Færsluflokkur: Dægurmál
19.10.2007 | 11:09
Þú ert algjör snillingur!
Hvað annað? Ég hef alltaf vitað það og þarf ekki að lesa það í stjörnuspá Mbl. til að sannfærast og þó... Snillingurinn ég, get ómögulega gert það upp við mig hvort ég eigi að fara út og koma mér í haustverkin. Finnst eiginlega ekki alveg tími til kominn þar sem haustsólin yljar manni enn hér á veröndinni og notalegt að fá sér hádegisverð með litasinfóníuna allt í kring. Veit svo sem að þetta endist ekki mikið lengur og ekki eftir neinu að bíða með að taka inn húsgögn og blóm sem þola ekki kvöldkulið.
Ætli ég drífi ekki bara í þessu - hum...eða hvað? Má svo sem alveg bíða til morguns. Ef til vill betra að nota snilligáfuna í eitthvað viturlegra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2007 | 09:01
Fyrsta Jack & Jones opnuð í Prag í dag
Egill Þórisson og Bríet Þorsteinsdóttir opna í dag sína fyrstu Jack & Jones verslun hér í Prag. Verslunin er til húsa í göngugötunni, nánar tiltekið þar sem fyrsta Vero Moda verslunin var opnuð árið 2000. Í dag reka þau hjónin fimm verslanir hér í Prag og Dresden með vörumerkjum frá danska fyrirtækinu Best Sellers.
Miklar breytingar hafa verið gerðar á húsnæðinu og verslunarrýmið stækkað upp á aðra hæð og er samtals um 800 fermetrar. Við óskum ykkur Egill minn og Bríet innilega til hamingju með áfangann og gangi ykkur allt í haginn í framtíðinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.9.2007 | 09:41
Allt á floti alls staðar
Ég er sallaróleg, eða ég er að minnsta kosti að reyna að vera róleg. Vaknaði í morgun um hálf sjö og hér var allt á floti! Minn elskulegi úti að moka skurði með vinnuþrælnum en vatnið og aurinn bunaði hér af akrinum inná veröndina. Ahhhrrr.. ekki einu sinni enn! En ég er róleg, sallaróleg, ekkert mál, þetta reddast, þetta með 40 manna BBQ sem á að vera hér í garðinum á laugardaginn. Hvernig í ósköpunum á það að vera hægt? Við erum með leirdrullu hér um allt!
Ég þori ekki einu sinni að athuga með veðurfregnir fyrir helgina, andsk..vesen. Nú þegar þetta er skrifað eru komnar stórvirkar vinnuvélar hér að reyna að bjarga málunum. Hefðu átt að vera komnar hingað fyrir mánuði! Það er virkilega þung brúnin á mínum elskulega núna skal ég segja ykkur, en ég er róleg alveg sallaróleg, eða þannig!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2007 | 08:03
Erum hér í djúpum skít í orðsins fyllstu merkingu.
Veðurguðirnir röskuðu svefnró okkar í nótt þar sem úti geisaði stormur með eldi og brennistein. Drulluleðjan fossaði hér yfir útieldhúsið frá efri lóðinni og veröndin var eins og stöðuvatn. Eins og við mátti búast flæddi inn í eldhúsið en sem betur fer fór rafmagnið ekki af svo við gátum hamið vatnsflauminn með vatnsugunni. En geðslegt var þetta ekki því í þetta sinn fengum við leðjuna inn en ekki hreint bergvatn eins og síðast.
Núna liggur leðjan eins og 3ja sm þykkt teppi yfir 200 fm veröndinni. Ég er ekki farin að fara út til þess að athuga skemmdir en verð að sækja í mig kjark, því nú þarf virkilega að taka til hendinni. Það er engin spurning að við verðum að gera einhverjar róttækar breytingar á efri lóðinni því þetta er í fjórða sinn sem flæðir inn á okkur á þessu ári. En lán í óláni, við höfum alltaf verið heima þegar hamfarirnar hafa skollið á okkur og þ.a.l. getar haldið vatsflauminum í skefjum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2007 | 09:24
Guðrún og Gestur á Rás 2 ómissandi í morgunsárið.
Ég verð að fá kaffi um leið og ég vakna og ekkert múður en í morgun klikkaði kaffivélin á veröndinni, sem tekur eina 400 bolla. Hver drekkur eiginlega allt þetta kaffi? Leit hófs í eldhússkápum að venjulegu kaffi, loksins, loksins en uppáhellingin var ansi súr enda ekki alveg nýmalað.
Ég get verið rosalega morgunsúr og í morgun eftir langan fastasvefn og ekkert kaffi til var ekki beint grenjandi hamingja hjá minni. En Guðrún og Gestur hjá Rás 2 björguðu algjörlega deginum með sínu hressa andrúmslofti í hljóðstofu. Af öllum góðum útvarpsmönnum ólöstuðum hafa þau margsinnis glatt mitt sálartetur í morgunsárið. Keep up your good work!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2007 | 06:59
Morgunþankar
Á meðan dalalæðan skríður hér upp yfir trjátoppana og ég klára morgunsopann er ég enn með hugann við gærdaginn. Áhrifin frá ljóðalestri James Ragan sitja enn föst í kollinum. Ég er aðeins búin að fletta í gegn um bækurnar hans og er farin að hlakka til að eignast þá fjórðu en hún kemur væntanlega út á næsta ári.
Ég fékk að heyra það í gær að ég væri ekki nógu dugleg að mæta hingað og þangað með vinum mínum niðrí borg. Æ, ég bara nenni ekki að þvælast í bæinn á sumrin, þegar borgin er yfirfull af túristum og fnykurinn úr holræsunum á heitasta tímanum er kæfandi. En þetta skilur enginn nema sá sem býr út á landi. Ég lofaði nú samt að reyna að bæta mig, það er ekkert smá sem maður er vinsæll,heheheh..
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2007 | 09:06
Í Pollýönnuleik í umferðinni.
Ég er nú yfirleitt ekki mikið pirruð hér í umferðinni þó ég lendi í smá ,,staui" en eftir tveggja tíma teppu í gær í 40° hita var mín orðin dálítið geðill. Svo er þetta líka svo tilbreytingalaust, þar sem HL var fyrir framan mig með bílinn svo fullan af drasli að ég sá aðeins fatahrúgur og kúst. DK og D við vinstri hliðina með grenjandi krakka í aftursætinu og mér á hægri hönd heljarinnar trukkur.
Ferðafólkið var farið að hópast úrillt úr úr bílum sínum löðrandi sveitt, baðandi út öllum öngum með uppgjafarsvip. Ég mátti vera svo glöð, því ég var með kælingu í bílnum og svo mátti ég vera svo glöð af því að ég var líka á sjálfskiptum. Ég var því farin að vorkenna öllum hinum sem ekki höfðu þessi þægindi. En síðan var annað sem ég gat engan vegin komið saman við Pollýönnuleikinn, ég var alveg í spreng og hafði líka gleymt að taka með mér vatnsflösku. En til þess að gleyma því, mátti ég vera glöð yfir göngusímanum mínum sem stytti mér stundir.
Síðan varð ég svo glöð, því það sem olli þessu öllu var ekki slys heldur vegavinna og á endanum kost ég heim heil á húfi. En ég var enn samt dálítið pirruð en mátti síðan vera svo glöð að komast á klósettið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2007 | 18:33
Yessss! Búin að fá ,,garðínu" og ekki í pallíettublússu!
Nú er mín ekkert smá ánægð. Eftir að hafa tuðað og suðað um að komast ekkert áfram hér í garðinum barst mér að himnum ofan í gær þessi líka þrælduglega kona. Skælbrosandi birtist hún hér þrátt fyrir að ég hefði sagt vinnumanninum að ég ætlaði að athuga málið. Meðferðis hafði hún fjóra plastpoka og svei mér þá ég hélt hún væri að flytja inn. Ekki veit ég enn hvað var í pokaskjöttunum.
Um daginn gafst ég alveg upp á að komast yfir verkin hér og datt í hug að spyrja annan vinnumanninn hér hvort hann þekkti ekki einhverja konu sem væri til í að fá sér smá aukapening. Hann kom síðan og sagði mér að hann hefði eina á takteinum en sú gæti bara unnið frá 3-7. Ég sagðist (á minni góðu tékknesku) að ég skildi athuga málið og léti hann síðan vita. Að sjálfsögðu tók hann mig bara á orðinu og að athuga getur líka þýtt prófa. Svo nú er ég komin með þessa þrælduglegu konu sem er eins og jarðýta og ég get snúið mér að því að halda áfram að hanna lóðina.
Satt best að segja hef ég ekki verið ýkja heppin með hjálparhellur hér í garðvinnunni. Fyrst fékk ég eina frá Úkraínu og sú var nú skrítin. Fyrsta daginn mætti hún hér í svörtum leggings og gylltum pallíettutopp eins og hún væri að fara á ball. Kunni ekki að halda á hrífu hvað þá meir. Hún hafði eitthvað mikið dálæti á garðslöngum og hennar yndi var að rífa slöngurnar allar í sundur þar sem þær voru samansettar og rúlla þeim snyrtilega upp í hrúgu. Úðarar og annað sem tilheyrði var hent hingað og þangað því hún vissi auðsjáanlega ekki til hvers þeir voru þó að ég reyndi margsinnis að segja henni að úðarar væru nauðsynleg áhöld. Sú næsta var héðan úr sveitinni og var þokkaleg í byrjun en þegar leið á sumarið í fyrra var hún komin með alla fjölskylduna hingað og sat undir húsvegg á snakki allan daginn. Þannig að ég hafði litla trú á að finna góða,,garðínu" en viti menn nú held ég að hún sé fundin og er á meðan er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2007 | 10:39
Ein rósin enn í hnappagat Íslendinga erlendis.
Crowne Plaza hótelið var opnað formlega hér í Prag á fimmtudaginn með viðhöfn. Hótelið er í eigu Jóns Ragnarssonar athafnamanns og fjölskyldu. Glæsilegt hótel sem stendur rétt fyrir ofan Prag kastala í Stahov. Við ásamt sendiherra okkar Sveini Björnssyni og konu hans Sigríði vorum viðstödd opnunina auk fámennum hóp landa okkar. Þar sem hótelið er endurbyggt á grunni gamals klausturs var við hæfi að ábótinn í Strahov klaustrinu blessaði hótelið og aðstandendur eftir kúnstarinnar reglum. Veðurguðirnir voru ekki alveg hliðhollir þennan dag en gömul tékknesk trú segir að ef rignir á slíkum hátíðisdegi þá er það blessun fyrir alla.
Við óskum þeim öllum til hamingju með þetta framlag og alls hins besta í komandi framtíð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2007 | 16:08
Æ,æ,æ, hvaða endemis vitleysa er þetta?
Þar sem ég fór inn á síðuna mína núna rétt áðan brá mér í brún því mér hafði orðið á að skrifa umhugsun í tveimur orðum. Hvaða bull var nú það. Þetta er hreint með ólíkindum. Ætli ég hafi bara ekki verið að hugsa um eitthvað allt annað og hugurinn farið á flakk.
Áður en ég verð hökkuð niður í spað vil ég biðja alla íslenskufræðinga svo og aðra sem þetta lásu sem létu þessa óhugsuðu setningu fara í pirrurnar á sér velvirðingar og lofa að vanda mig betur í framtíðinni og hugsa um hvað ég er að setja niður hér á blogginu. Ég er nú samt alveg í rusli en er að reyna að friða samviskupúkann með því að halda því fram að enginn sé fullkominn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)