyrr en ég heyrði um lesblindu að ég gat gert eitthvað í málunum.  Þökk sé góðri vinkonu minni sem þá bjó í Vínarborg.

Les- eða skrifblinda er ættgeng eða svo er mér sagt.  Margt af þessu lesblinda fólki hefur farið menntaveginn svo það er alveg óskiljanlegt hvað þessi hæstvirti þingmaður getur látið út úr sér í lok greinarinnar. 

Það var ekkert auðvelt að berjast við sjö ára gamalt barn sem lét bækurnar fljúga milli enda stofunnar þar sem ég reyndi eftir fremsta megni að lesa með henni.  Þetta kostaði helling af þolinmæði og tíma.  Skólinn taldi hana bara seina í lestri, ég vissi að það var eitthvað meira að. 

 Ég hafði lesið með syni okkar sem náði árangri á einum vetri en hún var bara miklu verr sett. Ég hafði þann háttinn á að ég las upp úr blöðunum setningar og bað þau að skrifa eftir mér og síðan leiðrétta sjálf eftir bestu getu.  Þetta fann ég upp hjá sjálfri mér og það virkaði í öðru tilvikinu en ekki hinu.

Hér áður fyrr voru þessi börn talin tossar og sett í ,,Ö-bekkinn" og fengu aldrei tækifæri á að læra.  Bæði börnin okkar fóru menntaveginn og kláruðu það með glans.  Dóttir okkar fékk sem betur fer aðstoð þegar hún fór upp í menntaskólann.  Stundum þegar við skrifumst á hér á netinu þarf ég að lesa í eyðurnar en hún líka veit að ég skil skrifin hennar og þá hættir hún að vanda sig.

Mamma skilur mig segir hún oft við þá sem kvarta stundum yfir því að verða að lesa á milli línanna.

 

 


mbl.is Segir lesblindu afsökun menntakerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfum til framtíðarinnar og verum jákvæð.

Loksins kom eitthvað jákvætt í fréttum og á rektor Háskóla Íslands hrós skilið fyrir að ætla að leggja aukna áherslu á nýsköpunarverkefni á vegum vísinda og fræða á komandi ári. 

Þetta litla ljóð er búið að sitja fast í mér í nokkra daga svo ég ætla að láta það fylgja hér með.

 

AÐEINS EITT LÍF 

 

Við erum ekki með níu líf

eins og James Bond eða köttur

 

við erum sannast sagna

aðeins með eitt líf

svo vitað sé með vissu

 

því skaltu nú hætta

   að mæla flest í hljóði

 

að sofa kastalasvefni

bíðandi eftir kossinum

sem öllu muni breyta

 

að láta þvottavélar

samvisku þinnar

þeytivinda blóðið

úr lífæðunum

 

já hættu líka að ganga

ávallt troðnar slóðir

 

farðu heldur kattarstígana

ósýnilegu, spolausu

sem liggja hér og þar

gegnum skrifuð og óskrifuð

ævintýri

 

þú munt reyndar ekki eignast

neitt af níu lífum kattarins

 

en lætur þér eflaust nægja

 

ævintýrin.

Úr ljóðabókinni Öskudagar eftir Ara Jóhannesson

 


mbl.is Háskólinn mun svara kalli samtímans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg staðreynd

Hvað er það sem kallar á okkur að flytja aftur heim, jú fjölskyldan, vinirnir og sterk þjóðerniskennd sem bindur okkur við landið okkar.  Ég býst við því að flestir mundu vilja flytja heim ef þess væri einhver kostur en því miður er það bara ekki svo auðvelt þá sérstaklega fyrir ungt fjölskyldufólk sem er rétt að byrja að koma undir sig fótunum.

Dóttir okkar sem bjó með sinni fjölskyldu erlendis í nær átta ár flutti heim í fyrra.  Þau voru ein af þeim heppnu, áttu sína eigin íbúð og fengu góða vinnu bæði tvö.  Það var sem sagt ekkert basl framundan og þau hlökkuðu mikið til að vera nálægt fjölskyldu og vinum. 

 Ef þú spyrð þau í dag hvernig þeim líki heyrir þú smá hálfkæring á milli orðanna.  Jú, margt er gott annað er ekki svo gott.  Bæði í 100% krefjandi vinnu og barnið í leikskóla, aðeins eins og hálfs árs gamall. Nánast engin tími fyrir venjulegt fjölskyldulíf vegna þess að þau eru útkeyrð þegar heim er komið.  Það er engin amma eða afi til að létta undir og gefa þeim smá frí inn á milli.  Hvernig verður þetta þegar drengurinn stækkar og fer að krefjast meiri tíma. 

 Ég yrði ekkert hissa ef þau tækju þá ákvörðun að flytja aftur erlendis, í alvöru tala.  Þetta er sorgleg staðreynd og þau eru ekki ein í þessari stöðu.  Fjöldinn allur af velmenntuðu fólki getur ekki hugsað sér að fara heim til þess eins að þræla sér út og láta börnin sín sitja á hakanum.  

 


mbl.is Ekkert vit í að flytja til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfélagið brást 158 einstaklingum

Eftir kvöldmatinn settum við Syndir feðrana í DVD spilarann en þá heimildamynd höfðum við keypt í fríhöfninni á leiðinni heim.  Það var átakanlegt að hlusta á sorgarsögu þessara manna vitandi það að um leið bjó maður sjálfur í hlýjum heimkynnum foreldra og hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast innan veggja þessa ,,heimilis" að Breiðuvík.  Ég man að ef einhver hafði orð á því að þessi eða hinn hefði verið í Breiðuvík var sneitt fram hjá viðkomandi, þetta voru ,,vandræðabörn" og maður skildi forðast alla umgengni við svoleiðis líð.

Guð minn góður hvað þessir drengir máttu þola og enginn hreyfði legg né lið.  Í dag eru 25% af þessum drengjum látnir.  Sjálfsagt hafa nokkrir komist áfram í lífinu af eigin ramleik en síðan eru þeir sem hafa alla tíð barist við óttann við lífið.  Sumir fallið mörgum sinnum í djúpa gryfju og aldrei komist upp en aðrir krafsað í bakkann og hafið betra líf, sem betur fer.

Ég ber mikla virðingu fyrir þessum mönnum sem fram komu í myndinni og Kastljósi á sínum tíma og þeir eiga alla mína samúð.  Það þarf mikla áræðni til þess að koma fram fyrir alþjóð og opna sárar minningar eftir svo mörg ár.

Stakk mig dálítið þegar ég las um skýrslu nefndar sem fjallaði um starfsemi Breiðavíkurheimilisins.

Samfélagið hefur brugðist!

Draga má lærdóm af þessu máli!

Málið enn í rannsókn!

Málið gæti hugsanlega verið fyrnt!

NEFNDIN STARFAR ÁFRAM AÐ ÞESSUM MÁLUM!!!

Þetta segir okkur aðeins eitt, málið er dautt. 

Grátlegt að heyra annað eins frá prófessor í félagsráðgjöf og hennar nefndarmeðlimum!

 


mbl.is Draga má lærdóm af Breiðavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband