Færsluflokkur: Lífstíll

Pólska hússtýran mín bjargaði búslóðinni.

Eftir langvarandi þurrka undanfarið var ekki hjá því komist að himininn færi að gráta en að táraflóðið yrði svona mikið hjá veðurguðunum datt okkur ekki í hug, ekki aftur!  Fyrir nokkrum vikum gekk hér yfir þvílíkur stormur að fjögur 25 metra tré fuku upp með rótum hér á landareigninni.  Það var mikil eftirsjá af þeim trjám. En það er eins og veðurhamurinn leiti núna á þetta svæði þar sem við búum og lítið sem við getum gert í því annað en að biðja vel til Guða regns og vinda.

Á fimmtudaginn brugðum við, ég og minn elskulegi okkur af bæ þar sem við vorum boðin til veislu niðrí Prag.  Þegar við nálgumst borgina sjáum við óveðurský hrannast upp yfir borginni og leyst mér satt að segja ekki á blikuna þar sem við fyrir nokkrum vikum upplifðum þann mesta storm hingað til þar sem  flæddi inní húsið okkar og máttum við hafa okkur öll við að dæla vatni út. Það mynduðust hér stöðuvötn á landareigninni þar sem jarðvegurinn tók ekki við öllu þessu vatnsmagni svo og að öll niðurföll stífluðust.  Ég vissi að hússtýran mín og annar vinnumaðurinn voru enn heima og reyndi ég að bægja þessari ónotatilfinningu frá mér, enda ætluðum við að gista um nóttina inn í Prag og þ.a.l. lítið sem við gátum gert í stöðunni annað en að vona það besta.

Það var ekki fyrr en daginn eftir að við fréttum að aftur hefði sveitin okkar orðið  fyrir stormi sem jafnaðist á við hvirfilvind og miklar skemmdir orðið víðsvegar í nágrenninu.  Það var sem sagt ekkert tilhlökkunarefni að koma heim.  Við bjuggumst við því versta. Nú megum við þakka hússtýrunni okkar og vinnumanni fyrir að hér varð ekki tjón á innanstokksmunum.  Þau stóðu hér í ströngu langt fram eftir kvöldi að dæla vatni úr húsinu og björguðu þannig húsbændum sínum frá stórtjóni.

Nú er hitastigið aftur komið yfir þrjátíu og við getum búist við svona úthelli aftur hvenær sem er þannig að nú þarf að fara að gera hér róttækar ráðstafanir svo við lendum ekki í þessu einu sinni enn.  

     

 

 

 


Án um hugsunar.....

...klæddi ég mig í morgun í bleika skyrtu og fór í bleika skó án þess að hafa hugmynd um hvaða dagur væri.  Það var ekki fyrr en ég fór að fletta Mogganum að ég mundi eftir 19. júní.  Skemmtileg tilviljun.

Annars ekki skrítið að maður ruglist hér á dögum þar sem síðasta vika var óvenju erilsöm.  Endalaus veisluhöld ef ekki hér hjá okkur þá hjá vinum okkar inní Prag. Og þar sem flensudruslan hefur verið að hrjá mig undanfarið hefur útstáelsið ekki bætt þar um betur.  Skrítið að maður skuli ekki geta sagt nei, ég kemst ekki, ég er lasin. Neihey, maður þvælist allt drullulasin og situr síðan úti í sumarnóttinni langt frameftir eða þar til maður er farinn að finna virkilega fyrir kvöldkulinu án þess að hugsa um afleiðingarnar daginn eftir. Hvaða vitleysa er þetta! Jú einfaldlega af því að það er svo gaman.

En nú er ég að taka mig saman í andlitinu og hér er ég búin að koma mér upp algjöru heilsu-apóteki.  Nú á sko að taka á því, Coldrex, hálssprey og allskonar non-drowsy pillur.  Ég gafst nefnilega upp á því að láta líkamann vinna úr þessu sjálfan, sem er víst svo inn í dag, því minn líkami vildi bara ekki gegna þessum nýju vísindum.  Svo nú er bara að sjá til hvernig til tekst og það á næstu þremur dögum því þá er næsta party.           

 

 

 


Undraverður uppsláttur!

Hér hjá okkur í sveitinni, undanfarna daga hafa vinnumennirnir okkar verið að slá upp fyrir steinvegg, þar sem 200 ára gamall veggur var að hruni kominn. Uppslátturinn vakti listamanninn Helga Gísla virkilega til umhugsunar og sá ég hann með myndavélina hér snemma morguns að mynda þessa hörmung í bak og fyrir.

Minn elskulegi var nú búinn að segja þeim fyrir verkum en einhverja hluta vegna fóru þeir sínar eigin leiðir og þvílíkt og annað eins klambur höfum við ekki séð síðan við vorum krakkar að byggja kofana okkar.  En þar sem við vorum ekki heimavið í gær og komum seint heim og sáum ekki fyrr en í morgun þennan líka furðulega uppslátt.  Lítið var hægt að gera því von var á steypubílnum um hádegi.  Auðvitað lak öll steypan niður og á milli þylja þegar byrjað var að dæla svo hér voru allir komnir í steypumokstur til að bjara málunum. Að lokum eftir margra stunda mokstur komst þetta sull allt í mótin og nú er bara að bíða og sjá hvernig til tókst.

Þetta minnir mig á þegar við hér fyrir nokkrum árum vorum með fólk frá Úkraníu í vinnu.  Það var með ólíkindum hvað þetta fólk gat fundið uppá. Eitt sumarið fengum við hjón í sumarvinnu og vorum búin að gera upp íbúð hér í starfsmannahúsinu sem við köllum Víkina.  Ég hafði komið fyrir næstum nýjum ísskáp og íbúðin leit þokkalega út. Fyrsta daginn þegar frúin kemur út í garðvinnuna er hún ekki þetta líka flott í glitrandi pallíettubol.  OK, ég hugsaði með mér að fyrst hún væri svona fín í taujinu þá hlyti hún að ganga vel um.  Eftir u.þ.b. mánuð fann ég einhverja annarlega lykt berast úr íbúðinni svo ég fór að athuga málið. Mér fellust algjörlega hendur.  Það var búið að fjarlægja klósettseturnar og þvílík aðkoma, þrátt fyrir að ég hafði skilið eftir hreinlætisvörur, bursta og skrúbbur.  Og til að kóróna allt saman hafði ísskápurinn aldrei verið settur í samband og maturinn auðvitað úldinn í 30° hita.  Eftir þetta sumar lofaði ég mér því að fá aldrei aftur Rússa í vinnu og hef staðið við það.            


Hans heilagleiki gekk út í garðinn og um leið braust sólin fram

Í gær var dumbungur í henni Prag og eiginlega í mér líka en þar sem langur dagur var óumflýjanlegur,  varð maður bara að koma sér í gírinn og taka á honum stóra sínum.

Við mættum í móttöku hjá vinum okkar Norðmönnum þar sem haldinn var hátíðlegur 17. maí.  Við erum nú ekki mikið fyrir að sækja þessar móttökur nema þá hjá nágrannaþjóðum okkar Íslendinga.  Eins og vera ber stóðu sendiherrahjónin Inger og Peter í anddyrinu og tóku á móti gestum sínum. Vinkona mín var glæsileg í sínum fallega þjóðbúningi en með vinstri hendina hátt á lofti þar sem hún var reyrð í einhverskonar spelkur eftir að hafa dottið á skíðum fyrir sex vikum.  Þar sem hún hefur mjög góða kímnigáfu fannst mér bara vanta norska fánann í hendina. Þetta var auðvitað ekkert findið en samt ansi skoplegt.

Þar sem frekar þröngt var orðið um manninn fór fólk að safnast saman á veröndinni þrátt fyrir dumbung og hráslaga.  En viti menn, um leið og Hans heilagleiki, fulltrúi kaþólsku kirkjunnar gekk út þá birti til og sólin hellti geislum sínum yfir samkomuna.  Einn af gestunum gat ekki á sér setið og hrópaði upp yfir sig, kraftaverk!

Ekki náði kraftaverkið til míns slæma maga svo eftir einn og hálfan tíma kvöddum við vini okkar sem stóðu enn í sömu sporum, frúin en með hendina hátt á lofti, auðsjáanlega sárþjáð með frosið bros á vörum.  Kraftaverkið hafði heldur ekki náð til hennar.  Þarna var hvorki staður né stund til að gantast með kringumstæður en það verður örugglega gert seinna í góðu tómi.

 

   

 

 

 


Bjargvætturinn Helgi Gísla

Hér að Stjörnusteini stendur til að malbika 500 metra langa innkeyrslu en áður en framkvæmdir hefjast þarf mikla útsjónarsemi og pælingar.  Við hjónin stóðum í gær og körpuðum aðeins um bugður á veginum og vorum heldur ósammála. 

 Þar sem við stóðum við Leifsbúð barst þetta til eyrna Helga sem snaraðist út til að bjarga málunum.  Ekki leið á löngu þar til listamaðurinn var búinn að aðstoða okkur við verkið og við hjónin orðin sátt.  Þeir vinirnir héldu síðan í gönguferð um skóginn með hundinn í eftirdragi en ég þakkaði fyrir glöggt gestsauga.

   

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband